Skip to content

Ofnbakaðar kartöflur með spínati, edamame og maísbaunum

Í gær skrifuðum við undir leigusamning og nú er það opinbert að leið okkar liggur til Brooklyn um næstu mánaðarmót. Prospect Heights í Brooklyn. Við eyddum mánudeginum í að skoða íbúðir, en það er alltaf áhugavert (og á stundum niðurdrepandi) að leita að samastað í New York. Fyrstu þrjár íbúðirnar sem við skoðuðum voru stórar og rúmmiklar (á okkar mælikvarða a.m.k.) en í hverfi sem bauð aðeins upp á Burger King, Popeye’s og vélaverkstæði í næsta nágrenni. Ætli útslagið hafi samt ekki verið þegar leigumiðlarinn viðurkenndi kæruleysislega að byggingin væri sýkt af ,bed bugs’, eins og það væri hinn eðlilegasti hlutur. Ég fæ ennþá hroll við tilhugsunina.

En við eiginlega römbuðum á nýju íbúðina okkar á sama degi og byrjað var að sýna hana. Annar eigandinn er sænsk kona sem hafði töluvert um það að segja að við fengum íbúðina frekar en einhverjir aðrir. Við erum gífurlega spennt að flytja í nýtt hverfi og ég er yfir mig ánægð að sjá fram á að eyða næstu þremur árum í uppáhaldshverfinu mínu í Brooklyn. Ég býst við að fara afskaplega sjaldan á Manhattan eftir flutninga og uni því mjög vel.

Ég bjó til þennan gómsæta kartöflurétt fyrir okkur hjónin í fyrrakvöld. Mig langaði til að búa til eitthvað auðvelt og hollt, eitthvað sem gæfi mér tilefni til að nota fersku maísstönglana sem við höfðum keypt á horninu daginn áður. Í rauninni myndi ég frekar mæla með þessum rétti í hádegismat eða bröns, spæla eða hleypa egg með og jafnvel bæta steiktu beikoni við ef þið viljið gera þetta að kjötrétti. Við getum fengið mjög góðar maísbaunir hérna með því að kaupa ferska stöngla en það má auðvitað nota frosnar baunir (ekki niðursoðnar, þær eru alltof sætar og mjúkar) í staðinn.

 Ofnbakaðar kartöflur með spínati, edamame og maísbaunum

(Breytt uppskrift frá Joy the Baker)

  • 400 g nýjar kartöflur, skornar í stóra bita
  • 1 laukur, saxaður
  • ólívuolía
  • salt og pipar
  • 3 handfylli spínat
  • 2 maísstönglar, baunirnar skornar af
  • 100 g edamamebaunir
  • 1 handfylli steinselja, gróft söxuð
  • 20 g smjör
  • salt og pipar, eftir smekk

Aðferð:

Hitið ofn í 200°C og setjið grindina í miðjan ofninn. Takið fram ofnplötu og leggið bökunarpappír á hana. Veltið kartöflunum upp úr ólívuolíu, salti og pipar og leggið á ofnplötuna. Bakið í 20 til 25 mínútur, eða þar til kartöflurnar hafa eldast í gegn.

Steikið laukinn upp úr ólívuolíu á stórri pönnu við meðalháan hita þar til hann brúnast og mýkist. Bætið kartöflunum saman við og steikið í 2 til 3 mínútur. Bætið spínati saman við og eldið þar til spínatið dregst saman. Lækkið hitann og bætið edamamebaunum og maísbaunum saman við ásamt smjörinu og veltið öllu vel saman og leyfið að steikjast þar til baunirnar hitna. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk.

Takið af hita og bætið steinselju saman við. Blandið öllu vel saman og berið fram.

Fyrir 2 – 3

6 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Til hamingju með íbúðina!! Lýst vel á þessa uppskrift en því miður eru edamame baunir hvergi fáanlegar hérna, ég lét meira að segja starfsmann Maður lifandi fara í eldhúsið og spyrja kokkinn hvaðan edamame baunirnar sem þeir notast við í eldamennskuna koma og hann sagðist sérpanta þær inn að utan fyrir eldhúsið og þær eru ekki seldar frammi í búðinni :( En pottþétt hægt að nota bara einhverjar aðrar baunir í uppskriftina þó fátt jafnist á við edamame unaðinn!

    13/08/2011
    • Takk Inga mín! Synd og skömm með edamamebaunirnar! En það var nú ekki gert ráð fyrir þeim í upprunalegu uppskriftinni, ég átti bara poka af þeim inni í frysti og ákvað að henda þeim út í ;)

      13/08/2011
  2. Það er hægt að fá edamamabaunir, t.d. í sushibúðinni í glæsibæ ;)

    15/08/2011
    • Frábært! Takk fyrir ábendinguna.

      15/08/2011
  3. Inga Þórey #

    Snilld :-) Gott að vita af því, reyndar komin 2 ár síðan ég fór í edamame leitina miklu!

    15/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

  1. Greipósa | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd