Skip to content

Posts from the ‘Bandarískt’ Category

,Butternut’-graskerssúpa

Ef það er eitthvað sem ég hef alltaf saknað við Ísland þegar ég er fjarri þá er það einangrunin í húsunum og ofnkyndingin. Það er ekkert grín að vakna í íbúð sem er ísköld og það er ekkert sem þú getur gert í því. Þegar ég bjó í Edinborg og var að skrifa ritgerðir í desember þá sat ég á milli tveggja rafmagnsofna, í lopapeysu, föðurlandi, íslenskum lopasokkum, með grifflur og húfu og drakk heitt te af miklum móð í örvæntingafullri tilraun til að halda á mér hita. Nú hefur haustið hafið innreið sína í Brooklyn en það er ekki byrjað að hita kofann. Við vöknuðum því í gærmorgun köld, slöpp og kvefuð og drógum fjall af lopaklæðnaði úr fataskápnum. Það var því tilvalin dagur til að kveikja á ofninum, baka grænmeti og malla súpu.

Ég hafði keypt tröllvaxið ,butternut’grasker af bændamarkaðnum deginum áður. Ég skar það í tvennt, skellti því inn í ofn og leyfði því að bakast þar í rúman klukkutíma. Graskerið er sætt fyrir en verður enn sætara við ofnbakstur. Ég setti múskat og salvíu í súpuna en ég held að hún sé líka góð með karríkryddi, chili, geitaosti, timíani eða engiferi. Möguleikarnir eru margir og auðvelt að leika sér með uppskriftina.

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu

Ég er orðin svolítið pönnukökuóð. Þær eru bara svo góðar, fallega gylltar og skemmtileg tilbreyting frá vikudagsmorgunmatnum að ég stenst ekki mátið. Það er líka svo notalegt að setjast við drekkhlaðið eldhúsborðið eftir að hafa sofið út og dundað sér  í rólegheitunum í eldhúsinu. Það er komið haustkul í loftið í Brooklyn, vindurinn er farinn að gusta köldu en ekki heitu og það er því ekki kvöl og pína að kveikja á ofninum og standa fyrir framan logana á gaseldavélinni.

Þessi uppskrift er í miklu uppáhaldi hjá mér núna. Sítrónubragðið kemur alls ekki sterkt fram en spilar samt ljúft aukahlutverk og þeyttu eggjahvíturnar gera það að verkum að deigið þarf ekki lyftiduft en afurðin verður samt létt og eilítið loftkennd. Það má annaðhvort hræra ricottaostinn þar til hann blandast alveg inn í deigið (það finnst mér best) eða blanda honum varlega saman við þannig að maður fær stundum upp í sig bita af ricotta. Uppskriftin er fyrir þrjá og ég mæli sterklega með að ef þið eruð að elda fyrir fjóra eða fleiri að tvöfalda uppskriftina. Bláberjasósan kom líka mjög vel út og er góð tilbreyting frá hlynsírópinu (þó það megi auðvitað skvetta smá hlynsírópi yfir líka).

SJÁ UPPSKRIFT

Amerískar pönnukökur með berjum og hlynsírópi

Litla systir Elmars er hjá okkur í Brooklyn núna. Í tilefni þess að vera komin með gest til að flækjast um Brooklyn með ákváðum við að fara saman á Coney Island. Við löbbuðum meðfram strandlengjunni, horfðum á fólk, fórum á sædýrasafn og skoðuðum fræga skemmtigarðinn Luna Park. Það var frábært að komast nær sjónum því veðrið hefur verið rakt og heitt undanfarna daga og því var hafgolan meira en kærkomin. Hér eru nokkrar myndir frá deginum:

Þar sem hún er fyrsti gestur okkar í nýrri íbúð þá vildi ég nýta tækifærið og gefa henni eitthvað sérstaklega amerískt að borða á laugardagsmorgni. Það er fátt sem er meira við hæfi á letilegum helgarmorgnum heldur en amerískar pönnukökur með hlynsírópi og ferskum berjum. Ég hef prófað ýmsar pönnukökuuppskriftir á síðustu tveimur árum (sumar sem eiga eftir að rata á vefinn) og þær eru eins misjafnar og þær eru margar. Ég er samt sérstaklega hrifin af þessari því hún notar ,buttermilk’ (mjólkurvara álík súrmjólk en ekki eins þykk) og er ekki smekkfull af sykri. 

SJÁ UPPSKRIFT

Kanillengja með kremi

Eldað í Vesturheimi er eins árs í dag. Ég er búin að skrifa 76 færslur, birta 89 uppskriftir og landa einu blaðaviðtali. Ég ætla ekki einu sinni að telja myndirnar sem ég hef birt, ég er hrædd um að ég fái vægt áfall. En mig langaði til að nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að líta inn hjá mér – hvort sem þið gerið það reglulega eða endrum og eins. Ég get ekki byrjað að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir heimsóknir ykkar, athugasemdir og áhuga.

Er þetta orðið of væmið? Of vandræðalegt? Vindum okkur þá í sykur-, smjör- og gerbombu dagsins. Ég bakaði hana sérstaklega fyrir ykkur.

Þetta sætabrauð er stórhættulegt. Það er svo mjúkt, bragðgott og sætt. Sykurinn og smjörið leka niður í mótið og botninn á brauðinu verður karamellukenndur. Það passar ótrúlega vel með heitu kaffi eða kaldri mjólk. Og þið munuð vilja borða það allt án þess að deila með öðrum. (Eða var það bara ég?) Ég hugsa að ég búi það ekki til aftur nema ég eigi von á fólki í kaffibolla, svo ég geti haft hemil á mér. Borðsiðirnir í dag voru ekki beint til fyrirmyndar.

Þetta brauð, eins og flest allt gerbrauð, krefst smá tíma og alúðar. Það þarf að hefast tvisvar og hvílast tvisvar, bakast í hálftíma og kólna í korter. Þetta er því tilvalið brauð til að baka um helgi þegar veðrið er vont og hangsa þarf inni. Það má líka búa til deigið og stinga því inn í ísskáp og fletja það út og baka næsta dag. Það má sleppa rjómaostskreminu og búa frekar til súkkulaðikrem eða glassúr. Eða sleppa bara kremi alfarið. En fyrir alla muni fáið fólk í kaffi. Eins og Vesturheimsbúar segja:

Sharing is caring.

SJÁ UPPSKRIFT

Ferskju- og bláberjabaka

Það er eitthvað hippalegt við ferskjubökur. Ég veit ekki alveg hvaðan þau tengsl koma en einhvern veginn, í mínum huga, eru einhver órjúfanleg vensl á milli ferskja í böku og hippa. Ef til vill ímynda ég mér að þegar allir vildu elska hver annan (í kannski einum of bókstaflegum skilningi) og reykja ógrynni af grasi þá hafi þessi réttur komið við sögu. En þetta er auðvitað bara tóm vitleysa í mér því að það þarf hvorki að vera hippi né grasunnandi til þess að falla fyrir þessum ávaxtaríka unaði í bökuskel.

Ég hef bakað og fjallað um amerískar bökur áður þar sem ég fór út í nokkur smáatriði og ráðleggingar til að búa til vel heppnaða böku. Það er kannski ekki skrítið að Joy the Baker segi að ,baka sé ást’, því bökuskelin krefst alúðar, þolinmæðar og blíðra handtaka. Í rauninni veltur farsæll árangur bökugerðar alfarið á því að smjörinu í deiginu sé leyft að haldast köldu alveg fram að því að hún er sett í ofninn. Ef maður er með heitar hendur þá er gott að vera með skál af klakafylltu vatni til að kæla hendurnar á milli þess sem deiginu er þjappað saman. Eldhúsið má ekki vera of heitt (viftan var á fullu í sjóðbullandi heitu eldhúsinu mínu) og gott er að fletja deigið út eins langt frá ofninum og pláss leyfir.

Það skemmtilega við þessar bökur (fyrir utan hversu tilkomumiklar og ljúffengar þær eru) er að maður getur sett hvaða ávexti sem er í fyllinguna og fylgt þannig því besta sem er í boði í búðinni eða náttúrunni. Á þessum árstíma eru markaðirnir í New York fullir af ilmandi ferskjum og nektarínum og ég nældi mér í sætustu ferskjur sem ég hef á ævi minni smakkað. Ég ákvað að nota frosin bláber þar sem bláberin í búðinni voru ansi lúin á að líta. Ef þið búið í Reykjavík þá veit ég að Kostur flytur inn ávexti og grænmeti frá New York einu sinni í viku og hver veit nema þið getið gripið girnilegar ferskjur þar og hent í eina svona bökuuppskrift. Ég mæli með því. 

Þessi baka er sigurvegari. Hún er besta baka sem ég hef búið til frá því að ég fór að henda slíkum bakstri inn í ofn. Ferskjurnar voru svo sætar að ég þurfti ekki að nota mikinn sykur (eins og maður þarf oft að gera með epli, perur og rabarbara), bökuskelin var fullkomin og bráðnaði í munni ásamt ávöxtunum. Ég bar bökuna fram með rjóma, þeyttum ásamt vanilludropum og örlitlum flórsykri. Vinkona okkar (hæ Tinna!) sem var í kvöldmat sagðist ekki vera hrifin af bökum en að þessi hafi verið einstaklega gómsæt. Ég kýs að trúa henni því ég get varla haldið aftur af því að stinga gaffli ofan í afgangana sem felast inni í ísskáp.

Ekki vera hrædd. Búið til böku.

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsamlokur & franskar kartöflur

Það er ekki oft sem ég elda kjöt. Kjöt úti í Bandaríkjunum er ágætlega dýrt fyrir fátæka námsmenn eins og okkur. Reyndar er hægt að fá ódýrt kjöt þar en mér hefur aldrei fundist það girnilegt – mjög feitt hormónakjöt af nautgripum sem hafa aldrei fengið að smakka gras og lifa við vægast sagt ógeðfelldar og afar mengandi aðstæður. Ekki aðeins finnst mér erfitt siðferðislega að styrkja þann iðnað heldur er kjötið engan veginn eins gott. Og á meðan ég get keypt ódýrt, bragðmikið og fallegt grænmeti fyrir sama verð þá lýtur kjöt í lægra haldi.

Það er því alltaf gaman að koma til Íslands og fá kjöt reglulega í matinn. Enda er grænmetið hérna skammarlega lélegt og oft ógirnilegt. Hvað er eiginlega málið með plöstuðu paprikurnar? Og innpökkuðu kryddjurtirnar frá Ísrael? Einhvern veginn efa ég að þetta sé nauðsynlegt.

Ég átti nautakjötsbita afgangs frá hrísgrjónaréttinum góða og ákvað að búa til steikarsamloku fyrir okkur. Mér fannst samt eiginlega alveg nauðsynlegt að vera með franskar með samlokunni en hryllti við stóru djúpfrystu pokunum í búðinni. Ég ákvað því að búa til mínar eigin. Það var reyndar ágætlega tímafrekt ferli. Ég fann ekki rétta hnífinn á mandólínið hans pabba þannig að við Embla skárum kartöflurnar niður í lengjur, lögðum þær í bleyti, þerruðum og bökuðum inn í ofni. Og franskarnar eru rosalega góðar! Það er líka hægt að leika sér með þær. Það má rífa parmesanost yfir þær áður en þær eru bornar fram, skreyta með fínsaxaðri steinselju, sáldra yfir þær hvítlaukssalti, úða yfir þær smá truffluolíu – möguleikarnir eru endalausir! Við borðuðum franskarnar bara beint úr ofninum með smá auka salti og dýfðum þeim ofan í tómatsósu. Stundum er einfaldleikinn bestur.

Steikarsamlokan var mjög einföld. Ég snöggsteikti kjötið og stakk því svo inn í ofn með frönskunum til að elda það aðeins meira. Ég bjó til sósu úr dijon sinnepi og sýrðum rjóma (ég fann uppskrift að sinnepsmajónesi en vildi ekki nota hana því það er mikil majónesfælni á þessum bæ), steikti sveppi og lauk og notaði klettasalat og súrar gúrkur til að setja á milli brauðsins. Ég keypti baguettebrauð en auðvitað er hægt að nota ciabatta, sveitabrauð eða í raun hvaða brauð sem til er við hendina (þó ég myndi seint mæla með þessu hefðbundna heimilisbrauði).

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: