Heilhveitipönnukökur með banana og valhnetum ásamt soðsteiktum eplum
Við erum svo heppin að fá að njóta haustlitanna í óvenju langan tíma í ár. Veðrið hefur í rauninni verið afar gott og hverfið okkar er skreytt gulu, grænu, rauðu og appelsínugulu laufþaki. Einstaka sinnum rignir laufblöðum og minnir mann á hversu skammvinn þessi fallega árstíð í rauninni er og rekur mann út í daglega göngutúra í allri litadýrðinni. Jólin eru í raun skammt undan og ég á erfitt með að trúa því að Þakkargjörðarhátíðin er handan við hornið.
En eins mikið og mig langar til að vera úti í göngutúrum með myndavélina mína þá blasir sú staðreynd við að lok annarinnar er yfirvofandi og neyðir mig til þess að gera doktorsverkefninu mínu góð skil. Stundum finnst mér þetta allt saman vera aðeins of fullorðins og súrrealískt. Og hvað gerir maður þá? Ég mæli með pönnukökum. Pönnukökur gera allt betra. Þær minna mig á að stundum er gott að vera fullorðin og mega hella úr hálfri sírópskrukku yfir morgunmatinn sinn án þess að nokkur geti sagt manni að gæta hófs.
Ég notaði fínmalað heilhveiti í þessar pönnukökur og hugsa að ég haldi því áfram upp úr þessu. Ekki af því að heilhveiti er hollara en það hvíta, mér er nú alveg sama um það. Heldur af því að heilhveitið gefur aðeins meira bragð og ég er ekki frá því að það sé lúmskur hnetukeimur af því. Það má auðvitað nota venjulegt heilhveiti í staðinn eða hvítt hveiti ef þið eruð hrifnari af því. Ég hafði keypt tvö epli á markaðinum og fannst þau heldur súr þannig að ég velti þeim upp úr smá sykri og steikti þau upp úr smjöri á pönnu. Þau voru mjög skemmtileg viðbót. Ég stappaði líka einn banana og saxaði handfylli af valhnetum og bætti við deigið og var mjög ánægð með útkomuna.
Heilhveitipönnukökur með banana og valhnetum
- 1 1/2 bolli [190 g] heilhveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 2 msk sykur
- 2 stór egg
- 1 bolli [240 ml] nýmjólk
- 30 g smjör
- 1 tsk vanilludropar
- 1 banani, stappaður
- 1 handfylli valhnetur, saxaðar
Aðferð:
Sigtið hveitið, lyftiduftið, saltið og sykurinn í stóra skál og hrærið saman.
Brjótið eggin í aðra skál og hrærið þeim saman. Hellið smjörinu, vanilludropunum og helmingnum af mjólkinni saman við og hrærið saman.
Hellið eggjablöndunni út í þurrefnablönduna og hrærið saman þar til allt hefur blandast. Hellið þá restinni af mjólkinni saman við og hrærið saman. Setjið bananann og valhneturnar út í deigið og blandið varlega saman.
Hitið pönnu yfir meðalháum hita. Penslið hana létt með smjöri eða olíu. Hellið smá pönnukökudeigi á pönnuna og steikið þar til hliðarnar hafa dregist saman og litlar loftbólur myndast í miðri pönnukökunni. Snúið henni þá við og steikið á hinni hliðinni þar til hún gyllist.
Setjið tilbúnu pönnukökurnar á disk og geymið í ofni (stilltum á lægsta hita) þar til restin hefur verið steikt.
Berið fram með soðsteiktum eplum (uppskrift að neðan), hlynsírópi og hverju sem ykkur finnst gott að setja ofan á pönnukökur
Soðsteikt epli
- 2 epli
- 2 msk sykur
- 20 g smjör
Aðferð:
Afhýðið eplin, takið kjarnann úr og skerið í sneiðar. Setjið í skál og veltið upp úr sykrinum.
Hitið smjörið á pönnu og setjið eplin út á pönnuna þegar smjörið fer að freyða. Steikið á báðum hliðum þar til eplin hafa mýkst en halda samt ennþá lögun.
[Það er örugglega líka gott að velta eplunum upp úr kanilsykri áður en þau eru steikt.]
Fyrir 3 – 4