Skip to content

Posts from the ‘Drykkur’ Category

Heitt súkkulaði með chilí

Elmar er loksins kominn í langþráð frí og þó að ég eigi að sitja þrjósk við bókastaflann minn þá iða ég í skinninu við að fara út í langa göngutúra, skoðunarferðir og safnarúnta. Og þar sem sjálfsagi er ekki mín sterkasta hlið þá tel ég líklegt að næstu dagar muni fara í nákvæmlega það.

Kaldir vetrardagar (eins og þeir sem banka daglega upp á hjá okkur núna) kalla á smá tilbreytingu frá rjúkandi heitu kaffi. Þegar við komum heim eftir langan bröns á illa upphituðum bar þá fannst mér tilvalið að teygja mig í suðusúkkulaðið og blanda heitt chilísúkkulaði. Þetta er sætur drykkur (eins og vera ber) með ennþá sætari viðbót (sykurpúðar!) en gefur aukahita og smá spark í bragðlaukana vegna cayenne piparsins sem ég sauð með mjólkinni. Ef þið eruð ekki gefin fyrir chilí þá má auðvitað bara sleppa þeirri viðbót en ég mæli sterklega með því að þið prófið.

SJÁ UPPSKRIFT

Ískaffi

Það er brjálað veður úti. Þrumur svo háværar að ég held að þær séu beint fyrir ofan hausinn á mér og rigningin er svo mikil að ég sé ekki út um gluggana okkar. Það er notalegt að vera inni og heyra í veðrinu úti fyrir á meðan ég úða í mig misheppnuðum bláberjasorbet og hlusta á útvarpsþátt um vín. Kósy dagur hjá mér á Manhattan.

En það er ekki veðrið sem mig langaði til að segja ykkur frá. Það sem mig langar virkilega til að deila með ykkur er þetta ískaffi. Ég er mjög hrifin af  ískaffi en það var eiginlega nauðsyn sem kenndi mér að kunna að meta það því ég hreinlega gat ekki (og get ekki) drukkið heitt kaffi í 40°C hita.

Ískaffi, eins og venjulegt kaffi, er afskaplega mismunandi eftir sölustöðum og þeim aðferðum sem beitt er við uppáhellingu. Versta aðferðin sem þú getur beitt er að hella upp á heitt kaffi og láta það kólna í ísskápnum. Fyrir alla muni, sleppið því! Það verður einstaklega biturt og mun ekki renna ljúflega niður, ég lofa. Kaffið sjálft skiptir líka máli þó ég sé ekki hlynnt því að eyða miklum pening í baunir sem enda í ískaffi. Reynið bara að sleppa Merrildpokunum. 
En ískaffið sem við höfum verið að drekka frá því að við komum aftur út er útgáfa af víetnömsku ískaffi. Það er í raun mjög einfalt, við setjum eina matskeið (eða í mínu tilfelli tvær) af sætri niðursoðinni mjólk út í ískaffið og hrærum vandlega þar til hún hefur blandast við kaffið. Þetta dregur mjög úr biturleika svarta kaffisins og gerir það sætara (sætumagnið fer auðvitað alfarið eftir hversu mikil mjólk er notuð) og gefur því karamellukenndan keim og mýkri áferð. Þetta er hrein snilld.

SJÁ UPPSKRIFTIR

Engiferöl

Það er afskaplega heitt í New York og samt misstum við af aðalhitabylgjunni. Sólin skín á milli úrhellisskúra og hver einasta flík sem maður klæðist virðist eiginlega bara vera til trafala. Og á meðan Elmar bíður ólmur eftir haustvindum og kuli í lofti þá brosi ég hringinn og nýt þess að vera úti í sólarylnum í þessar fáu vikur áður en veturinn tekur yfir með tilheyrandi snjó, slabbi og ógeði. (Ég veit að þetta hljómar mjög dramatískt allt saman en ég bara þoli ekki kulda í svona marga mánuði!)

En það sem mér finnst eiginlega skemmtilegast af öllu því sem skemmtilegt er í borginni er að vera komin aftur í mitt eigið eldhús með öllu dótinu, kryddinu og matreiðslubókunum sem ég er búin að sanka að mér. Ég kveiki bara á litlu viftunni minni til að kæla mig niður á milli þess sem ég vesenast í því sem mig hefur langað til að búa til síðustu mánuði. Ein af þessum dásemdum er þetta engiferöl.

Ég er almennt ekki mjög hrifin af gosi. Ég var reyndar alveg sjúk í það sem krakki en síðustu ár hef ég bara engan veginn verið spennt fyrir alltof sætu búbbluvatni með vafasömu litarafti og endalausan E-efna lista. En ég hef samt alltaf verið veik fyrir engiferöli og hef drukkið meira af því síðustu tvö ár en ég þori að viðurkenna. Þannig að þegar ég sá uppskrift að heimalöguðu engiferöli hjá Joy the Baker þá gat ég ekki setið á mér og skellti í einn pott. Ég bætti límónuberki við uppskriftina (því ég er svo hrifin af sítrusávöxtum) og útkoman er algjör snilld! Ölið hefur kryddaðan keim og engiferið læðist svolítið aftan að manni eftir að sopinn er tekinn. Ef ein límónusneið er kreist út í er þetta eins og fínasti óáfengi kokkteill (hæ óléttu konur!) en það skaðar drykkinn ekki að sletta smá gini út í. 

SJÁ UPPSKRIFT

Bjórgaríta

Það er orðið alltof langt síðan ég lofaði vinkonu minni (hæ Guðný!) að setja uppskrift að bjórgarítum inn á vefsíðuna mína.

Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda þegar ég heyrði um þennan drykk fyrst. Tekíla og bjór? En svo fór ég að hugsa. Tekíla og bjór! Kannski er það hreint ekki svo galið. Þannig að ég sullaði tekíla, límónum og bjór saman og varð hreint steinhissa, því þetta er alveg merkilega gott og hættulega svalandi. Þetta er drykkur sem á að blanda í stórri könnu og deila með nokkrum vinum á sólríkum eftirmiðdegi. Með heitum nachosflögum og sterkri salsasósu. Er ég að ná að selja ykkur þetta?

Ég hefði reyndar viljað nota ljósari bjór en Corona var uppseldur í kjörbúðinni minni og ég gat ekki fengið af mér að kaupa Budweiser eða Coors Light (það sem hefði verið afgangs af því sulli hefði líka aldrei verið drukkið á þessum bæ ). Ég hugsa því að bragðminni bjór en sá sem ég notaði (Yuengling) kæmi betur út. Ég reif líka smá límónubörk til að fá meira límónubragð en það var í raun algjör óþarfi og því fylgir það ekki í uppskriftinni.

SJÁ UPPSKRIFT

Mojito með sítrónugrasi

Systir mín er í heimsókn. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem hún kemur til okkar í heimsókn en hún virðist alltaf eiga því óláni að fagna að hitta á afskaplega leiðinlegt veðurtímabil í borginni. Þegar hún kom fyrst til okkar þá var svo mikill fimbulkuldi að það þurfti járnvilja til að vera úti í lengri tíma. Í þetta skipti hefur eitt risastórt rigningarský hangið yfir okkur og sólin hefur ekki látið sjá sig frá deginum sem hún lenti á flugvellinum. Við örkum því göturnar í bleytu og kulda, skýlum okkur undir regnhlíf og reynum að láta veðrið ekki á okkur fá. Ég var samt alveg búin að fá nóg um daginn og ákvað því að búa til sumarhanastél handa okkur systrunum – svona til að búa til smá blekkingu um að sumarið væri í raun að gægjast inn til okkar.

SJÁ UPPSKRIFT

Skýjað límonaði

Sumir dagar eru betri en aðrir. Ekki aðeins líður mér eins og fósturland mitt hafi sturlast í einhverri sæluvímu yfir dauða ákveðins hryðjuverkamanns heldur finnst mér ég einhvern veginn ekki ganga í takt við heiminn. Það er eins og ég þurfi að endurstilla sjálfa mig og finna nýja sveiflu. Og þess vegna er sumarið einstaklega hjálplegur tími, því hver getur verið dapur í lengri tíma þegar sólin skín og léttir kjólar hafa verið þvegnir og hengdir upp í skáp?

Það er því við hæfi, að ég held, að birta uppskrift að límonaði. Drykkur sem er súr en sætur á sama tíma og fylgir óumræðilega vaxandi sól og hita. Ég er auðvitað alveg sjúk í sítrónur og fæ ósjálfrátt áhuga á öllum uppskriftum sem nota þær, þá sérstaklega þegar heilar sítrónur eru notaðar. Þegar ég sá að Nígella á uppskrift að límonaði sem notar heilar sítrónur og sódavatn þá varð ég strax heilluð. Ég vil árétta að magn sykurs í uppskriftinni er aðeins viðmið. Mér finnst límonaðið mitt best súrt en best er að smakka sig áfram og finna það sætumagn sem hentar manni sjálfum. Auðvitað má svo gera sér dagamun og sulla smá áfengi af eigin vali saman við.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: