Skip to content

Posts from the ‘Sítróna’ Category

Hanastél: Gylfagin

Þar sem við Elmar búum með Þórdísi langt frá fjölskyldum okkar þá missum við af vissum ,fríðindum’. Við erum ekki með neina pössun fyrir hana og höfum því skipt liði þegar það kemur að því að fara út á kvöldin með vinum. Við söknum þess eilítið að geta ekki farið saman út, bara tvö. Þessi löngun ýkist að mörgu leyti þegar maður býr í stúdíóíbúð og þarf að fara hljóðlega um á kvöldin til að vekja ekki barnið. En undanfarið höfum við átt góðar kvöldstundir, við tökum spil við kertaljós og drekkum einhvern drykk saman. Í gærkvöldi blandaði ég þennan ljúffenga kokkteil á meðan Elmar svæfði og við sötruðum á honum yfir nýja spilinu okkar.

Við keyptum gin frá Islay í Skotlandi – The Botanist – um daginn sem ég er alveg kolfallin fyrir. Viskíframleiðandinn Bruichladdich býr til takmarkað upplag af því en meirihluti jurtanna sem fara í ginið eru tíndar í námunda við verksmiðjuna. Ég blandaði því saman við nýkreistan sítrónusafa og sletti smá tímíansírópi sem ég hafði búið til fyrr um daginn. Mér fannst uppskriftin fyrir sírópið þó heldur stór og hef minnkað hana hér að neðan. Útkoman er ferskur og eilítið kryddaður gindrykkur sem rennur ljúflega niður. Það má svo auðvitað sleppa gininu fyrir þá sem ekki drekka.

*Tónlist með: Samaris – Góða Tungl

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjafrostpinnar

Við erum vel undirbúin fyrir hitann hérna úti. Við eigum ísvél, risastóra viftu sem er á fullu þegar loftkælingin er ekki í gangi og bara um daginn splæsti systir mín í frostpinnamót handa mér. Og ég gæti varla verið ánægðari með það. Það er svo ótrúlega auðvelt að búa til frostpinna og það er svo einstaklega skemmtilegt að búa þá til sjálf úr ferskum ávöxtum og vita að þeir eru ekki pakkaðir óþarfa aukaefnum.

Mér sýnist nú á öllu að veðrið sé álíka sólríkt og yndislegt á Íslandi og ég vona að það sé bara forsmekkurinn að góðu sumri. Enda kem ég heim eftir mánuð og mig langar sko ekki til að lenda í því aftur að upplifa 30 stiga hitabreytingu. Fyrst að veðrið leikur svo við okkur öll þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar frískandi og sumarlegar uppskriftir sem við Elmar höldum mikið upp á.

Engiferöl, ískaffi, læmónaðiSorbetar (t.d. mangó, jarðarberja, rabarbara).

Má ég líka stinga upp á sumarpartýi undir berum himni með mexíkósku þema: Guacamole, carnitas og quesadillur. Með bjórgarítum? Ég er viss um að það geti ekki klikkað.

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrus-smjörkex með timíani

Ég er óttalegur klaufi. Ég er alltaf að segja það hérna en stundum er ég ekki alveg viss um að fólk skilji hversu mikill klaufi ég er. Málið er að ég læt mig oft vaða án þess að hugsa beint um hversu fáránlega vanhugsaðar athafnir mínar eru. Ég sting putta ofan í sjóðandi heita karamellu bara af því að ég get ekki beðið eftir að smakka hana. Ég gleymi að nota ofnhanska þegar ég teygi mig eftir nýbökuðum ofnrétti. Reyndar er klaufaskapur minn ekki bundinn við eldhúsið. Um daginn missti ég fartölvuna mína á andlitið á mér og náði að rispa gleraugun mín svo illa að ég verð víst að þola að vera eineygð þar til ég finn ný á námsmannaverði. Mér er eiginlega ekki viðbjargandi.

Matreiðslubók Joy the Baker kom út í vikunni og ég hef sjaldan verið eins spennt að fá nýja bók í hendurnar. Ég er ekkert lítið skotin í stúlkunni og blogginu hennar en hún á heiðurinn af kanillengjunni, ferskjubökunni og klassískum amerískum pönnukökum sem ég hef skrifað um hér. Bókin olli mér ekki vonbrigðum og ég er mjög spennt að elda og baka upp úr henni á næstu vikum.

Ég ákvað að tækla smjörkexið hennar fyrst. Ég er forfallinn sítrusávaxtarfíkill og ég elska smjör þannig að kannski kemur ákvörðun mín ekki beint á óvart. En uppskriftin er tiltölulega einföld og ég átti öll hráefnin til. Ég lendi samt alltaf í sömu vandræðum þegar það kemur að því að fletja út smjörkexdeigið – það vill helst liðast í sundur og því er svolítið erfitt fyrir mig að fletja það jafnt út. Ef þetta vandamál er eitthvað sem þið kannist við þá myndi ég jafnvel rúlla deiginu í pylsu og skera deigið svo niður í þunnar sneiðar eftir kælingu. En smjörkexið er alveg frábært! Timíanið gerir það svolítið sérstakt og sítrusbragðið á mjög vel við. Þetta er mjög gott með svörtu tei.

SJÁ UPPSKRIFT

Afmæliskaka

Ég varð árinu eldri í gær og eyddi deginum í eldhúsinu en kvöldinu með nokkrum af bestu og uppáhaldsvinum mínum í skemmtilegu matarboði í Vatnsendahverfinu. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna tíma til að hittast öll saman og því þótti mér óendanlega vænt um að fá heila kvöldstund í víndrykkju, grill, át og spjall. Með okkur var tveggja ára snillingur (hæ Kári!) sem lék við fingur sér og klukkaði okkur á víxl í stórfiskaleik á milli þess sem hann dýfði appelsínusneiðum í tómatsósu og át með bestu lyst. Kósýheitin voru alveg í hámarki.

Og auðvitað bakaði ég afmælisköku handa sjálfri mér. Og það ætti ekki að koma neinum (þ.e. þeim sem þekkja mig og þeim lesa þetta blogg reglulega) að ég bjó til eitt stykki sítrónubombu í tilefni dagsins. Ég hafði séð þessa hnallþóru á smitten kitchen fyrir löngu síðan og hef beðið eftir réttu tilefni í marga mánuði. Kakan er tímafrek en það er hægt að undirbúa allt nema kremið nokkrum dögum áður. Botnana má setja í frysti (eftir að þeir hafa náð stofuhita) og geyma í 2 vikur og sítrónumaukið geymist í kæli í viku. 

Ég verð reyndar að viðurkenna að sítrónumaukið olli mér töluverðum vandræðum og heilabrotum. Ég bjó það til daginn sem ég setti kökuna saman og bölvaði því milli samanbitinna tanna að hafa ekki haft vit á því að hafa gert það a.m.k. deginum áður. Það vildi bara alls ekki þykkna! Ég setti það inn í ísskáp, tók það út aftur, setti það yfir sjóðandi vatn, hrærði eins og ég ætti lífið að leysa, setti það inn í frysti, skellti matarlími í það en það náði samt ekki að þykkna nægilega mikið. Blandan sem varð eftir og situr í ísskápinum í dag er samt þykk og mun nærri því sem ég held að maukið eigi að vera.

Ég virðist samt hafa verið ein um að lenda í vandræðum með maukið – ef ég á að taka mark á athugasemdakerfinu hjá smitten kitchen. Það er tvennt sem ég held að hafi farið úrskeiðis hjá mér. Ég held að ég hafi ekki verið með maukið yfir hita nógu lengi til að byrja með og leyfði því þannig ekki þykkna nægilega, en blandan á að vera álíka þykk og hollandaisesósa á þeim tímapunkti. Svo þykkist maukið þegar það kólnar og því meiri tíma sem þú getur gefið því í kælinum, því betra. Annars get ég líka bent á þesssa sítrónumauksuppskrift ef þið viljið prófa aðra, en Joy of Baking klikkar sjaldnast.

Kremið var samt mun einfaldara og hitamælirinn er í raun óþarfur þó að mér hafi fundist mjög gott að styðjast við hann. Ef þið eruð ekki með hitamæli við hendina þá má þeyta í staðinn á lægstu stillingu í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er farin að þykkna. Aukið svo hraðann og þeytið í 5 mínútur og  blandan á að byrja að þykkjast verulega í þeim tíma.

Kakan var virkilega góð! Hún stóðst allar mínar væntingar og mér fannst sætleiki kremsins passa afskaplega vel við súrt bragð sítrónumauksins. Ég skemmti mér líka við að kveikja aðeins í kreminu með crème brûlée kveikjara. 

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónurísottó með risarækjum

Við erum farin að sjá fyrir endann á Noregsdvölinni og reynum núna að nýta þá (fáu) daga sem sólin skín og lofar hlýju veðri. Um daginn fórum við í heilsdags fjallagöngu (þau voru víst þrjú) og sáum norskar rollur, fjöll, dali og vötn. Landslagið hérna er svo yfirmáta fagurt og það er svo gaman að labba um í náttúrunni og borða nesti í skjólsælum lyngskálum. Við vorum reyndar ansi lemstruð og sólbrennd þegar við komum aftur heim og það fossblæddi úr hælnum á Elmari þegar hann dró af sér skóna.

Matarúrvalið hérna í Bergen kom mér svolítið í opna skjöldu og ég verð að viðurkenna að ég er orðin gjörspillt af því úrvali af ferskri matvöru sem stendur mér til boða í New York.  Að horfa í hillurnar getur verið kómísk reynsla því að úrval af niðursoðnu grænmeti er margfalt meira en það ferska. Toro er framleitt í Bergen og heilu rekkarnir eru tileinkaðir öllu því sem hægt er að setja í duftform og blanda vatni. Það sem vegur þó upp á móti er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina sem selur fullt af fallegu nýveiddu sjávarfangi.

En það er hægt að kaupa sítrónur hérna. Og ég get hreinlega ekki staðist rétti sem blanda saman sítrónum og sjávarfangi. Sítrónur eru, að mínu mati, undrabarn ávaxtanna og geta ljáð hinum þyngstu réttum ferskt og létt bragð. Og það er tilfellið með þennan sítrónurísottórétt – sítrónan og rækjurnar poppa upp hrísgrjónin sem eru mjúk og rjómakennd. Rísottóréttir krefjast ákveðinnar fyrirhafnar, það þarf að hræra stanslaust í pottinum á meðan heitu soðinu er bætt smám saman við og getur það tekið allt að hálftíma með tilheyrandi verkjum í upphandleggjum og öxlum. En að sama skapi fer fyrirhöfnin ekki á milli mála þegar rétturinn er borðaður, hann bragðast ríkulega af þeirri umhyggju sem hann krafðist.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með sítrónu og rækjum

Dvöl okkar í Bergen líður afskaplega hratt og það er eins og dagarnir hreinlega fljúgi frá mér. Við erum þó alltaf jafn ánægð hérna þrátt fyrir reglulegar úrkomur og einstaka kuldaskeið. Þegar sólin fór að skína um helgina þá nýttum við á tækifærið og töltum upp eitt bæjarfjallið hér í grenndinni. Løvstakken varð fyrir valinu í þetta skiptið og við áttum einstaklega skemmtilegan dag uppi á þessu lága fjalli með gullfallegt útsýni, nesti og (í Elmars tilfelli) nýja skó. Løvstakken er víst vinsælasta göngufjall Bergenbúa og ég var hæstánægð að sjá öll litlu krílin sem hlupu upp hæðarnar með foreldrum sínum.

Eitt af því sem ég elska við Bergen er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina. Þar er hægt að fá ógrynni af ferskum, nýveiddum skelfiski (dauðum og lifandi), reyktan og grafin lax, alls kyns hrogn og tilbúinn mat. Því miður er þetta oft ein túristasúpa þar sem ekkert lát er á skemmtiferðaskipum sem virðast raða sér að bryggjunni á hverjum degi með tilheyrandi látum og mannmergð. Við hættum okkur samt niður á markað um daginn og keyptum hálft kíló af rækjum í þennan dásemdar pastarétt.

Ég er örugglega ekki ein um það að finnast sjávarréttir sérstaklega góðir með sítrónu (ég neita a.m.k. að trúa því að það sé bara sítrónuáráttan mín að tala) og þessi diskur blandar þessum tveimur hráefnum mjög vel saman. Rétturinn er léttur, ferskur og sumarlegur og það er sérstaklega gott að mala smá ferskan pipar yfir réttinn þegar búið er að skammta honum á diskana. Og, í guðanna bænum, notið bara alvöru ferskan parmesanost í þennan rétt. Allt annað er drasl.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: