Skip to content

Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma

Síðustu vikur hafa einkennst af miklum gestagangi, svefnþjálfun Þórdísar Yrju og óhóflegri kaffidrykkju. Ég er búin að raða í mig Sörunum sem ég bakaði fyrir örfáum dögum og eitthvað gengur á súkkulaðibirgðirnar mínar sem ég ætlaði að nota í bakstur. Mig langaði því sárlega í eitthvað sem jafnaði þetta allt saman út. Ég pakkaði Sörum í dall og gaf vinum okkar, lofaði sjálfri mér að eiga súkkulaði í eina smákökuuppskrift og dró fram þessa uppskrift að hollu gulrótarsalati.

Þegar ég rek augun í gulrætur þá hugsa ég alltaf um Karíus og Baktus plötuna mína sem ég hlustaði oft og mörgum sinnum á sem barn. Þar rifjar Baktus (eða var það Karíus?) upp þá skelfilegu tíma þegar Jens borðaði bara ,,rúgbrauð og gulrætur“. Ég hef því lengi staðið í þeirri trú að gulrætur hljóti að vera eitthvað það hollasta sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Ég greip vönd af þessum fallegu gulrótum á bændamarkaðinum síðustu helgi. Sennilega fara gulræturnar alveg að hverfa úr uppskerunni hjá okkur og því var kjörið tækifæri að búa til eitthvað gott úr þeim. Mér finnst svo gaman að kaupa gulrætur sem eru alla vega á litinn og hafa ólík blæbrigði í bragði. Réttirnir verða líka einstaklega litríkir og fallegir.

Þetta salat er í miklu uppáhaldi hjá Elmari og er í raun fyrirhafnarmeiri útgáfa af gulrótarrétti sem ég hef búið til áður. Gulræturnar eru soðnar og síðan ofnbakaðar með bragðmikilli kryddblöndu, lárperur eru sneiddar og velt uppúr dressingu ásamt gulrótunum og síðan er brauði, klettasalati og örlitlum sýrðum rjóma bætt við. Svo má skreyta réttinn með fræjum – t.d. sesam- eða birkifræjum. Fallegt og bragðgott!

Gulrótarsalat með lárperum, klettasalati og sýrðum rjóma

(Uppskrift frá Jamie Oliver: Jamie at Home)

  • 500 g gulrætur
  • 2 tsk kúmenfræ
  • 1 lítill þurrkaður chilipipar eða 1 tsk chiliflögur
  • sjávarsalt og svartur pipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 4 tímjangreinar, laufin tekin af
  • jómfrúarolía
  • rauðvínsedik
  • 1 appelsína
  • 1 sítróna
  • 3 lárperur
  • 4 x 1 cm þykkar brauðsneiðar, ristaðar
  • 2 handfylli klettasalat
  • sýrður rjómi
  • 4 msk fræ – birkifræ, sesamfræ

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F.

Sjóðið gulræturnar í söltuðu vatni í 10 mínútur, eða þar til þær eru næstum því eldaðar. Á meðan gulræturnar sjóða skaltu búa til dressinguna. Setjið kúmenfræ og chilipipar í mortél og berjið í mauk. Bætið hvítlauknum og tímjanlaufunum saman við og berjið í mauk. Hellið jómfrúarolíu yfir og smá slurki af rauðvínsediki. Blandið vel saman og saltið og piprið eftir smekk. Hellið vatninu frá gulrótunum og setjið þær í eldfast mót. Hellið dressingunni yfir og blandið vel saman. Skerið appelsínuna og sítrónuna í tvennt og leggið helmingana efst í mótið. Setjið í ofninn og eldið í 20 til 25 mínútur, eða þar til gulræturnar eru farnar að gyllast svolítið.

Skerið lárperurnar í sneiðar og ristið brauðsneiðarnar. Setjið lárperusneiðarnar í stóra skál. Takið gulræturnar úr ofninum og setjið í skálina með lárperunum.

Takið tangir og kreistið safann úr sítrónunni og appelsínunni í litla skál. Bætið jómfrúarolíunni saman við (miðið við að setja álíka mikið af olíu og er af safa í skálinni) og smá slurki af rauðvínsediki. Hrærið vel saman og kryddið með salti og pipar. Hellið dressingunni yfir lárperurnar og gulræturnar og veltið þeim upp úr henni. Rífið brauðið út í, bætið klettasalatinu saman við og veltið öllu saman.

Skiptið salatinu á diska (2-4, eftir því hversu margir eru í mat). Setjið smá sýrðan rjóma ofan á og sáldrið fræjunum yfir.

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: