
Ég reyni eftir fremsta megni að setja aðeins inn uppskriftir sem nota hráefni sem ég ímynda mér að þið gætuð nálgast heima á Íslandi. Stundum gengur það ekki alveg eftir, sérstaklega þar sem úrval úti á landi er oft ekki það sama og í Reykjavík. Ég vona því að þið fyrirgefið mér að ég skuli setja hér inn uppskrift að litlum bökum sem eru fylltar með berjum sem ég þykist nokkuð viss um að séu aldrei til heima.

Ég fór nefnilega á markaðinn um helgina og gladdist alveg ógurlega þegar ég sá að ekki aðeins voru jarðarber til sölu heldur líka kirsuber, bláber, hindber og þessar litlu gersemar. Þetta er sérstök tegund af kirsuberjum, súr kirsuber (sour cherries), og uppskera þeirra er bæði takmörkuð og endist aðeins í stuttan tíma á hverju sumri. Ég hafði aldrei smakkað þau áður og vissi aðeins að þau eru mjög vinsæl meðal bakara. Svo vinsæl að það var hreinlega setið um hverja einustu öskju. Kannski var það óléttubumban mín ógurlega sem gerði það að verkum að ég náði að tryggja mér tvær öskjur án þess að þurfa að frekjast mikið. Ég smakkaði eitt ber á leiðinni heim og varð strax hrifin af súru bragðinu sem þó hafði einhverja sætu til að bera.

En auðvitað má baka svona smábökur með hvers kyns fyllingu – eplum, nektarínum, plómum, bláberjum eða jafnvel með ferskjum og bourboni. Bökurnar sjálfar eru svolítið fyrirhafnarmiklar, það þarf að kæla deigið oft og mörgum sinnum til að smjörið í því bráðni ekki og svo það haldi lögun sinni. Það var reyndar svo heitt inni hjá okkur þennan dag (og eigandinn ekki búinn að kveikja á loftkælingunni, okkur til mikillar armæðu) að ég þurfti að vinna mjög hratt til að klúðra deiginu ekki algjörlega. Og ekki skánaði hitastigið þegar ég kveikti á tvöfalda ofninum okkar. Það gæti því hugsast að ég þurfi að bíta í það súra epli að hætta öllum bakstri þangað til ég kem til Íslands. En þangað til eigum við fullt af ljúffengum litlum bökum með súrsætri kirsuberjafyllingu (sem eru svona líka sniðugar í lautarferð).
Þessar bökur eru bestar samdægurs en það má líka geyma þær í kæli í 1 – 2 daga, skelin helst samt ekki mjög stökkt fram yfir einn dag.

Líkar við:
Líka við Hleð...