Skip to content

Kryddaðar chai pönnukökur

Það er helgi og fyrir þau ykkar sem fylgjast regulega með þá vitið þið að ég get ekki staðist að prófa nýja pönnukökuuppskrift á laugardögum. Pönnukökur helgarinnar eru alls ólíkar þeim sem ég hef búið til áður og passa sérstaklega vel við svala og fallega haustveðrið í Brooklyn. Þær innihalda margar tegundir af kryddi en þetta eru krydd sem ég á alltaf uppi í skáp fyrir bakstur og indverska matseld. Það er því mun margslungnara bragð af þeim en af öðrum pönnukökum og kanillinn og engiferið gefa þeim smá hita. Þær eru sniðugar ef maður vill tilbreytingu í helgarpönnsurnar sínar (auðvitað held ég að þið búið til pönnukökur allar helgar líka!).

Kryddaðar chai pönnukökur

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 2 egg
  • 2 bollar [250 g] hveiti
  • 4 tsk sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 3/4 tsk kanill
  • 1/4 tsk negull
  • 1/4 tsk kardemommuduft
  • 1/8 tsk engiferduft
  • 1/8 tsk pipar
  • 1 1/2 bolli [350 ml] ,buttermilk’, súrmjólk eða jógúrt
  • 1/2 bolli [120 ml] uppáhellt chai te
  • 55 g smjör, bráðið og leyft að kólna
  • 1/2 tsk vanilludropar

Aðferð:

Sigtið saman þurrefnin og kryddin í meðalstóra skál.

Brjótið eggin út í stóra skál og hrærið. Bætið súrmjólk, tei, smjöri og vanilludropum saman við og hrærið vel.

Hellið þurrefnunum út í skálina með eggjablöndunni og blandið saman þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Deigið á að vera kekkjótt.

Hitið pönnu yfir meðallágum hita. Pannan er orðin nógu heit þegar vatnsdropar ,dansa’ á pönnunni.

Hellið smá deigi á pönnuna og bíðið þar til hliðarnar hafa dregist saman og miðja pönnukökunnar myndir loftbólur. Snúið þá pönnukökunni við og eldið á hinni hliðinna í ca. 2 mínútur eða þar til hún gyllist.

Geymið í hlýjum ofni til að halda þeim heitum.

Berið fram með smjöri og hlynsírópi.

Fyrir 3 – 4

4 athugasemdir Post a comment
  1. Ætlar þú að baka pönnukökur á hverjum laugardegi þegar þú kemur heim? Við verðum að passa okkur, við gætum lent í miklum vöfflur vs. pönnukökur rifrildum.

    12/11/2011
    • Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því. Eina ástæðan fyrir því að ég er ekki með vöfflur aðra hvora helgi er að ég á ekki vöfflujárn!

      13/11/2011
  2. Hafdís Þórólfsdóttir #

    Lesið snemma á sunnudagsmorgni. Farin að baka pönnnukökur. Takk fyrir uppskriftirnar og fallegu myndirnar. Kveðja, Hafdís Þórólfsdótti í Reykjavík.

    13/11/2011
  3. Gudny Ebba Thorarinsdottir #

    Ég hlakka svo til að koma til þín elsku Nanna mín! Ég get svo guðsvarið það.

    13/11/2011

Skildu eftir athugasemd