Skip to content

Posts from the ‘Bandarískt’ Category

Sjúkar súkkulaðibitakökur

Eldað í Vesturheimi er tveggja ára í dag. Ég hefði viljað baka einhverja stórfenglega köku í tilefni dagsins, klappað sjálfri mér á bakið og sýnt einhverja snilldartakta í eldhúsinu. En þar sem ég er komin rúmlega 38 vikur á leið og er með eina ömurlegustu flensupesti seinni tíma þá hafa vangaveltur um hnallþórur og flókið bakkelsi verið í miklu lágmarki. Mér hefur verið skipað að hafa mig hæga og losna við hita og beinverki fyrir komandi átök. Og ég þori ekki öðru en að hlýða.

Því ætla ég að ,svindla’ svolítið og bjóða ykkur frekar upp á þessar súkkulaðibitakökur sem Embla Ýr bjó til handa okkur um daginn. Embla er smákökusnillingur og þá sérstaklega þegar það kemur að súkkulaðibitakökum. Hún saxar dökkt súkkulaði mjög gróflega þannig að maður bítur í gegnum stóra og stökka súkkulaðimola. Uppskriftin sem hún studdist við er frá Baked bakaríinu í Brooklyn og við erum mjög ánægðar með útkomuna. Þessari smákökur eru sjúklega góðar og passa einstaklega vel við ískalda mjólk.

SJÁ UPPSKRIFT

Smábökur með súrum kirsuberjum

Ég reyni eftir fremsta megni að setja aðeins inn uppskriftir sem nota hráefni sem ég ímynda mér að þið gætuð nálgast heima á Íslandi. Stundum gengur það ekki alveg eftir, sérstaklega þar sem úrval úti á landi er oft ekki það sama og í Reykjavík. Ég vona því að þið fyrirgefið mér að ég skuli setja hér inn uppskrift að litlum bökum sem eru fylltar með berjum sem ég þykist nokkuð viss um að séu aldrei til heima.

Ég fór nefnilega á markaðinn um helgina og gladdist alveg ógurlega þegar ég sá að ekki aðeins voru jarðarber til sölu heldur líka kirsuber, bláber, hindber og þessar litlu gersemar. Þetta er sérstök tegund af kirsuberjum, súr kirsuber (sour cherries), og uppskera þeirra er bæði takmörkuð og endist aðeins í stuttan tíma á hverju sumri.  Ég hafði aldrei smakkað þau áður og vissi aðeins að þau eru mjög vinsæl meðal bakara. Svo vinsæl að það var hreinlega setið um hverja einustu öskju. Kannski var það óléttubumban mín ógurlega sem gerði það að verkum að ég náði að tryggja mér tvær öskjur án þess að þurfa að frekjast mikið. Ég smakkaði eitt ber á leiðinni heim og varð strax hrifin af súru bragðinu sem þó hafði einhverja sætu til að bera.

En auðvitað má baka svona smábökur með hvers kyns fyllingu – eplum, nektarínum, plómum, bláberjum eða jafnvel með ferskjum og bourboni. Bökurnar sjálfar eru svolítið fyrirhafnarmiklar, það þarf að kæla deigið oft og mörgum sinnum til að smjörið í því bráðni ekki og svo það haldi lögun sinni. Það var reyndar svo heitt inni hjá okkur þennan dag (og eigandinn ekki búinn að kveikja á loftkælingunni, okkur til mikillar armæðu) að ég þurfti að vinna mjög hratt til að klúðra deiginu ekki algjörlega. Og ekki skánaði hitastigið þegar ég kveikti á tvöfalda ofninum okkar. Það gæti því hugsast að ég þurfi að bíta í það súra epli að hætta öllum bakstri þangað til ég kem til Íslands. En þangað til eigum við fullt af ljúffengum litlum bökum með súrsætri kirsuberjafyllingu (sem eru svona líka sniðugar í lautarferð).

Þessar bökur eru bestar samdægurs en það má líka geyma þær í kæli í 1 – 2 daga, skelin helst samt ekki mjög stökkt fram yfir einn dag.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingasalat með kirsuberjum

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir þegar kemur að kjúklingakjöti. Ég er nefnilega voðalega lítið spennt fyrir skinnlausum, beinlausum kjúklingabringum. Ég veit að það er sagt vera ,hollasti’ partur fuglsins og fleira í þeim dúr. En ekki aðeins finnst mér frekar leiðinlegt að matreiða þær heldur finnst mér kjötið yfirleitt of þurrt og lítið spennandi miðað við aðra parta fuglsins. Í mestu uppáhaldi hjá mér eru lærin – með beini og með skinni. Kjötið er meyrara, dekkra, bragðmeira og almennt miklu skemmtilegra að elda. Ég var því mjög spennt þegar ég fletti gömlu eintaki af Bon Appétit og rakst á uppskrift sem notar kjúklingalæri og lætur mann elda skinnið þar til það verður stökkt og skemmtileg viðbót í ferskt salat.

Við Elmar erum mjög hrifin af matarmiklum salötum og eldum t.d. steikarsalatið góða reglulega. Þetta salat er engu síðra og er núna eitt af uppáhaldsréttunum okkar (Elmar setur það m.a.s. í topp tíu af öllu því sem ég hef eldað síðustu árin). Það kom mér á óvart hvað kirsuberin pössuðu vel í salatið og hvað dillið í salatsósunni gaf skemmtilegt bragð. Nú tel ég að kirsuber séu kannski ekkert svo aðgengileg heima en ég held að vel þroskaðir kirsuberjatómatar myndu vera ágætis uppbót. En ef þið finnið kirsuber þá er þetta frábær leið til að borða þau.

SJÁ UPPSKRIFT

Greip- og hunangsskonsur

Það er svo heitt hérna. Að langflestu leyti finnst mér það eiginlega alveg frábært og nýt þess að finna hitann ná mér inn að beini. En mikið óskaplega langar mig líka út úr borginni, langt frá steinsteypunni, eitthvert út í sveit þar sem ég get legið í grasinu, grillað á kolagrilli og jafnvel dýft tánum í sjó eða vatn. Náttúrulífið í borginni er samt ósköp fallegt og við búum vel að því að búa rétt hjá Prospect Park þar sem maður getur komið sér fyrir undir skugga trjánna, horft á fiðrildin og fuglana og ímyndað sér að maður sé langt frá ys og þys borgarinnar.

Það mætti því ætla að ég væri orðin eitthvað verri að ákveða að kveikja á ofninum og baka þegar úti er glaðasólskin og 32 stiga hiti. Kannski er það ekki svo fjarri lagi en ég var bara svo svöng og mig (eða má ég kenna ófæddu barninu um?) langaði bara í skonsur. Ég átti greipávöxt því í einhverju bjarstýniskasti í Whole Foods sannfærði ég mig um að slíkt væri góður morgunmatur (en svo bjó ég til granóla í staðinn). Sem það örugglega er, en hver verður saddur af einu greipi á morgnana? Þannig að greipið lá fyrir skemmdum þegar ég rakst á þessa uppskrift hjá henni Joy og úr því urðu þessar ljómandi góðu og einkennilega frískandi skonsur.

Má ég mæla með þeim nýbökuðum með smjöri ásamt kaffibolla, með þetta lag á fóninum?

SJÁ UPPSKRIFT

Mjúkir granólabitar

Ég hef ekki undan að reyna að búa til einhvers konar snarl til að hafa við hendina þegar óstöðvandi óléttumatarlyst mín lætur til sín heyra. Eplaskonsurnar kláruðust nánast samstundis, allt smálegt sem ég kaupi í matvörubúðinni hverfur fyrir kvöldmat, afgangar kvöldmatarins eru búnir fyrir svefninn og ísskápurinn virðist alltaf álíka tómur og maginn minn. Og ef það er eitthvað sem mér er virkilega illa við þá er það að vera svöng.

Ég hef gert tilraunir til að kaupa granólastangir í pökkum í matvörubúðinni en ég hef komist að því að stangirnar eru litlar, dýrar, langt frá því að vera seðjandi og yfirleitt alltof sætar. Þegar ég sá að Molly á Orangette (sem er einmitt líka ófrísk og á að eiga á svipuðum tíma og ég) er farin að búa til sína eigin granólabita þá ákvað ég að slá til og skella í einn bakka sjálf. Og þetta er miklu betra en litlu innpökkuðu stangirnar í búðinni. Það er hægt að búa til sína eigin bragðblöndu mjög auðveldlega og bitarnir eru  mjúkir, matarmiklir og seðjandi.

SJÁ UPPSKRIFT

Heilhveitipönnukökur með banana og valhnetum ásamt soðsteiktum eplum

Við erum svo heppin að fá að njóta haustlitanna í óvenju langan tíma í ár. Veðrið hefur í rauninni verið afar gott og hverfið okkar er skreytt gulu, grænu, rauðu og appelsínugulu laufþaki. Einstaka sinnum rignir laufblöðum og minnir mann á hversu skammvinn þessi fallega árstíð í rauninni er og rekur mann út í daglega göngutúra í allri litadýrðinni. Jólin eru í raun skammt undan og ég á erfitt með að trúa því að Þakkargjörðarhátíðin er handan við hornið.

En eins mikið og mig langar til að vera úti í göngutúrum með myndavélina mína þá blasir sú staðreynd við að lok annarinnar er yfirvofandi og neyðir mig til þess að gera doktorsverkefninu mínu góð skil. Stundum finnst mér þetta allt saman vera aðeins of fullorðins og súrrealískt. Og hvað gerir maður þá? Ég mæli með pönnukökum. Pönnukökur gera allt betra. Þær minna mig á að stundum er gott að vera fullorðin og mega hella úr hálfri sírópskrukku yfir morgunmatinn sinn án þess að nokkur geti sagt manni að gæta hófs.

Ég notaði fínmalað heilhveiti í þessar pönnukökur og hugsa að ég haldi því áfram upp úr þessu. Ekki af því að heilhveiti er hollara en það hvíta, mér er nú alveg sama um það.  Heldur af því að heilhveitið gefur aðeins meira bragð og ég er ekki frá því að það sé lúmskur hnetukeimur af því. Það má auðvitað nota venjulegt heilhveiti í staðinn eða hvítt hveiti ef þið eruð hrifnari af því. Ég hafði keypt tvö epli á markaðinum og fannst þau heldur súr þannig að ég velti þeim upp úr smá sykri og steikti þau upp úr smjöri á pönnu. Þau voru mjög skemmtileg viðbót. Ég stappaði líka einn banana og saxaði handfylli af valhnetum og bætti við deigið og var mjög ánægð með útkomuna.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: