Skip to content

Posts from the ‘Bandarískt’ Category

Kryddaðar chai pönnukökur

Það er helgi og fyrir þau ykkar sem fylgjast regulega með þá vitið þið að ég get ekki staðist að prófa nýja pönnukökuuppskrift á laugardögum. Pönnukökur helgarinnar eru alls ólíkar þeim sem ég hef búið til áður og passa sérstaklega vel við svala og fallega haustveðrið í Brooklyn. Þær innihalda margar tegundir af kryddi en þetta eru krydd sem ég á alltaf uppi í skáp fyrir bakstur og indverska matseld. Það er því mun margslungnara bragð af þeim en af öðrum pönnukökum og kanillinn og engiferið gefa þeim smá hita. Þær eru sniðugar ef maður vill tilbreytingu í helgarpönnsurnar sínar (auðvitað held ég að þið búið til pönnukökur allar helgar líka!).

SJÁ UPPSKRIFT

Bananapönnukökur með bláberjahlynsírópi


Ég er mjög þakklát fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum. Ég hef reyndar ekkert gaman af því að klæða mig í búning, hvað þá að finna einhverja snilldarhugmynd til að útfæra og reyni því að hafa mig hæga á meðan fólk hleypur um í ótrúlegustu múnderingum. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég finn lítinn innblástur í búningaverslunum. Vil ég vera sexí hjúkka, sexí nunna, sexí pandabjörn (já, það er til) eða sexí vatnsmelóna (já! líka til)? Nei, takk. En ég er þakklát vegna þess að þetta hægir aðeins á jólamaníunni hérna úti og það er aldrei fyrr en eftir hrekkjavöku sem jóladótið tekur yfir.

Ekki að ég hafi neitt út á jólin að setja. Ég er forfallið jólabarn og það er fátt sem mér finnst eins skemmtilegt og að halda upp á jólin. Ég er á því að jólin þurfi ekki að vera rándýrt fyrirbæri með útgjaldamiklu gjafastandi. Heimatilbúnar gjafir eru oft stórskemmtilegar, persónulegar og mun ódýrari en aðkeyptar gjafir. Ég ætla þess vegna að koma með eina gjafahugmynd í viku fram að jólum og ef ég kann ennþá að reikna þá gerir það sjö tillögur allt í allt! Þetta mun allt passa ofan í ódýrar glerkrukkur, dósir eða pappakassa og verður eitthvað aðeins frumlegra en smákökur í dollu (þó ég sé mjög hrifin af slíkum gjöfum). Þetta verða misflóknar uppskriftir en vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir. Og ætli ég fari ekki að vera tilbúin að bjóða jólin velkomin, þetta var útsýnið úr glugganum okkar síðustu helgi:

Pönnukökuæðið mitt hefur engin takmörk. Ég vil pönnukökur alla morgna og þá helst nýja útgáfu í hvert skipti. En þar sem móðir mín náði að kenna mér smá stillingu í æsku þá held ég aftur af mér (með herkjum) og steiki bara pönnukökur einu sinni í viku. Í þetta sinn töfruðum við fram bananapönnukökur og suðum saman frosin bláber og hlynsíróp. Sósan er algjör snilld og passar örugglega vel við flestar tegundir af amerískum pönnsum. Bananapönnukökurnar eru mjög bragðgóðar og saðsamar en ég myndi minnka aðeins sykurmagnið næst þegar ég geri þær. Ég vil frekar hafa pönnukökurnar minna sætar svo ég geti sleppt mér algjörlega í sírópsæðinu. Kannist þið við þetta?

SJÁ UPPSKRIFT

Kaffipönnukökur

Ég náði loksins að rífa mig á fætur nógu snemma í morgun til að arka á markaðinn áður en hann fylltist af fólki. Það er orðið kalt í lofti og það var mjög hressandi að labba út í garð með kaldan vind í lopapeysuklæddu fanginu og bjarta morgunsólina í andlitinu. Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur af hverju ég get ekki sleppt því að eyða laugardagsmorgnunum mínum þarna.

Ég elska að vera með þennan stórkóstlega markað í göngufæri. Það er skemmtilegt og uppörvandi að versla matvæli beint frá ræktanda. Það þýðir að allt sem maður kaupir hefur verið ræktað í nágrenninu við náttúrulegar aðstæður í samræmi við veðráttu og árstíðir. Brauðið er bakað í bakaríum í hverfinu og fólkið sem selur varning sinn þarna hefur virkilegan áhuga og ástríðu fyrir því sem það gerir. Ég er einstaklega þakklát fyrir að fá tækifæri einu sinni í viku til að styrkja þennan viðkvæma iðnað og sleppa því að labba inn í flúórslýstan súpermarkaðinn.

Ég kom heim með stóran poka af grænmeti og fallegan eggjabakka frá kjúklingabóndanum og skellti í pönnukökur sem mig hefur lengi langað að prófa. Þetta eru óvenjulegar pönnukökur að því leyti að í þeim er kaffi. Kaffibragðið er samt alls ekki yfirþyrmandi heldur virkar frekar eins og krydd og parast því sérstaklega vel með te- eða kaffibolla.

SJÁ UPPSKRIFT

Eplapönnukökur

Eins og þið hafið örugglega tekið eftir þá er ég búin að gera breytingar á vefsíðunni. Mig var farið að langa í eitthvað stílhreinna, notendavænna og skemmtilegra og er mjög ánægð með útkomuna. Ég opnaði Twitter reikning fyrir mig og bloggið og hægt er að fylgjast með okkur þar. Ef þið eruð ekki skráð á Twitter þá er hægt að fylgjast með því sem ég ,tísta’ þar í dálki hérna til hægri. Ég hugsa að ég sé hætt að fikta í öllu núna og vonandi nýtist þessi uppfærsla mér það vel að ég þarf ekki að koma ykkur aftur á óvart með nýju útliti.

Ég ætlaði að vakna fyrir allar aldir til að komast á bændamarkaðinn áður en barnavagnaliðið mætti á staðinn. Í staðinn voru augun sem límd aftur og ég barðist af mögrum mætti við að setjast upp. Það gekk ekki betur en svo að ég steinsofnaði við tilraunina og var því ekki mætt upp á markað fyrr en seint og sætti mig við það að láta keyra kerrum reglulega í sköflungana á mér á meðan ég verslaði. Markaðurinn er samt svo fallegur þessa dagana, haustuppskeran er mætt og allt litróf grænmetis fyllir viðarkassana hjá grænmetisbóndanum. Mig hefur lengi langað til að taka myndir fyrir ykkur þar en til þess þarf ég að koma mér á fætur mun fyrr. Ég er nefnilega svo hrædd við þessar efnuðu, lífrænt-elskandi súpermömmur og að vera fyrir þeim í allri þvögunni sjáið þið til.

Eplin eru orðin ansi fyrirferðamikil á markaðnum og ég nældi mér í nokkur til að henda í  þennan morgunmat. Þetta eru mjög skemmtilegar pönnukökur. Ég notaði græn epli til að vera með næga sýru sem mótvægi við sætuna í deiginu og útkoman var mjög skemmtileg samblanda af fersku og sætu. Ég reif líka niður smá sítrónubörk og setti út í deigið og það gerði þær jafnvel enn ferskari. Það má líka leika sér með kryddið sem sett er út í. Ég notaði kanil en ég hugsa að ég noti kardemommuduft næst, mér er farið að finnast kanillinn vera aðeins of hefðbundinn með eplum. Þetta er mjög skemmtileg tilbreyting frá hinum klassísku pönnukökum því áferðin er allt önnur og þar sem það er nú komið haust þá tel ég allt eplatengt vera mjög svo við hæfi.

SJÁ UPPSKRIFT

Litlar Svartaskógskökur

Það er október, hitinn hangir enn í tuttugu gráðum, sum trén eru enn sumargræn en það rignir líka marglitum laufblöðum niður á gangstéttirnar. Þetta er þriðja haustið okkar hérna úti en ég hef enn ekki vanist þessu. Það er komið haust en veðrið er eins og á (lang)bestu sumardögunum heima. Ég er svo kolrugluð að ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að mér að vera. Ég ákvað því að ná áttum með því að baka smákökur. Smákökur eru áreiðanlegar og auðveldar. En þessar náðu líka að læðast aftan að mér og koma mér á óvart. Skemmtilega á óvart. 

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég beit í fyrstu kökuna og hélt í stutta stund að ég væri að borða brúnu en ekki smáköku. Þessar smákökur eru súkkulaðidásemd aldarinnar og ég verð að finna leiðir til að koma þeim ofan í aðra. Ég á eftir að vera með magapínu í marga daga ef ég úða þeim öllum í mig ein. Ég ákvað að gera hálfa uppskrift (ég læt upprunalegu uppskriftina fylgja) og fékk samt 24 stórar smákökur. Þær eru mjúkar, seigar, sætar og pakka svo miklu súkkulaði í einum bita að augun ragnhvolfast í höfðinu. Þær eru byggðar á hinni víðfrægu Svartaskógsköku, sem er súkkulaðikaka með kirsuberjalíkjör og þeyttum rjóma, og eru núna uppáhaldssmákökurnar mínar. Ef smákökur má kalla.

SJÁ UPPSKRIFT

Shrimp and grits / Rækjur og polenta

Það er eitthvað sem heillar mig við mat frá Suðurríkjum Bandaríkjanna. Kannski er það hversu óhræddir þeir eru við að nota smjör, beikon, sósur og kjöt. Þeir djúpsteikja víst alveg heil ósköp sem mér finnst oft á tíðum bæði spennandi og ógnvekjandi. Þegar við Elmar fórum í heimsókn til Norður-Karólínu sáum við hversu djúpsteikingaglaðir þeir verða. Við lögðum ekki í djúpsteiktu ostakökurnar og djúpsteiktu oreos-kexin en við smökkuðum þó súkkulaðihúðaða beikonið. Það var ógeðslegt. Og þó að mikið af Suðurríkjamat hræðir mig þá verð ég að dást að óttaleysi þeirra.

Ég bjó þennan rétt til fyrir þó nokkru síðan og var mjög ánægð með útkomuna. Hann var fljótlegur, einfaldur og einstaklega ljúffengur. Risarækjur og beikon. Þarf ég að segja meira?

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: