Skip to content

Frönsk eplabaka með hunangi

Það er fátt sem mér finnst betra en bökur. Þegar ég þarf að velja á milli þess að fá mér kökusneið eða bökusneið þá vel ég hiklaust síðari kostinn. Ætli það sé ekki smjörmikill botninn sem freistar mín hvað mest og það sakar alls ekki þegar skelin er hlaðin bökuðum ávöxtum.

Bændamarkaðurinn er frekar einsleitur hérna á veturna – rótargrænmeti, einstaka kálafbrigði og harðgerar kryddjurtir. En það sem gerir hann aðeins skemmtilegri eru öll eplin, ferski eplasafinn og heiti eplasíderinn. Ég stóðst ekki mátið um daginn og keypti fjögur ólík epli til að setja í þessa böku. Bakan er afbragðsgóð, hún inniheldur lítinn sykur og eplin eru í aðalhutverki. Ég var sérstaklega hrifin af því að sáldra volgu hunangi yfir bökuna til að vega aðeins á móti sýrunni í eplunum. Við borðuðum hana með litlum kúlum af vanilluís og hún var horfin áður en við vissum af.

Frönsk eplabaka með hunangi

(Uppskrift frá Butter me up Brooklyn!)

Skelin:

 • 1.25 bolli [155 g] hveiti
 • 1 tsk sykur
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/4 tsk salt
 • 85 g smjör, við stofuhita og skorið í teninga (ég notaði smjörið kalt og það kom ekki að sök)
 • 1/4 bolli mjólk

Fylling:

 • 4 meðalstór epli (það er gott að nota sæt og stíf epli eins og Fuji epli)
 • 2 msk sykur
 • 1 tsk kanilduft
 • 1/3 bolli hunang
 • 15 g smjör, skorið í litla teninga

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C/400°F.

Skelin: Hrærið saman hveitið, sykurinn, lyftiduftið og saltið. Setjið smjörið út í hveitiblönduna og nuddið því saman með hreinum fingrum. Nuddið þar til deigið er orðið fínkorna og allt smjörið hefur blandast saman við hveitið. Þetta gæti tekið nokkrar mínútur.

Hitið mjólkina í litlum potti yfir lágum hita þar til það verður ylvolgt. Ekki leyfa mjólkinni að sjóða. Hellið mjólkinni út í deigið, allri í einu, og hrærið öllu strax saman með sleif eða viðarskeið. Deigið verður frekar klístrað. Flytjið það yfir í 9″ (23 sm) franskt bökuform með fjarlægjandlegum botni. Dreifið vel úr því með puttunum, upp með hliðunum og í botninn, þar til það er jafnt. Setjið til hliðar.

Fyllingin: Hrærið saman sykri og kanil í skál og setjið til hliðar. Skrælið eplin, skerið í tvennt og takið kjarnann úr. Leggið flötu hliðina niður og skerið hvern helming í 1/2 sm þunnar sneiðar. Grófsaxið endabitana og aðra bita sem eru ljótir eða duttu í sundur. Helmingur eplanna ætti að vera saxaður og hinn helmingurinn í fallegum sneiðum. Veltið söxuðu bitunum upp úr kanilsykrinum.

Hellið söxuðu eplunum ofan í bökuskelina og dreifið jafnt úr. Raðið eplasneiðunum ofan á. Reynið að koma sem flestum sneiðum ofan á bökuna en borðið þá sem verða afgangs.

Hitið hunangið í litlum potti þar til það verður meira fljótandi og volgt. Sáldrið helmingnum af hunanginu yfir bökuna (og geymið hinn helminginn fyrir bakaða bökuna). Raðið smjörbitunum ofan á.

Bakið í ofni í 55 – 60 mínútur eða þar til bökuskelin er orðin fallega gyllt á litinn og eplin hafa mýkst.

Leyfið að kólna á grind, sáldrið restinni af hunanginu yfir. Berið fram volga eða við stofuhita með rjóma eða vanilluís.

Prenta uppskrift

One Comment Post a comment
 1. yum, yum!

  01/03/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: