Skip to content

Posts from the ‘Kartöflur’ Category

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakaðir kartöflubátar með parmesan og steinselju

Frænka Elmars er enn eitt dæmið um hvað við eigum góða að. Hún og hennar fjölskylda eiga bústað og land þar sem þau rækta alls kyns grænmeti. Við höfum notið uppskeru þeirra nokkrum sinnum og pössum alltaf að elda bara það besta úr pokunum sem þau hafa fært okkur.

Þegar við fengum poka af kartöflum úr sveitinni þá ákváðum við að ofnbaka þær og hafa með kræklingum. Við Elmar erum mjög gefin fyrir kræklinga (sjá t.d. hér og hér) og þegar við viljum gera vel við okkur þá skellum við hóflegum skammti í pott og höfum annað hvort baguette eða kartöflur með. Við urðum fyrir þó nokkrum vonbrigðum þegar við fengum okkur kræklinga á ónefndum matsölustað í borginni og fengum picnic (já, úr gulu dósunum) ,kartöflu’strá með bláskelinni. Kannski er ég bara orðin svona snobbuð en ég mæli eindregið með því að sleppa picnic og baka þennan kartöflurétt til að hafa með næstum því öllu sem ykkur dettur í hug. Ég elda hann reglulega og hann fær alltaf góða dóma hjá þeim sem smakka hann. Það þýðir samt að ég styðst ekki við nákvæm hlutföll og uppskriftin er eftir því.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakaðar kartöflur með spínati, edamame og maísbaunum

Í gær skrifuðum við undir leigusamning og nú er það opinbert að leið okkar liggur til Brooklyn um næstu mánaðarmót. Prospect Heights í Brooklyn. Við eyddum mánudeginum í að skoða íbúðir, en það er alltaf áhugavert (og á stundum niðurdrepandi) að leita að samastað í New York. Fyrstu þrjár íbúðirnar sem við skoðuðum voru stórar og rúmmiklar (á okkar mælikvarða a.m.k.) en í hverfi sem bauð aðeins upp á Burger King, Popeye’s og vélaverkstæði í næsta nágrenni. Ætli útslagið hafi samt ekki verið þegar leigumiðlarinn viðurkenndi kæruleysislega að byggingin væri sýkt af ,bed bugs’, eins og það væri hinn eðlilegasti hlutur. Ég fæ ennþá hroll við tilhugsunina.

En við eiginlega römbuðum á nýju íbúðina okkar á sama degi og byrjað var að sýna hana. Annar eigandinn er sænsk kona sem hafði töluvert um það að segja að við fengum íbúðina frekar en einhverjir aðrir. Við erum gífurlega spennt að flytja í nýtt hverfi og ég er yfir mig ánægð að sjá fram á að eyða næstu þremur árum í uppáhaldshverfinu mínu í Brooklyn. Ég býst við að fara afskaplega sjaldan á Manhattan eftir flutninga og uni því mjög vel.

Ég bjó til þennan gómsæta kartöflurétt fyrir okkur hjónin í fyrrakvöld. Mig langaði til að búa til eitthvað auðvelt og hollt, eitthvað sem gæfi mér tilefni til að nota fersku maísstönglana sem við höfðum keypt á horninu daginn áður. Í rauninni myndi ég frekar mæla með þessum rétti í hádegismat eða bröns, spæla eða hleypa egg með og jafnvel bæta steiktu beikoni við ef þið viljið gera þetta að kjötrétti. Við getum fengið mjög góðar maísbaunir hérna með því að kaupa ferska stöngla en það má auðvitað nota frosnar baunir (ekki niðursoðnar, þær eru alltof sætar og mjúkar) í staðinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Reyktur lax með léttu kartöflusalati og crème fraîche

Ég er ekki alltaf með á nótunum þegar ég kaupi í matinn. Elmar hefur bent mér á að ég virðist undantekningalaust gleyma einu hráefni þegar ég tíni ofan í kerruna. Og já, ég skrifa innkaupalista en ég virðist líka vera þeim hæfileika gædd að gleyma honum oftast heima. Ekki að það skipti nokkru máli því að ég yfirleitt gleymi að setja eitthvert hráefni á listann og enda því heima bölvandi og ragnandi yfir því að ég þurfi að fara aftur út í búð. Því miður teygir þetta sig líka í eldamennskuna mína. Stundum er það í lagi því hráefnið skipti ekki meginmáli en það kemur líka fyrir að grundvallarhráefni ratar ekki í matinn – eins og þegar mér láðist að salta rísottó (sem ég var búin að nostra við í rúma tvo tíma) sem ég bar svo fram fyrir fimm manns.

Þannig að á þeim dögum sem ég þarf að fara út í búð get ég búist við því að þurfa að fara tvær aukaferðir til að kaupa það sem vantar. Þetta getur verið vandræðalegt þegar sama manneskjan afgreiðir mann þrisvar sinnum á einum klukkutíma.

Við Elmar höfum setið á skrifstofu í Háskólanum í Bergen við sitthvort skrifborðið að vinna að verkefnum. Eða öllu heldur, hann vinnur að þýðingunni sinni og ég þykist vera að undirbúa doktorsverkefnið þegar ég er í raun að skoða matarblogg og ljósmyndir. Þetta þýðir auðvitað að við eyðum dögunum í það að sitja og hreyfa okkur lítið. Ég vildi því búa til léttan kvöldmat í gær og fann þessa uppskrift eftir hetjuna mína Jamie Oliver. Hann mælir reyndar með réttinum í hádegismat en þetta var góður, seðjandi og léttur kvöldmatur fyrir okkur tvö. Kartöflusalatið er örlítið súrt (það er bæði sítróna og edik í dressingunni) og passar afskaplega vel við dillið og rammleika kapersins. Crème fraîche sósan er fersk og vegur upp á móti fitunni í reykta laxinum. Þetta er sumar á diski og ég mæli með þessu með stóru kældu hvítvínsglasi á næsta sólardegi á Skerinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsamlokur & franskar kartöflur

Það er ekki oft sem ég elda kjöt. Kjöt úti í Bandaríkjunum er ágætlega dýrt fyrir fátæka námsmenn eins og okkur. Reyndar er hægt að fá ódýrt kjöt þar en mér hefur aldrei fundist það girnilegt – mjög feitt hormónakjöt af nautgripum sem hafa aldrei fengið að smakka gras og lifa við vægast sagt ógeðfelldar og afar mengandi aðstæður. Ekki aðeins finnst mér erfitt siðferðislega að styrkja þann iðnað heldur er kjötið engan veginn eins gott. Og á meðan ég get keypt ódýrt, bragðmikið og fallegt grænmeti fyrir sama verð þá lýtur kjöt í lægra haldi.

Það er því alltaf gaman að koma til Íslands og fá kjöt reglulega í matinn. Enda er grænmetið hérna skammarlega lélegt og oft ógirnilegt. Hvað er eiginlega málið með plöstuðu paprikurnar? Og innpökkuðu kryddjurtirnar frá Ísrael? Einhvern veginn efa ég að þetta sé nauðsynlegt.

Ég átti nautakjötsbita afgangs frá hrísgrjónaréttinum góða og ákvað að búa til steikarsamloku fyrir okkur. Mér fannst samt eiginlega alveg nauðsynlegt að vera með franskar með samlokunni en hryllti við stóru djúpfrystu pokunum í búðinni. Ég ákvað því að búa til mínar eigin. Það var reyndar ágætlega tímafrekt ferli. Ég fann ekki rétta hnífinn á mandólínið hans pabba þannig að við Embla skárum kartöflurnar niður í lengjur, lögðum þær í bleyti, þerruðum og bökuðum inn í ofni. Og franskarnar eru rosalega góðar! Það er líka hægt að leika sér með þær. Það má rífa parmesanost yfir þær áður en þær eru bornar fram, skreyta með fínsaxaðri steinselju, sáldra yfir þær hvítlaukssalti, úða yfir þær smá truffluolíu – möguleikarnir eru endalausir! Við borðuðum franskarnar bara beint úr ofninum með smá auka salti og dýfðum þeim ofan í tómatsósu. Stundum er einfaldleikinn bestur.

Steikarsamlokan var mjög einföld. Ég snöggsteikti kjötið og stakk því svo inn í ofn með frönskunum til að elda það aðeins meira. Ég bjó til sósu úr dijon sinnepi og sýrðum rjóma (ég fann uppskrift að sinnepsmajónesi en vildi ekki nota hana því það er mikil majónesfælni á þessum bæ), steikti sveppi og lauk og notaði klettasalat og súrar gúrkur til að setja á milli brauðsins. Ég keypti baguettebrauð en auðvitað er hægt að nota ciabatta, sveitabrauð eða í raun hvaða brauð sem til er við hendina (þó ég myndi seint mæla með þessu hefðbundna heimilisbrauði).

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: