Skip to content

Posts from the ‘Hrísgrjón’ Category

Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum

Vetrarstormurinn Nemó (er hægt að taka storm með því nafni alvarlega?) fikrar sig upp austurströndina og við megum eiga von á ofankomu, slyddu, roki og öllu mögulegu um helgina. Mér er ekki skemmt. Það góða við svona veður er hvað það er einstaklega notalegt að húka heima, búa til eitthvað hægeldað eða jafnvel baka skonsur.

Ég er búin að elda þennan rétt þrisvar sinnum núna. Hann er úr nýju uppáldsbókinni minni, Jerusalem, sem ég get ekki hætt að skoða og elda upp úr. Í fyrsta skiptið sem ég eldaði hann fór allt úrskeiðis. Svona næstum því. Ottolenghi segir manni að elda réttinn í lokaðri pönnu yfir lágum hita á eldavélinni. Eftir tilgreindan tíma var kjúklingurinn þó ennþá hrár en hrísgrjónin voru elduð í gegn. Eftir tæpan klukkutíma í viðbót var kjúklingurinn eldaður í gegn en hrísgrjónin voru ofelduð og klesst. Við vissum þó að rétturinn yrði góður gætum við bara eldað hann rétt.

Ég ákvað því að taka fram trygga steypujárnpottinn minn (sem hefur aldrei brugðist mér) og elda réttinn inni í ofni frekar en á eldavélinni. Það var með betri hugmyndum sem ég hef fengið. Kjúklingurinn var alveg rétt eldaður, hrísgrjónin bragðmikil og með örlitlu biti og kryddin gáfu réttinum skemmtilegt og ríkt miðausturlenskt bragð. Þetta er frábær vetrarmatur – seðjandi, kryddaður og heitur. Ég mæli með því að bera hann fram með smá grískri jógurt með ólívuolíu og jafnvel einhverju góðu brauði.

SJÁ UPPSKRIFT

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

Sólin heldur áfram að skína og blómin spretta upp úr beðunum á methraða og trén eru farin að hylja nekt sína með fíngerðum hvítum blómum. Vorið er sérstaklega falleg árstíð í stórborginni . Það er þó ennþá a.m.k. mánuður í að bændamarkaðurinn fari að selja eitthvað annað en rótargrænmeti og epli en ég bíð spennt eftir berjunum, aspasnum og rabarbaranum (þó ég eigi enn eftir að venjast því að þurfa að borga fyrir rabarbarann).

Ég hef aldrei eldað tófú sjálf. Mér finnst sjálfri tófú ágætlega gott (sé það rétt matreitt) en einhvern veginn hefur mér aldrei dottið í hug áður að teygja mig eftir pakkningunni í búðinni og skella því í rétt. En það mun sko breytast eftir þessa frumraun mína. Ég fann þessa uppskrift á eldhúsblogginu The Kitchn og varð strax hrifin. Þeir mæla með því að þrýsta vökvanum úr tófúinu, velta því síðan upp úr sojasósu og baka í ofni í ca. hálftíma. Við þetta verður tófúið svolítið stökkt að utan en mjúkt og eilítið seigt að innan og er frábær (og mjög holl) viðbót við asíska rétti. Rétturinn var mjög góður og seðjandi með skemmtilegri asískri bragðblöndu af hvítlauki, engiferi, sítrónugrasi og chilí. Það má auðvitað gera þetta að kjötrétti með því að snöggsteikja sojamaríneraða kjötbita á pönnu.

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónurísottó með risarækjum

Við erum farin að sjá fyrir endann á Noregsdvölinni og reynum núna að nýta þá (fáu) daga sem sólin skín og lofar hlýju veðri. Um daginn fórum við í heilsdags fjallagöngu (þau voru víst þrjú) og sáum norskar rollur, fjöll, dali og vötn. Landslagið hérna er svo yfirmáta fagurt og það er svo gaman að labba um í náttúrunni og borða nesti í skjólsælum lyngskálum. Við vorum reyndar ansi lemstruð og sólbrennd þegar við komum aftur heim og það fossblæddi úr hælnum á Elmari þegar hann dró af sér skóna.

Matarúrvalið hérna í Bergen kom mér svolítið í opna skjöldu og ég verð að viðurkenna að ég er orðin gjörspillt af því úrvali af ferskri matvöru sem stendur mér til boða í New York.  Að horfa í hillurnar getur verið kómísk reynsla því að úrval af niðursoðnu grænmeti er margfalt meira en það ferska. Toro er framleitt í Bergen og heilu rekkarnir eru tileinkaðir öllu því sem hægt er að setja í duftform og blanda vatni. Það sem vegur þó upp á móti er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina sem selur fullt af fallegu nýveiddu sjávarfangi.

En það er hægt að kaupa sítrónur hérna. Og ég get hreinlega ekki staðist rétti sem blanda saman sítrónum og sjávarfangi. Sítrónur eru, að mínu mati, undrabarn ávaxtanna og geta ljáð hinum þyngstu réttum ferskt og létt bragð. Og það er tilfellið með þennan sítrónurísottórétt – sítrónan og rækjurnar poppa upp hrísgrjónin sem eru mjúk og rjómakennd. Rísottóréttir krefjast ákveðinnar fyrirhafnar, það þarf að hræra stanslaust í pottinum á meðan heitu soðinu er bætt smám saman við og getur það tekið allt að hálftíma með tilheyrandi verkjum í upphandleggjum og öxlum. En að sama skapi fer fyrirhöfnin ekki á milli mála þegar rétturinn er borðaður, hann bragðast ríkulega af þeirri umhyggju sem hann krafðist.

SJÁ UPPSKRIFT

Asísk steikt hrísgrjón með spældu eggi

Í dag kom viðgerðarmaðurinn og gerði við uppþvottavélina, mér til mikillar ánægju. Það er fátt sem mér finnst eins leiðinlegt eftir góða kvöldmáltíð og að þurfa að vaska upp heilan helling af diskum, brettum, skálum, pönnum og pottum. Lífsgæði mín hafa því aukist til muna og það lá við að ég rauk upp um hálsinn á grey manninum þegar hann tilkynnti mér að vélin væri farin að virka. Ég kvaddi hann með sparibrosinu mínu og fór að hlaða í vélina leirtaui sem ég hafði ekki nennt að vaska upp kvöldið áður í þeirri veiku von að blessuð vélin hrykki í gang.

Eldavélin fór aftur á móti að virka í gærkvöldi (þetta er allt mjög dularfullt) og ég greip því tækifærið og bjó til asískan hrísgrjónarétt sem er bæði einfaldur og einstaklega ljúffengur. Ef þið eigið afgangshrísgrjón í ísskápnum þá verður þessi réttur ennþá einfaldari og fljótlegri fyrir vikið. Ég hef reyndar oftast notað nýsoðin hrísgrjón en það veldur því að hrísgrjónin verða aðeins of blaut. Dagsgömul hrísgrjón eru best í réttinn því þau hafa tapað vökva og rétturinn verður þá ekki eins grautkenndur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: