Skip to content

Súkkulaðibitakökur með ristuðum kókos

Við áttum alveg frábæra helgi í borginni og erum ansi brún og sælleg eftir allt húllumhæið. Guðbjört, vinkona okkar, vinnur hjá Bloomberg fréttaveitunni í borginni og var svo góð að bjóða okkur með á sumarhátið fyrirtækisins. Við vissum að þetta væri ansi vel útilátin hátíð en okkur grunaði kannski ekki hversu langt þetta var frá grilluðum pylsum og gosi. Þeir höfðu leigt eyju í East River og buðu upp á heilgrillaðan grís á teini, mexíkóskan mat, indverskan mat, grillaðan fisk, hamborgara, pylsur, bjór, sangríur, gos og ís. Þarna mátti fara í míní-golf, paintball, fótbolta og alls kyns leiktæki. Allt í boði fyrirtækisins. Við skemmtum okkur alveg stórkostlega, Elmar vann paintballkeppni og ég brann á öxlunum.

Það eru bara örfáir dagar síðan ég lofaði sjálfri mér að kveikja ekki á ofninum það sem eftir lifir sumars. Eldhúsið okkar er innst í litlu stúdíóíbúðinni okkar, er gluggalaust og ofninn er risastór. Þegar loftkælingin er ekki í gangi (en henni er stjórnað af eigendunum uppi) þá er það ekki heiglum hent að fýra upp í skrímslinu því innan nokkurra mínútna verður íbúðin alveg bullsjóðandi heit. En mig langaði bara svo mikið í smákökur að ég stillti vifturnar á fullt, sneri rofanum og reyndi að hafa hraðar hendur. Og útkoman var alveg þess virði – súkkulaðibitakökur með brúnuðu smjöri og kókos. Reyndar fannst mér kókosbragðið heldur milt og mæli með að skella smá meira kókosmjöli heldur en uppskriftin kveður á um.

Súkkulaðibitakökur með ristuðum kókos

(Breytt uppskrift frá Joy the Baker)

 • 225 g smjör
 • 180 g sykur
 • 150 g púðursykur
 • 1 msk vanilludropar
 • 310 g hveiti
 • 3/4 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 1 stórt egg
 • 1 eggjarauða
 • 1/2 dl [1/4 bolli] kókosmjöl, án sætuefna, ristað á pönnu*
 • 2.3 dl [1 bolli] súkkulaðibitar, dökkir

[*Ég hefði reyndar viljað hafa meira kókosbragð og mæli því með að nota meira magn af kókosmjöli.]

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F.

Ristið kókosmjölið á pönnu þar til það er orðið fallega gyllt á litinn. Leyfið að kólna.

Setjið smjörið í lítinn pott og setjið yfir meðal-lágan hita. Smjörið mun byrja að freyða og gefa frá sér hljóð. Eftir smá stund mun smjörið hætta að gefa frá sér hljóð og það fer að brúnast. Leyfið því að verða ágætlega brúnt, hellið því síðan úr pottinum yfir í skál og leyfið að kólna í nokkrar mínútur.

Takið fram meðalstóra skál og hrærið saman hveiti, matarsóda og salti. Setjið til hliðar.

Þeytið saman púðursykri, sykri og brúnaða smjörinu. Blandan verður frekar kornótt. Bætið því næst egginu og eggjarauðunni saman við og þeytið þar til blandan verður kekkjalaus. Bætið vanilludropunum saman við og hrærið.

Hafið hrærivélina stillta á lægstu stillingu og bætið hveitiblöndunni saman við. Þeytið þar til allt hefur blandast saman. Takið skálina frá vélinni og blandið súkkulaðibitunum og kókosmjölinu saman við með sleikju. Deigið verður mjög þykkt.

Búið til matskeiðarstórar kúlur úr deiginu og raðið á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið í 10 til 12 mínútur, eða þar til smákökurnar eru fallega gylltar en ennþá frekar mjúkar í miðjunni. Leyfið smákökunum að kólna á ofnplötunni í 5 mínútur áður en þær eru fluttar yfir á grind.

Geymið í loftþéttum umbúðum.

Prenta uppskrift

8 athugasemdir Post a comment
 1. Inga Þórey #

  Mmmm! Girnó!

  19/06/2012
 2. Rosalega líst mér vel á þessar, stökkar yst en mjúkar í miðjunni.

  Mér finnst líka mjög gaman (þó ég þekki þig ekki) að fá alltaf eina og eina litla sögu frá New York … þó þetta sé matarblogg :)

  19/06/2012
  • Þær ná einmitt þessu rétta jafnvægi – mjúkar og stökkar í senn :)

   Og mikið finnst mér gott að heyra að fólk kunni líka að meta þessar örsögur, stundum finnst mér ég vera óttalegur blaðrari um ekki neitt ;)

   20/06/2012
 3. Inga Þórey #

  ég bakaði þær, þær eru ljúffengar! en ég setti alveg tvöfalt meiri kókos og það var ekki gott múv – deigið þornaði svolítið upp af kókosnum og náði sér ekki vel saman. Þær eru ss góðar en ljótar og ég náði ekki að nýta allt deigið

  03/07/2012
  • Ah! Gott að vita. Spurning hvort að það sé þá betra að nota kókosdropa (essence) til að tapa ekki raka úr deiginu…

   03/07/2012
 4. Hildur #

  Ég verð bara að hrósa þér fyrir algjörlega frábært blogg. Af öllum bökunarbloggum sem ég les (og þau eru sko mörg) er þetta í langmestu uppáhaldi. Er búin að baka svo margar uppskriftir héðan að það er eiginlega vandræðalegt. Prófaði þessa uppskrift og þær eru frábærar. Margfaldaði kókosmjölsmagnið reyndar svo mikið að ég þori ekki einu sinni að gefa það upp og sem betur fer urðu þær ekki þurrar. Frábærar með ískaldri mjólk.

  06/07/2012
  • Takk æðislega fyrir það Hildur. Það gleður mig mjög að lesa þetta :)

   09/07/2012

Trackbacks & Pingbacks

 1. Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: