Sítrónurísottó með risarækjum
Við erum farin að sjá fyrir endann á Noregsdvölinni og reynum núna að nýta þá (fáu) daga sem sólin skín og lofar hlýju veðri. Um daginn fórum við í heilsdags fjallagöngu (þau voru víst þrjú) og sáum norskar rollur, fjöll, dali og vötn. Landslagið hérna er svo yfirmáta fagurt og það er svo gaman að labba um í náttúrunni og borða nesti í skjólsælum lyngskálum. Við vorum reyndar ansi lemstruð og sólbrennd þegar við komum aftur heim og það fossblæddi úr hælnum á Elmari þegar hann dró af sér skóna.
Matarúrvalið hérna í Bergen kom mér svolítið í opna skjöldu og ég verð að viðurkenna að ég er orðin gjörspillt af því úrvali af ferskri matvöru sem stendur mér til boða í New York. Að horfa í hillurnar getur verið kómísk reynsla því að úrval af niðursoðnu grænmeti er margfalt meira en það ferska. Toro er framleitt í Bergen og heilu rekkarnir eru tileinkaðir öllu því sem hægt er að setja í duftform og blanda vatni. Það sem vegur þó upp á móti er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina sem selur fullt af fallegu nýveiddu sjávarfangi.
En það er hægt að kaupa sítrónur hérna. Og ég get hreinlega ekki staðist rétti sem blanda saman sítrónum og sjávarfangi. Sítrónur eru, að mínu mati, undrabarn ávaxtanna og geta ljáð hinum þyngstu réttum ferskt og létt bragð. Og það er tilfellið með þennan sítrónurísottórétt – sítrónan og rækjurnar poppa upp hrísgrjónin sem eru mjúk og rjómakennd. Rísottóréttir krefjast ákveðinnar fyrirhafnar, það þarf að hræra stanslaust í pottinum á meðan heitu soðinu er bætt smám saman við og getur það tekið allt að hálftíma með tilheyrandi verkjum í upphandleggjum og öxlum. En að sama skapi fer fyrirhöfnin ekki á milli mála þegar rétturinn er borðaður, hann bragðast ríkulega af þeirri umhyggju sem hann krafðist.
Sítrónurísottó með risarækjum
(Frá Bon Appetit, Maí 2002)
- 1 1/2 lítri kjúklingasoð
- 50 g smjör
- 1 1/2 msk ólívuolía
- 2 stórir skallotlaukar, saxaðir
- 500 ml arborio hrísgrjón (eða önnur rísottóhrísgrjón)
- 60 ml hvítvín
- 100 g parmesan, rifinn
- 2 msk steinselja, söxuð
- 2 msk sítrónusafi, ferskur
- 4 tsk sítrónubörkur, rifinn
- 16-20 risarækjur [ég notaði litlar rækjur]
- Salt og pipar
Aðferð:
Setjið kjúklingasoðið í stóran pott og náið upp suðu við meðalháan hita. Þegar suðu hefur verið náð lækkið hitann næstum því alveg og haldið heitu með því að setja lok á pottinn.
Bræðið 20 g af smjöri í stórum potti yfir meðalháum hita ásamt ólívuolíu. Bætið skallotlauknum saman við og steikið þar til laukurinn hefur mýkst (ca. 6 mínútur).
Bætið hrísgrjónunum saman við og steikið þar til hrísgrjónin verða glær (ca. 3 mínútur). Hellið víninu út í pottinn og eldið, hrærandi stanslaust, þangað til vínið hefur gufað upp (ca. 30 sekúndur). Bætið 1/2 bolla (einni ausu) af soðinu út í pottinn, látið allt krauma við hægsuðu og hrærið stanslaust þar til hrísgrjónin hafa drukkið í sig soðið. Bætið restinni af soðinu saman við, einni ausu í einu, og hrærið þess á milli stanslaust í pottinum, þegar hrísgrjónin hafa drukkið í sig soðið má bæta við næstu ausu. Haldið áfram þar til hrísgrjónin eru mjúk og rjómakennd en samt með smá biti (al dente), það gæti verið soð afgangs (ca. 35 mínútur).
Hrærið ostinum og restinni af smjörinu saman við. Hrærið því næst steinseljunni, sítrónusafanum og sítrónuberkinum saman við. Smakkið til og bætið við salti og pipar eftir smekk.
Færið yfir í stóra skál (gott er að hita hana aðeins áður í ofninum) og leggið grillaðar risarækjur yfir réttinn.
[*Það má líka skera forsoðnar rækjurnar í bita og hræra þeim saman við rísottóið ásamt sítrónusafanum.]
Fyrir 4
I want this sooooooo much right now! Can you make me some when you get home? Please!
Yes ma’am :)