Skip to content

Ostakökubrownies

Það er búið að vera mjög gott veður hjá okkur, alveg fáránlega gott. Ég man að fyrsta janúarmánuð okkar hérna úti þá var mikið rok, mikið frost og mikill snjór. Ég átti bara eina ,vetrarskó’ sem voru hriplekir og dugðu engan veginn í allt slabbið og íspollana sem mynduðust við göturnar. Ég vann fyrir lúsarlaun í bókabúð við Columbia og ég tímdi því engan veginn að kaupa mér almennilegan skófatnað. Nannan sem ég er í dag myndi húðskamma þá Nönnu enda eru góðir skór undirstaða þess að líða vel í borg þar sem bílar eru óþarfir.

Þetta góða veður hefur hvatt okkur til að vera meira úti og í gær fórum við í langan göngutúr um Prospect Park í von um að Þórdís myndi sofa í meira en klukkutíma (svona einu sinni). Það gekk ekki eftir en við áttum þó indælan göngutúr þrjú saman í þokunni og logninu. Trén eru ber, grasið er fölt og engin blóm að sjá en á fallegum degi sem þessum þá hefur garðurinn samt mikinn sjarma.

En nóg af veðri því mig langar aðeins til að segja ykkur tildrög þess að ég leitaði þessa uppskrift uppi. Daginn eftir að við komum aftur út til Brooklyn frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá vorum við frekar buguð. Ferðalagið gekk svolítið brösulega, taska týndist og íbúðin okkar var illa útleikinn eftir leigjandann. Við vorum ósofin, á kafi í þrifum, Elmar með ofsafengið ofnæmi og stúlkan okkar var svolítið óvær eftir allt húllumhæið. Þennan dag kom vinkona okkar færandi hendi. Hún hafði keypt alls kyns góðgæti úr sælkerabúð í Williamsburg og meðal þess voru fallegar ostakökubrownies.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er alls ekki hrifin af ostakökum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því. Oft fæ ég mér einn til tvo bita og finnst kakan frábær en svo er eins og allt fari á hraða niðurleið og ég fæ mig ekki til að borða meira en smá smakk. En ostakökudeig og browniedeig bakað saman er eitthvað stórfenglegt. Sætt og súkkulaðimikið browniebragð með óvæntu fersku og eilítið súru bragði frá ostakökunni. Þessar brownies eru svo skuggalega góðar að ég hef stungið þeim inn í frystinn svo ég freistist ekki til þess að borða þær allar í einu. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég hef breytt henni eftir eigin smekk. Ég hef minnkað sykurmagnið allverulega og myndi alls ekki vilja hafa kökuna sætari.

Ostakökubrownies

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 115 g ósaltað smjör, skorið í litla bita
  • 85 g suðusúkkulaði, saxað
  • 3 msk sykur
  • 2 stór egg
  • 1/2 tsk vanilla
  • 2/3 bolli [85 g] hveiti
  • 225 g rjómaostur, leyfið að standa við stofuhita þar til hann verður mjög mjúkur (það má flýta fyrir þessu með því að skera hann niður í litla bita)
  • 4 msk sykur
  • 1 eggjarauða
  • 1/4 tsk vanilla

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F. Takið fram 8 tommu eða 20 cm ferningslaga bökunarform og smyrjið það, setjið til hliðar.

Bræðið súkkulaðið og smjörið yfir hægsjóðandi vatnsbaði og hrærið í af og til. Takið frá hitanum og leyfið að kólna í smá stund.

Hrærið saman 3 msk sykur, 2 stór egg og 1/2 tsk vanillu. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og hrærið vel. Blandið hveitinu saman við og blandið þar til hveitið hefur rétt svo gengið inn í deigið (ekki ofhræra). Hellið deiginu ofan í bökunarformið og jafnið úr því.

Hrærið síðan saman rjómaostinn, 4 msk sykur, 1 eggjarauðu og 1/4 tsk vanillu. Notið skeið og setjið hrúgur ofan á súkkulaðideigið. Takið fram hníf og dragið með fram deiginu til að búa til mynstur (það er gott að nota smjörhníf og stinga honum undir súkkulaðideigið og draga það síðan yfir ostakökudeigið til að vera með sýnilegra mynstur).

Bakið í ca. 35 mínútur eða þar til endarnir hafa hrokkið frá forminu og miðjan hefur rétt svo bakast í gegn.

Prenta uppskrift

7 athugasemdir Post a comment
  1. Vala Dögg #

    Hljómar guðdómlega..must try !

    13/01/2013
  2. Erla #

    Veðrið hérna er líka svona klikkað, yfirleitt hefur janúar verið kaldur, dimmur og pínu leiðinlegur. En núna er bara sól og 15 til 20 stiga hiti og kirsuberjatréin eru farin af stað. Í dag fór hitinn upp í 22 gráður, ég býð nú ekki í það hvernig sumarið verður.

    13/01/2013
  3. feisbukk #

    Ég er búin að baka hana, átti bara kringlótt form, skar utan af til að smakka. Kakan er mjög góð, gæti ýmindað mér að hún verði jafnvel betri á morgun ;) Ætla að setja hana inn í ísskáp, verður ekki að geyma hana í ísskáp?

    15/01/2013
    • Kakan geymist í svona 3 daga í loftþéttum umbúðum við stofuhita en geymist auðvitað lengur ef þú geymir hana í ísskáp og enn lengur ef þú geymir hana í frysti.

      15/01/2013
  4. Fanney #

    Hvað eru þetta ca margir bitar?

    31/01/2013
    • Sæl Fanney. Ef þú miðar við að nota 20 sm x 20 sm form og skerð bitana þannig að hver biti er 4 sm x 4 sm, þá færðu 25 bita.

      31/01/2013
      • Fanney #

        Ok, móttekið :)

        31/01/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: