Linguine með sítrónu og rækjum
Dvöl okkar í Bergen líður afskaplega hratt og það er eins og dagarnir hreinlega fljúgi frá mér. Við erum þó alltaf jafn ánægð hérna þrátt fyrir reglulegar úrkomur og einstaka kuldaskeið. Þegar sólin fór að skína um helgina þá nýttum við á tækifærið og töltum upp eitt bæjarfjallið hér í grenndinni. Løvstakken varð fyrir valinu í þetta skiptið og við áttum einstaklega skemmtilegan dag uppi á þessu lága fjalli með gullfallegt útsýni, nesti og (í Elmars tilfelli) nýja skó. Løvstakken er víst vinsælasta göngufjall Bergenbúa og ég var hæstánægð að sjá öll litlu krílin sem hlupu upp hæðarnar með foreldrum sínum.
Eitt af því sem ég elska við Bergen er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina. Þar er hægt að fá ógrynni af ferskum, nýveiddum skelfiski (dauðum og lifandi), reyktan og grafin lax, alls kyns hrogn og tilbúinn mat. Því miður er þetta oft ein túristasúpa þar sem ekkert lát er á skemmtiferðaskipum sem virðast raða sér að bryggjunni á hverjum degi með tilheyrandi látum og mannmergð. Við hættum okkur samt niður á markað um daginn og keyptum hálft kíló af rækjum í þennan dásemdar pastarétt.
Ég er örugglega ekki ein um það að finnast sjávarréttir sérstaklega góðir með sítrónu (ég neita a.m.k. að trúa því að það sé bara sítrónuáráttan mín að tala) og þessi diskur blandar þessum tveimur hráefnum mjög vel saman. Rétturinn er léttur, ferskur og sumarlegur og það er sérstaklega gott að mala smá ferskan pipar yfir réttinn þegar búið er að skammta honum á diskana. Og, í guðanna bænum, notið bara alvöru ferskan parmesanost í þennan rétt. Allt annað er drasl.
Linguine með sítrónu og rækjum
(Frá All Recipes)
- 500 g linguine (eða spagettí)
- 1 msk ólívuolía
- 6 hvítlauksgeirar, saxaðir
- 60 ml hvítvín [ég sleppti víninu og það kom ekki að sök]
- 1 sítróna, safinn kreistur úr
- 1 tsk sítrónubörkur, rifinn
- Sjávarsalt
- 2 tsk ferskur malaður svartur pipar
- 400 g risarækjur (eða minni rækjur), skelin og æðin fjarlægð
- 60 g smjör
- 2 msk steinselja
- 1 msk basilíka
Aðferð:
Hitið saltað vatn í stórum potti þangað til það fer að sjóða. Bætið pastanu saman við og sjóðið samkvæmt upplýsingum á pakkningu.
Hitið olíuna í stórri pönnu yfir meðalháum hita og steikið hvítlaukinn í ca. 1 mínútu. Blandið víni, sítrónusafa, sítrónuberki, salti og pipar saman við. Lækkið hitann og leyfið að hægsjóða þar til vökvinn hefur minnkað um tæplega helming.
Setjið rækjur, smjör, steinselju og basilíku út á pönnuna og eldið í 2 til 3 mínútur (ef rækjan er forsoðin þá er best að bæta henni saman við alveg síðast og leyfið að hitna án þess þó að elda hana, annars verður hún seig). Hrærið pastanu saman við og haldið áfram að elda í ca. 2 mínútur, hrærið og leyfið öllu að blandast vel saman.
Fyrir 4