Skip to content

Ekta amerísk eplabaka

Það er búin að vera mikil lægð yfir blogginu mínu undanfarið. Ég lá fyrir heima með flensu í rúma viku og átti jafn erfitt með að elda og ég átti með að hugsa um mat þannig að Elmar tók yfir eldhússtörf. Ekki nóg með það heldur hef ég búið til svo óspennandi mat undanfarið að ég get ekki hugsað mér að vansæma þetta annars ágæta blogg með slíkum færslum. Ég bauð vinkonu okkar og kærasta hennar í mat og bjó til þrjár tegundir af calzone, þrjár tegundir af brauðmiklum og bragðlausum hálfmánum. Ég skammaðist mín svolítið.

Í dag varð ég að búa til eitthvað gott og kræsilegt svo ég gæti snúið við blaðinu og hafið nýtt eldamennskutímabil, tímabil sem markast ekki af bragðlausum og misheppnuðum mat. Ég er búin að ætla mér lengi að búa til eplaböku (eplapæ) en hef verið of löt til að lesa mér til um hvernig best sé að meðhöndla deigið. Ég fékk þá hugljómun að láta loks verða af því þegar ég og Elmar rákumst á fjöll af allskyns eplum fyrir utan búðina okkar í morgun. Í staðinn fyrir að gera allt það sem ég á að vera að gera þá ákvað ég að leggjast yfir bækur og veraldarvefinn til að finna eplabökuuppskrift sem væri bloggsins verðug. Og viti menn, bakan heppnaðist! Skelin er með dásamlegum smjörkeim, hún er mjúk en samt með biti, eplin eru sæt og brómberin hafa litað fyllinguna fallega fjólubláa og gefa eilítið súrt bragð til mótvægis við sætuna. Ég er stolt, ánægð og (best af öllu) hætt að skammast mín.

Það sem er mikilvægast við eplabökuna er bökuskelin sjálf. Það er svo svekkjandi að fá eplabökusneið og uppgötva að skelin er of hörð/of þétt í sér/of laus í sér. Það eru nokkur atriði sem verður að hafa í huga þegar deigið er gert svo að þessi atriði trufli ekki eplabökuupplifunina. Í fyrsta lagi má ekki vinna deigið of mikið – þ.e. það má ekki hnoða það of mikið og það má ekki kreista það of mikið, annars verður það alltof þétt í sér við bakstur. Það mun virðast mjög laust í sér þegar það er sett inn í ísskáp en eftir hálftíma í kæli þá þéttist það og dregst svolítið saman. Í öðru lagi má ekki fletja út deigið og skera það til á of heitum stað, t.d. við hliðina á ofninum eða hitara því þá bráðnar smjörið í deiginu og það verður mjög erfitt að vinna með það. Í þriðja lagi verður að leyfa deiginu að hitna aðeins ef það hefur verið lengur en hálftíma í kæli, leyfið því að verða köldu og þéttu en samt sveigjanlegu svo hægt sé að fletja það út án þess að það rifni.

Eplabaka

(Deig: Jamie at Home. Baka: Joy of Cooking)

  • 500 g hveiti, sigtað
  • 250 g smjör, aðeins kaldara en við stofuhita
  • 100 g flórsykur, sigtað
  • 2 stór egg
  • 1 msk sítrónubörkur, rifinn
  • 3 msk mjólk

———————————

  • 1 kg epli (ca. 5-6 stór epli)
  • 1 askja brómber (má sleppa)
  • 140 g strásykur
  • 3 msk hveiti
  • 1 msk ferskur sítrónusafi
  • 1/2 tsk kanil
  • 1/8 tsk salt
  • 20 g smjör, brætt
  • Kanilsykur

Aðferð:

Hitið ofninn í 220°C.

Sigtið hveitið í stóra skál. Skerið smjörið niður í litla bita og setjið út í hveitið. Sigtið flórsykurinn yfir. Kælið hendurnar í köldu vatni, þurrkið þær og byrjið að kreista smjörið í gegnum fingurna (ekki of fast samt), haldið þessu áfram þar til smjörið hefur blandast deiginu og það hafa myndast litlir og aðeins stærri kögglar. Setjið sítrónubörkinn út í, brjótið tvö stór egg ofan í og hellið mjólkinni út í blönduna. Hrærið eggin með fingri til að brjóta upp rauðuna hrærið og veltið deiginu varlega saman þar til deigið er orðið eins og gróf brauðmylsna. Stráið hveiti yfir hreinan og sléttan flöt og hellið deiginu úr skálinni á bekkinn. Þjappið deiginu saman (ekki hnoða!) þar til það hefur myndað stóra köku. Skiptið þá deiginu í tvennt og vefjið plastfilmu utan um sitthvorn helminginn og geymið í kæli í hálfa klukkustund.

Afhýðið eplin, takið kjarnan úr og skerið í 1 cm þykkar sneiðar. Setjið í stóra skál ásamt brjómberjunum og sáldrið sykri, hveiti, sítrónusafa, kanil og salti yfir. Hellið brædda smjörinu yfir, veltið  öllu saman og leyfið að standa í 15 mínútur. Hrærið af og til.

Takið deigið úr ísskápnum. Stráið hveiti yfir hreinan og sléttan flöt og fletjið út í stóran hring með hveitibornu kökukefli. Passið að deigið festist ekki við bekkinn og athugið reglulega hvort það þurfi að strá meira hveiti yfir flötinn. Þegar deigið er orðið nógu stórt til að passa rúmlega í bökumótið (ég notaði 9″ bökumót) takið það varlega upp og látið falla ofan í mótið, þéttið með fram hliðunum.

Hellið fyllingunni ofan í mótið og sléttið úr henni með skeið.

Fletjið út seinni helminginn af deiginu á sama hátt og hinn fyrri. Skerið síðan deigið í 10 strimla. Raðið 5 strimlum ofan á fyllinguna. Brettið síðan annan hvern strimilinn aftur, þannig að einn er flatur, næsti brettur o.s.frv. Leggið strimil þvert á fyrstu strimlana rétt fyrir neðan þá sem brett er upp á. Leggjið síðan afturbrettu strimlana niður og brettið upp þá sem lágu flatir. Leggið annan strimil þvert á fyrstu strimlana, rétt fyrir neðan þá sem brett er upp á. Leggjið afturbrettu strimlana niður. Endurtakið þar til allir strimlar eru búnir. (Sjá mynd að ofan)

Penslið bökuna með köldu vatni og sáldrið smá kanilsykri yfir. Stingið inn í ofn og bakið við 220°C í 30 mínútur. Takið úr ofninum, lækkið hitann í 180°C og bakið í aðrar 30 – 45, eða þar til eplin eru orðin alveg mjúk. Leyfið kökunni að kólna í ca. 15 mínútur. Berið fram með rjóma eða ís.

10 athugasemdir Post a comment
  1. Súsanna Svans #

    namm namm – ! ekkert smá girnilegt og flott hjá þér Nanna mín :) – Knús á ykkur !

    26/03/2011
  2. Ottó #

    En dásamlega girnileg eplakaka.

    26/03/2011
  3. Guðbjört #

    Með vatn í munninum eftir að lesa þessa færslu, vá!

    26/03/2011
  4. Embla #

    Þú ert að gera mig alltof spennta fyrir þessari New York ferð. Ég vil bara klára skólann og koma til þín.

    27/03/2011
  5. Ragna Bergmann #

    Vá hvað þetta er girnilegt hjá þér! :)

    27/03/2011
  6. salsa #

    úff væri til í eina sneið núna, lítur óskaplega vel út :)

    27/03/2011
  7. Stella A. #

    Hrikalega girnilegt. Hlýtur að vera gott að vera í mat hjá þér : )

    28/02/2012
  8. Hörður #

    Hvert fer seinni smjorskammturinn?

    25/11/2013
    • Vá þetta er svo gömul færsla að ég var heillengi að hugsa. Smjörið á að vera brætt og hellt fyrir eplin og þurrefnin og leyft að standa. Ég skal bæta þessu inn í uppskriftina núna.

      Takk fyrir ábendinguna!

      25/11/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Ferskju- og bláberjabaka « Eldað í vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: