Skip to content

Posts from the ‘Mynta’ Category

Gúrkutíð

Við flytjum heim til Íslands eftir nákvæmlega þrjár vikur og ég veit varla í hvorn fótinn ég á að stíga. Það eru komin fimm ár frá því ég hélt frá Íslandi til Edinborgar í mastersnám og smá ævintýraleit. Á þeim tímapunkti hefði mig aldrei órað fyrir því að ég myndi síðan eyða fjórum árum í einni skemmtilegustu, menningarlegustu og  fjölbreyttustu borg í heimi. Ég er búin að vera óendanlega heppin. Ég hlakka mikið til að flytja aftur til Íslands en ég veit að ég á eftir að sakna borgarinnar mjög mikið.

Eftir allt músaævintýrið í vetur og vor þá voru eigendur hússins svo góðir að veita okkur aðgang að bakgarðinum í smá tíma sem uppbót fyrir allt umstangið. Hann er, eins og sést á mynd, algjör draumur. Þórdís hefur skemmt sér vel við að liggja með okkur í hengirúminu og við njótum þess mikið að borða allar máltíðir á pallinum (þaðan sem myndin er tekin). Hitinn, garðurinn og sólin kalla á ferskan og kælandi sumardrykk. Það, og sú staðreynd að við þurfum að moka út úr vínskápnum áður en við höldum heim. Ég bjó því til þennan svalandi gindrykk með gúrku, myntu og límónu.

SJÁ UPPSKRIFT

Ananas- og myntuvodka

Ég er svo fegin að vera alveg laus við veturinn, við mýsnar (vonandi!) og sé fram á notalegar, hlýjar og sólríkar vikur áður en við flytjumst búferlum aftur til Íslands. Það er svo margt sem við eigum eftir að sakna héðan að það þyrmir stundum yfir mig. Ég reyni að draga djúpt andann og sætta mig við að ég get engan veginn komist yfir allt sem mig langar að gera, borða, drekka og sjá. Embla Ýr, systir mín, kemur í næstu viku og við ætlum að fara í nokkrar pílagrímsferðir saman.

Með rísandi sól og hækkandi hitastigi má búa til eitthvað með smá hitabeltisþema. Ég tók fram vodkaflöskuna okkar og ákvað að búa til ananas- og myntuvodka. Það er fáránlega einfalt að búa til bragðbættan vodka. Í rauninni má taka hvaða ávöxt sem er (eða chili, eða kryddjurtir) og láta hann liggja í vodkalegi í einhvern tíma – Kristín Gróa bjó til dæmis til þennan girnilega jarðarberjavodka í fyrrasumar. Það er í raun mjög fínt að nota einhvern ódýran vodka í þennan drykk, það er bara frekar kaldhæðnislegt að ódýrasta vodkað í vínbúðinni minni er hið fína íslenska vodka Reyka.

SJÁ UPPSKRIFT

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti

Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí carbonara með myntu og garðertum

Eftir miklar bollaleggingar og veðurpælingar þá ákváðum við hjónin að flýja Bergen og héldum til Aurdal í Vestur Noregi. Við leigðum okkur lítinn kofa á rólegu tjaldstæði við Aurlandsána og eyddum þremur dögum í að ganga og skoða eitt fallegasta landsvæði sem ég hef augum litið. Áður en ég fór til Noregs hafði mamma sagt mér að Noregur sé eins og ,,Ísland á sterum“ og hún hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Fjöllin eru stórkostlega há og þverhnípt, dalirnir djúpir og gróðursælir og það er ekki þverfótað fyrir villiblómum og birkitrjám. Fegurðin er yfirgengileg. Það er algjör synd hvað það er dýrt að vera í Noregi og ferðast um því þetta er land sem ég gæti eytt ævinni í að skoða.
Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara í fjallgöngu þar sem fótunum var kippt undan mér þegar ég steig á sleipan stein, ég skall á hliðina í berg og er núna með lófastórt mar á mjöðminni. Það versta við fallið var að ég var með myndavélina óvarða um öxlina og linsan slóst við bergið og er (næstum því) öll. Ég hélt samt áfram að taka myndir á vélina en meirihluti myndanna lenti því miður í ruslinu (restin er á flickr). Ég er svo einstaklega klaufsk að ég lét mér þetta ekki að kenningu verða og rann næstum því fram af bröttum klettastíg daginn eftir. Stundum er það mesta furða að ég hafi aldrei þurft að kalla til björgunarsveitir þegar ég er að hlaupa upp á fjöll.

Eftir svona svaðilför á maður skilið sérlega matarmikið pasta, að mínu mati. Ég er alveg forfallinn aðdáandi carbonara en bý það sjaldan til sökum þess hversu krefjandi það er á meltuna. Þessi carbonararéttur frá Jamie Oliver er sérstaklega skemmtilegur þar sem rétturinn fær smá ferskt bragð frá myntu og garðertum (sem eru víst ranglega kallaðar grænar baunir). Ég nota alltaf frosnar garðertur (peas) því þær eru víst mjög fljótar að missa næringargildi og ferskleika og því er best að kaupa þær beint frá ræktanda eða djúpfrystar í poka.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: