Skip to content

Eplapönnukökur

Eins og þið hafið örugglega tekið eftir þá er ég búin að gera breytingar á vefsíðunni. Mig var farið að langa í eitthvað stílhreinna, notendavænna og skemmtilegra og er mjög ánægð með útkomuna. Ég opnaði Twitter reikning fyrir mig og bloggið og hægt er að fylgjast með okkur þar. Ef þið eruð ekki skráð á Twitter þá er hægt að fylgjast með því sem ég ,tísta’ þar í dálki hérna til hægri. Ég hugsa að ég sé hætt að fikta í öllu núna og vonandi nýtist þessi uppfærsla mér það vel að ég þarf ekki að koma ykkur aftur á óvart með nýju útliti.

Ég ætlaði að vakna fyrir allar aldir til að komast á bændamarkaðinn áður en barnavagnaliðið mætti á staðinn. Í staðinn voru augun sem límd aftur og ég barðist af mögrum mætti við að setjast upp. Það gekk ekki betur en svo að ég steinsofnaði við tilraunina og var því ekki mætt upp á markað fyrr en seint og sætti mig við það að láta keyra kerrum reglulega í sköflungana á mér á meðan ég verslaði. Markaðurinn er samt svo fallegur þessa dagana, haustuppskeran er mætt og allt litróf grænmetis fyllir viðarkassana hjá grænmetisbóndanum. Mig hefur lengi langað til að taka myndir fyrir ykkur þar en til þess þarf ég að koma mér á fætur mun fyrr. Ég er nefnilega svo hrædd við þessar efnuðu, lífrænt-elskandi súpermömmur og að vera fyrir þeim í allri þvögunni sjáið þið til.

Eplin eru orðin ansi fyrirferðamikil á markaðnum og ég nældi mér í nokkur til að henda í  þennan morgunmat. Þetta eru mjög skemmtilegar pönnukökur. Ég notaði græn epli til að vera með næga sýru sem mótvægi við sætuna í deiginu og útkoman var mjög skemmtileg samblanda af fersku og sætu. Ég reif líka niður smá sítrónubörk og setti út í deigið og það gerði þær jafnvel enn ferskari. Það má líka leika sér með kryddið sem sett er út í. Ég notaði kanil en ég hugsa að ég noti kardemommuduft næst, mér er farið að finnast kanillinn vera aðeins of hefðbundinn með eplum. Þetta er mjög skemmtileg tilbreyting frá hinum klassísku pönnukökum því áferðin er allt önnur og þar sem það er nú komið haust þá tel ég allt eplatengt vera mjög svo við hæfi.

Eplapönnukökur

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 2 egg, vel hrærð
  • 1 1/2 bolli [350 ml] ,buttermilk’ eða súrmjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 – 3 tsk rifinn sítrónubörkur
  • 2 bollar [250 g] hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 bolli [55 g] sykur
  • 1 tsk kanill
  • 3 meðalstór epli, afhýdd og snyrt, rifin (ég notaði græn epli svo að pönnukökurnar yrðu ekki of sætar)
  • Smjör eða olía, til steikingar
  • Flórsykur, til að sáldra yfir pönnukökurnar

Aðferð:

Blandið saman eggjum, súrmjólk, vanilludropum og sítrónuberki í meðalstórri skál.

Blandið hveiti, lyftidufti, salti, sykri og kanil saman í minni skál.

Blandið þurrefnunum saman við eggjablönduna. Hærið síðan rifnu eplunum saman við.

Hitið smá smjör á pönnu við meðal-lágan hita. Setjið ca. 1/4 bolla af deigi á pönnuna og fletjið út toppinn (svo þær ná að eldast í gegn) þegar pannan er orðin heit. Setjið eins mikið á pönnuna og kemst fyrir í einu. Steikið þar til kökurnar eru gylltar að neðan og farnar að dragast saman á hliðunum. Snúið við og steikið í ca. 2 – 3 mínútur á hinni hliðinni. Flytjið pönnukökurnar yfir á disk og haldið áfram að steikja þar til deigið er búið.

Sáldrið smá flórsykri yfir pönnukökurnar og berið strax fram. Gott er að bera þær fram með hlynsírópi, gylltu sírópi, berjum og/eða smá ferskum sítrónusafa.

Fyrir 3 – 4

2 athugasemdir Post a comment
  1. ELSKA nýja bollann hjá þér!

    16/10/2011
  2. Girnilegt.

    16/10/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: