Jólagjafahugmynd #2: Granóla með súkkulaðibitum
Ég er farin að hlakka mikið til jólanna. Það gerist yfirleitt þegar sólin hverfur fyrir klukkan fimm á daginn að ég finn fyrir mikilli þörf til að hengja upp lítil jólaljós alls staðar og kveikja á kertum. Ég hef aldrei kunnað vel við myrkrið sem fylgir vetrartíðinni og þó ég sé flutt frá Íslandi þá finnst mér ljósið of skammlíft í New York. Nú neyðist ég til að draga djúpt andann og herða mig – mér leiðist veturinn óskaplega.
En þrátt fyrir vetrarfælni mína þá þykir mér afskaplega vænt um jólin. Ef jólanna nyti ekki við þá væri ég búin að gefast upp í byrjun desember. Það er því sérstaklega upplífgandi að halda áfram með jólagjafafærslurnar. Í þessari viku bjó ég til granóla. Granóla er mjög einfalt og mér finnst þessi uppskrift eiga vel við jólin – kanilkryddað með súkkulaðibitum og þurrkuðum trönuberjum. Það er hægt að skipta út súkkulaðibitunum og trönuberjunum fyrir annað gúmmelaði, nota heslihnetur í staðinn fyrir möndlur, skipta út hlynsírópinu fyrir hunang – möguleikarnir eru margir. Það má borða það út í mjólk eða súrmjólk eða sem snakk beint upp úr krukkunni. Það er gott að stinga því í poka og nota sem nasl í fjallgöngur (eða aðrar göngur). Þetta er því tilvalin gjöf fyrir göngumanninn eða handa þeim sem kunna að meta góðan morgunmat.
Granóla með súkkulaðibitum
(Uppskrift frá Joy of Baking)
- 3oo g [3 bollar] haframjöl
- 75 g [3/4 bolli] möndlur, heilar að sneiddar
- 45 g [1/2 bolli] sólblómafræ
- 45 g [1/2 bolli] graskersfræ
- 1/2 msk kanill [má sleppa]
- 1/4 tsk salt
- 30 g smjör, bráðið
- 120 ml [1/2 bolli] hlynsíróp, dökkt
- 70 g [1/2 bolli] súkkulaðibitar
- 70 g [1/2 bolli] þurrkaðir ávextir, t.d. bláber, trönuber, rúsínur eða saxaðar döðlur
Aðferð:
Hitið ofninn í 165 C [325 F]. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og setjið til hliðar.
Takið fram stóra skál og blandið haframjöli, möndlum, sólblómafræjum, graskersfræjum, kanil (ef notað) og salti vel saman.
Takið fram litla skál og blandið saman smjöri og hlynsírópi.
Hellið smjörblöndunni yfir þurrefnin. Hrærið og veltið öllu vel og vandlega saman.
Flytjið yfir á ofnplötuna og dreifið vel úr blöndunni. Bakið í 30 – 45 mínútur og veltið blöndunni á 10 mínútna fresti svo að allt gyllist jafn vel. Því lengur sem granólað er í ofninum (án þess að brenna þó!) því stökkara verður það.
Leggið ofnplötuna á grind og leyfið að kólna alveg.
Þegar granólað hefur kólnað alveg má hræra súkkulaðibitum og þurrkuðum ávöxtum saman við.
Geymið í loftþéttum umbúðum eða í plastpoka inni í ísskáp. Granólað geymist í 3 – 4 vikur.
Nanna mín – þetta verður bara flottara og flottara hjá þér. Það verður gott þegar þú kemur heim um jólin. Þið systurnar vitið af okkur í næsta húsi
Virkilega skemmtilegt blogg og meiriháttar uppskriftir.
Granólað er æði, alveg svakalega gott :)
Takk kærlega fyrir það!