Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum
Vetrarstormurinn Nemó (er hægt að taka storm með því nafni alvarlega?) fikrar sig upp austurströndina og við megum eiga von á ofankomu, slyddu, roki og öllu mögulegu um helgina. Mér er ekki skemmt. Það góða við svona veður er hvað það er einstaklega notalegt að húka heima, búa til eitthvað hægeldað eða jafnvel baka skonsur.
Ég er búin að elda þennan rétt þrisvar sinnum núna. Hann er úr nýju uppáldsbókinni minni, Jerusalem, sem ég get ekki hætt að skoða og elda upp úr. Í fyrsta skiptið sem ég eldaði hann fór allt úrskeiðis. Svona næstum því. Ottolenghi segir manni að elda réttinn í lokaðri pönnu yfir lágum hita á eldavélinni. Eftir tilgreindan tíma var kjúklingurinn þó ennþá hrár en hrísgrjónin voru elduð í gegn. Eftir tæpan klukkutíma í viðbót var kjúklingurinn eldaður í gegn en hrísgrjónin voru ofelduð og klesst. Við vissum þó að rétturinn yrði góður gætum við bara eldað hann rétt.
Ég ákvað því að taka fram trygga steypujárnpottinn minn (sem hefur aldrei brugðist mér) og elda réttinn inni í ofni frekar en á eldavélinni. Það var með betri hugmyndum sem ég hef fengið. Kjúklingurinn var alveg rétt eldaður, hrísgrjónin bragðmikil og með örlitlu biti og kryddin gáfu réttinum skemmtilegt og ríkt miðausturlenskt bragð. Þetta er frábær vetrarmatur – seðjandi, kryddaður og heitur. Ég mæli með því að bera hann fram með smá grískri jógurt með ólívuolíu og jafnvel einhverju góðu brauði.