Skip to content

Tvenns konar bökur

Síðustu vikur hafa verið bilaðar – heimsókn tengdaforeldra minna, músagangur og heimsókn pabba míns með smá ritgerðarstressi og svefnrugli Þórdísar blandað saman við. Svo virðist sem við séum búin að ná tökum á músaganginum með tonni af sementi, glerbrotum, lími og vírgrindum. Og nú verð ég að viðurkenna nokkuð sem mér er mjög óljúft að viðurkenna. Ég er lafhrædd við mýs. Á algjörlega órökréttan og frumstæðan hátt. Þegar við heyrðum í þeim inni hjá okkur fór ég ósjálfrátt að skjálfa á beinununum, hnén á mér gáfu sig og ég hlustaði eftir hljóðum með dúndrandi hjartslátt og þvala lófa. Mér leið hrikalega illa inni í íbúðinni og á þessum örfáu vikum hef ég horast niður. Ég er samt öll að koma til. Matarlystin er smám saman að gera vart við sig aftur og ég á auðveldara með að sofna á kvöldin. En eftir situr eilítið sært stolt – ég er ekki nándar nærri eins mikill töffari og ég hélt.

Eftir langt blogghlé býð ég upp á tvær ólíkar útfærslur á sömu grunnuppskriftinni. Fallegar smjördeigsbökur með þeyttum fetaosti og gómsætu áleggi. Bökurnar eru einfaldar í framkvæmd og eru sérstaklega viðeigandi núna hjá okkur þegar vorið hefur gengið í garð með tilheyrandi blómaskrúð og hækkandi hitastigi. Uppskriftina fékk ég úr nýjasta hefti Bon Appétit og er ákaflega ánægð með hvernig tókst til.

Baka með þeyttum fetaosti og ætiþistlum & Baka með glóðaðri papriku og svörtum ólívum

(Uppskrift frá Bon Appétit, júní 2013)

 • 1/3 bolli rjómi
 • 100 g fetaostur, skipt í tvennt
 • salt og pipar
 • 400 g smjördeig
 • 100 g ætiþistlahjörtu, skorin í tvennt (ég notaði marineraða ætiþistla í krukku)
 • 100 g glóðuð paprika úr krukku
 • svartar ólívur, eftir smekk
 • 1 grein ferskt rósmarín, saxað
 • 2 msk ólívuolía
 • 1 stórt egg, hrært

Aðferð:

Forhitið ofninn í 220°C/425°F.

Setjið helminginn af fetaostinum og allan rjómann í blandara og blandið þar til sósan verður kekkjalaus. Saltið og piprið. Setjið til hliðar.

Skerið smjördeigið í tvennt og fletjið ú í ca. 40 sm x 20 sm ferning. Flytjið smjördeigsferningana yfir á ofnplötur með bökunarpappír. Notið lítinn hníf og skerið létt í smjördeigið (ekki skera í gegnum deigið) en skiljið eftir 2 sm breiðan kant við jaðrana.

Smyrjið fetablöndunni yfir báða ferningana þar sem þið skáruð í þá. Raðið ætiþistlahjörtunum yfir annað deigið og sáldrið restina af fetaostinum yfir. Leggið glóðuðu paprikuna yfir hitt deigið, sáldrið ólívunum yfir og loks rósmaríninu. Sáldrið ólívuolíu yfir báðar bökurnar. Penslið síðan skorpuna með hræra egginu.

Bakið í 10 – 15 mínútur, eða þar til deigið hefur lyft sér og er farið að gyllast. Lækkið hitann niður í 190°C/375°F og haldið áfram að baka þar til bökurnar eru orðnar gullinbrúnar og eldaðar í gegn, ca. 20 – 25 mínútur.

Berið fram volgar eða við stofuhita.

3 athugasemdir Post a comment
 1. Jii hvað ég skil þig vel :( Mýs eru bara alveg hræðilega óhugnarlegt dæmi..! Fær hroll bara við tilhugsunina.

  En vá hvað þessar bökur eru girnilegar! Ég er viss um að gott smjördeig er það sem kemst næst himnaríki, hversu mikil snilld getur deig verið? Fyrir utan að það er allt gott sem snertir smjördeig.. punktur.

  21/04/2013
 2. Hjördís Inga #

  Mýs eru óskemmtieg dýr og ég stekk hæð mína ef ég sé lifandi mús. En svo eru þær svo sætar á myndum. Þetta eru girnilegar bökuuppskriftir hjá þér sem ég má til með að prófa fljótlega.

  21/04/2013
 3. Tja, þú ert kannski ekki músatöffari en klárlega matartöffari!

  26/04/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: