Skip to content

Haustleg kjúklingakássa með sveppum í síder

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér þungan steypujárnspott sem þolir bæði eldavélina og ofninn. Ég er komin með algjört æði fyrir pottréttum sem byrja á steikingu á eldavélinni og fara svo inn í ofn í örfáa klukkutíma. Kjötréttir sem eldaðir eru þannig skila unaðslega meyru kjöti og rótargrænmetið sem fær að malla með verður mjúkt og bragðmikið. Og þó að það taki langan tíma að elda þessa rétti þá krefjast þeir lítillar fyrirhafnar. Þeir passa vel við þetta kalda veður og veita manni hlýja vellíðunartilfinningu.

Við erum einstaklega ánægð með hvernig rættist úr þessum rétti. Ég keypti heilan kjúkling hjá slátraranum og fékk leiðbeiningar um hvernig best væri að búta hann niður. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að skera kjúklinginn niður sjálf og yfirleitt er hægt að spara sér ágætis pening með því að gera það sjálf frekar en að kaupa kjúklingabita í bakka. Kjötið varð svo meyrt í þessum rétti að það rann af beinunum, rjómasósan var alls ekki of þung og við mælum með því að bera réttinn fram með smjörsteiktum kartöflum.

Kjúklingakássa með sveppum í síder

(Breytt uppskrift frá Hugh Fearnley-Whittingstall: River Cottage Every Day)

  • 1 heill kjúklingur skorinn í 6 – 8 bita eða kjúklingabitar með beini (ca. 1.3 kg)
  • 2 – 3 msk hveiti, kryddað með salti og pipar
  • 3 – 4 msk grænmetis- eða ólívuolía
  • 1 lítil flaska síder (330 ml) [þurr síder er mun betri en sætur í þessu tilviki]
  • 15 g ósaltað smjör
  • 350 g sveppir, skornir í stóra bita
  • 300 g gulrætur, skornar í bita
  • 1 lárviðarlauf
  • 1 stór grein af timíani
  • 5 msk rjómi
  • 2 tsk sinnep
  • Sjávarsalt og ferskur malaður pipar
  • 1 msk steinselja, söxuð

Aðferð

Sáldrið hveitiblöndunni yfir kjúklingabitana og hristið þá aðeins til að losa lausa hveitið frá. Hitið 2 msk af olíu í stórri steikarpönnu yfir meðalháum hita. Brúnið kjúklingabita vel og setjið síðan ofan í stóran pott.

Hellið 1 bolla af síder í pönnuna og leyfið því að búbbla aðeins í pönnunni í eina til tvær mínútur á meðan þú skrapar upp bitana sem festust við pönnuna. Hellið síðan vökvanum yfir kjúklinginn og hellið síðan restinni af flöskunni út í pottinn.

Hitið smjör í annarri pönnu, bætið sveppunum út í og eldið við vægan hita þar til sveppirnir fara að gefa frá sér vökva. Bætið þeim út í pottinn ásamt öllum vökvanum úr pönnunni. Setjið gulræturnar út í pottinn einnig. Stingið lárviðarlaufinu og timíangreininni á milli kjúklingabitanna. Setjið pottinn yfir meðalháan hita og náið upp hægri suðu. Eldið með lokið yfir hálfum pottinum yfir lágum hita (eða með lokið á í 150 C heitum ofni [ég notaði ofnaðferðina]) í ca. 1 1/2 klst. eað þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Snúið kjúklingabitunum við eftir 45 mínútur.

Fjarlægið lárviðarlaufið og timíanið. Hellið safanum í pott en skiljið kjúklinginn og grænemtið eftir í stóra pottinum. Hrærið rjómanum og sinnepinu saman við safann og náið upp hægri suðu. Bragðið og saltið og piprið eftir smekk. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Náið upp hægri suðu og berið síðan fram.

Ég bar réttinn fram með smjörsteiktum kartöflum með steinselju og það passaði afar vel.

Fyrir 4

Prenta uppskrift

8 athugasemdir Post a comment
  1. NAMM!!

    14/11/2011
  2. Ottó #

    Þetta reyni ég við fyrsta tækifæri!

    14/11/2011
  3. Þetta er ekkert smá girnilegt !

    15/11/2011
  4. Helena #

    Sæl og takk fyrir gott og vandað matarblogg. Er verið að tala um svona venjulegan dísætan eplacíder eins og fæst í matvörubúðum eða eitthvað annað?

    15/11/2011
    • Nei reyndar ekki. Það er verið að tala um áfengan síder og betra er að hafa hann þurran frekar en sætan. Ég ætti að taka það fram í uppskriftinni. Allt áfengið í sídernum mun svo gufa upp í hitanum og því er allt í lagi að bera réttinn fram fyrir börn og bindindisfólk :)

      15/11/2011
  5. Eldaði þennan frábæra kjúklingarétt þinn í kvöld og allir voða hrifnir.
    Get reyndar aldrei farið alveg eftir uppskirftunum svo ég pressaði safa úr rauðum vínberjum og notaði í staðinn fyrir Síderinn og svo notaði ég líka kókosmjólk í staðinn fyrir rjómann.
    Kartöflurnar voru ótrúlega góðar með.
    Takk fyrir frábærar uppskriftir.

    17/11/2011
  6. Ottó #

    Ligg afvelta á Meltunni (sófanum) eftir þennan ljúffenga kjúklingarétt. Alveg dásamlegt.

    15/12/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: