Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu
Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.
Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.
Tælenskir kjúklingaleggir
(Örlítið breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)
- 5 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
- 1/4 bolli [1/2 dl] kóríanderlauf, söxuð
- 1/4 bolli [1/2 dl] asísk fiskisósa
- 1/4 bolli [1/2 dl] grænmetisolía
- 5 msk hoisinsósa
- 1 1/2 tsk kóríanderduft
- 1 tsk salt (ég sleppti saltinu því marineringin var þegar orðin svo sölt af fiskisósunni, smakkið áður en þið bætið saltinu við)
- 1 tsk pipar
- 8 heilir kjúklingaleggir, eða 8 leggir og 8 læri (ca. 2,5 kg)
Aðferð:
Setjið allt nema saltið og kjúklinginn í blandara (eða notið töfrasprota) og maukið þar til sósan verður kekkjalaus. Smakkið sósuna, ef ykkur finnst hún nógu sölt þá myndi ég sleppa saltinu en annars má skella teskeiðinni út í.
Setjið kjúklinginn í grunnt eldfast mót og hellið sósunni yfir. Þekjið allan kjúklinginn, setjið lok eða plastfilmu yfir mótið og leyfið að marinerast inni í ísskáp í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.
Hitið ofninn í 230°C/450°F. Takið kjúklinginn úr ísskápnum og setjið lok yfir mótið eða leggið álfilmu þétt yfir mótið. Bakið í ofni í ca. 25 mínútur. Hellið nokkrum matskeiðum af vatni í mótið ef marineringinn fer að brenna við kjúklinginn. Takið lokið eða álfilmuna af mótinu og bakið í aðrar 5 – 10 mínútur, eða þar til húðin er orðin stökk og kjúklingurinn eldaður í gegn.
Fyrir 4-5
Asískt hrásalat með mangói og myntu
(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)
- 3 mangó (ekki of þroskaðir!*), skrældir og skornir í þunna stilka
- 400 g kínakál, skorið í þunnar sneiðar
- 1 rauð paprika, skorin í þunna stilka
- 1/2 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
- 5 msk límónusafi
- 1/4 bolli [1/2 dl] hrísgrjónaedik
- 2 msk ólívuolía eða vínsteinsolía
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk chiliflögur
- 1/4 bolli [1/2 dl] myntulauf, skorin í þunnar sneiðar
- 1/4 bolli [1/2 dl] kasjúhnetur, ristaðar og gróft saxaðar
[*Ef mangóinn er of þroskaður þá verður hann bara að mauki neðst í skálinni. Best er að hann sé ágætlega stinnur og líklegur til að halda sér vel í salatinu.]
Aðferð:
Setjið mangó, kínakál, papriku og lauk saman í skál og blandið saman.
Hrærið saman límónusafa, edik, olíu, salt og chili saman í lítilli skál og hellið síðan yfir salatið.
Setjið inn í ísskáp í ca. klukkutíma.
Sáldrið myntulaufum og hnetum yfir salatið rétt áður en það er borið fram.
Eldaði þetta í kvöld og þetta var rosa gott og djúsí :-D Gísla litla fannst kjúklingurinn æði og úðaði hann í sig!