Skip to content

Posts from the ‘Drykkur’ Category

Negroni

Eftir nokkur kvöld af smakki og sötri hef ég tekið Negroni í sátt. Þetta er svolítið krefjandi drykkur – bitur, margslunginn og skarpur, en mér finnst hann fullkominn eftir stóra máltíð til að fríska upp á bragðlaukana. Fyrir þau okkar sem eru ekki óð í Campari þá rennur hann kannski ekki mjög ljúflega niður fyrst en eitthvað við hann hvetur mann til að taka annan sopa. Það er reyndar sökum einskærrar þrjósku í mér að ég vildi læra að drekka og meta þennan ítalska drykk og ég verð að segja að þetta gæti verið uppáhaldsdrykkurinn minn núna.

Venjulega er hann blandaður í jöfnum hlutföllum – einn partur gin, einn partur Campari og einn partur sætur vermút – en ég hef komist að því að mér finnst hann bestur með aðeins meira af vermút og drukkinn ískaldur. Sumir drekka hann með prosecco (ítölsku freyðivíni) í staðinn fyrir gin eða setja bourbon í staðinn fyrir gin fyrir haustlegri drykk. Nú væri bara gaman að hafa aðgang að svölum og hlýju veðri til að fullkomna hughrifin. Ég set hefðbundnu uppskriftina inn hér að neðan en hvet ykkur til að smakka ykkur áfram og finna þau hlutföll sem henta ykkur.

Tónlist með: My baby just cares for me – Nine Simone

SJÁ UPPSKRIFT

Heitur Teitur

Þá erum við komin aftur til Brooklyn eftir langa viðveru heima á Íslandi. Ferðalagið sjálft gekk mjög vel og það kom á daginn að ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að ferðast með ungbarn. Þórdís Yrja stóð sig eins og hetja og svaf næstum því alla leiðina. Ég hafði hins vegar ekki undirbúið mig fyrir það sem við tók. Við stóðum við færibandið á flugvellinum heillengi að bíða eftir síðustu töskunni okkar sem aldrei kom. Þegar við komum heim seint um kvöld í litlu en notalegu íbúðina okkar birtist sorgleg sjón. Íbúðin var grútskítug eftir leigjandann okkar í sumar – hvíta baðherbergið okkar var grátt og svart af óhreindinum og fitubrák þakti gólf, hillur og skápa. Í ofanálag var glugginn galopinn og hafði feykt inn laufum, sóti og öðrum skít. Mér leið eins og ég ætti ekki heima þarna.

Við Elmar, kúguppgefin, tókum smá skurk strax og reyndum að laga aðeins til, skúra og setja saman rimlarúmið. Við gáfumst upp um miðja nótt, fengum okkur bjór, slökktum ljósin og fórum að sofa. Síðustu þrír dagar hafa farið í að þrífa leigjandann út. Sem er hreint ótrúlegt þar sem íbúðin er aðeins 30 fermetrar! En þetta hófst og við erum loksins búin að koma okkur almennilega fyrir, týnda taskan skilaði sér og Þórdís er smám saman að taka nýja umhverfið í sátt.

Fellibylurinn Sandy gerir það að verkum að haustið er ekki eins fallegt í ár og það var í fyrra. Sterkir vindar rifu flest lauf af trjánum – þau liggja brún og morkin á gangstéttum og götum – og viðgerðarmenn standa í ströngu við að laga rafmagnslínur. Kuldinn, ferðalagið og hasarinn við þrifin hafa tekið sinn toll á Elmari og hann er orðinn ansi slappur. Ég ákvað því að búa til heitan áfengan drykk til að reyna að koma honum aftur í fyrra horf.

Ein bandarísk afurð er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bandarískt viskí eða bourbon eins og það er kallað hér. Ég hef saknað þess að geta fengið mér smá lögg í glas, jafnvel blandað út í smá heimatilbúið engiferöl eða drukkið einn svona heitan drykk á köldum vetrardegi. En ætli ég þurfi ekki að bíða í nokkra mánuði í viðbót svo ég fari ekki að framleiða áfenga mjólk. Við höfum íslenskað nafnið á þessum drykk en á ensku er þetta kallað ,Hot Toddy’ og er talinn allra meina bót.

SJÁ UPPSKRIFT

Kaffi- og súkkulaðihristingur

Ég hef það eiginlega syndsamlega gott þessa dagana – þrátt fyrir útstæða bumbu sem hýsir lítið diskókríli sem skiptist á því að hiksta, sprikla og hnoðast. Ég byrja daginn á því að setjast út á pall með morgunmat, te og blað áður en ég tek lærdómstörn í gamla bjarta herberginu mínu og eyði svo eftirmiðdeginum í skemmtilegheit á kaffihúsum miðborgarinnar. Það er mjög gott að vera komin út úr þéttpakkaðri borg í víðáttuna og ég fæ ekki nóg af því að dást að himninum sem fær að teygja endalaust úr sér.

Þessi mjólkurhristingur er ofureinfaldur, mjög bragðgóður og á einstaklega vel við í þessu fallega sumarveðri. Það þarf samt að passa að kaupa ís með miklu súkkulaðibragði eða bæta við súkkulaðispæni (eða jafnvel kakódufti) til að hristingurinn verði ekki of bragðdaufur. Passið líka að hella upp á rótsterkt kaffi fyrir ísmolana svo að kaffibragðið spili ekki bara útvatnað aukahlutverk.

SJÁ UPPSKRIFT

Sterlingstél

Við erum búin að skemmta okkur konunglega síðustu daga með litlu systur minni í glampandi sólskini og hita. Við erum búin að borða á okkur gat, móka í garðinum og gægjast í sum skemmtilegustu hverfi Brooklyn. Það er svo gaman að fá gesti að heiman – sérstaklega þá sem verða jafn yfir sig hrifnir af hverfinu okkar og við.

Þó að ég megi ekki snerta áfengi þessa dagana þá þýðir það ekki að Vesturheimseldhúsið sé uppiskroppa með hráefni í hanastél og mér finnst (svona næstum því) jafn gaman að blanda þau þrátt fyrir ,ástandið’. Við höfum búið til nokkra stórgóða kokteila hérna úti – t.d. bjórgarítu og mojito – og Embla og Elmar ábyrgjast að þessi sé reglulega góður. Hann er ekki yfirþyrmandi – ekki of sætur, ekki of áfengur (þó það megi alltaf bæta meira gini í drykkinn fyrir þá sem vilja mjög áfenga drykki) – og jarðarberin og basilíkan eru skemmtileg bragðblanda.

SJÁ UPPSKRIFT

Chai masala

Ég tek stundum ekkert svo skynsamlegar ákvarðanir í lífinu, svona eins og vera ber. En það eru sumar óneitanlega vitlausar ákvarðanir – meðvitaðar sem og ómeðvitaðar – sem ég virðist endurtaka aftur og aftur og aftur. Eins og að sleppa því að borða morgunmat (sem endar í svimakasti og blóðsykursfalli laust fyrir hádegi) og fá mér nokkur vínglös á fastandi maga (svo mikil vitleysa). En þau reginmistök sem ég geri ár eftir ár er að hætta að klæða mig eftir veðri á vorin. Ég verð svo spennt að ég fer að troða lopapeysum og frakka lengst inn í skáp og dreg í staðinn fram peysur sem blæs auðveldlega í gegnum og léttan jakka. Í einskæru þrjóskukasti held ég út í sólríkt en hrollkalt veðrið alveg ótrúlega illa klædd og leyfi mér að þykjast að  sé komið sumar.

Þetta endar alltaf í því að ég fæ kvefpest og neyðist til að hafa mig hæga upp í sófa undir teppi með tebolla við höndina. Sem er alveg óendanlega leiðinlegt og langt frá því að vera það sem mig langar mest til að gera. Einhvern veginn var miklu ljúfara að vera lasin þegar ég bjó ennþá heima hjá mömmu og pabba og leyfði þeim að stjana við mig. Eitt af því sem mamma gaf mér oft þegar ég var lasin er þetta indverska kryddaða mjólkurte. Og ég er sannfærð um að það sé allra (kvef)meina bót. Þetta er líka mjög einfalt te (þrátt fyrir langan hráefnalista) og er kryddað, mjúkt og róandi. Ég er sannfærð um að þetta te og hvítlaukssúpan sem ég ætla að elda í kvöld muni lækna mig á mettíma.

SJÁ UPPSKRIFT

Læmónaði

Vorið er farið að gægjast til okkar öðru hvoru á milli kaldra daga. Við höfum fengið nokkra sólríka og ágætlega hlýja daga í vikunni og það gerir mig alveg afskaplega káta og spennta fyrir hlýrri dögum, blómstrandi trjám og kápulausum lífstíl. Ég er komin með leiða á rjúkandi tebollum og ákvað að undirbúa komu vors með límónudrykk. Það má gera ýmislegt til að leika sér með þessa uppskrift og ég hef sett uppástungur við uppskriftina. Ef ykkur dettur eitthvað sniðugt í hug eða prófið aðra útfærslu látið mig endilega vita í athugasemdakerfinu. Ég er mjög hrifin af svona súrum og ferskum drykkjum og þá sérstaklega á sólríkum sumardögum.

Ég vildi líka benda ykkur á nýjan flokk hér að ofan – mælieiningar. Ég hef umreiknað helstu mælieiningar sem birtast í bandarískum uppskriftum yfir í íslenskar einingar til að auðvelda ykkur (og mér) lífið.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: