Skip to content

Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum

Vetrarstormurinn Nemó (er hægt að taka storm með því nafni alvarlega?) fikrar sig upp austurströndina og við megum eiga von á ofankomu, slyddu, roki og öllu mögulegu um helgina. Mér er ekki skemmt. Það góða við svona veður er hvað það er einstaklega notalegt að húka heima, búa til eitthvað hægeldað eða jafnvel baka skonsur.

Ég er búin að elda þennan rétt þrisvar sinnum núna. Hann er úr nýju uppáldsbókinni minni, Jerusalem, sem ég get ekki hætt að skoða og elda upp úr. Í fyrsta skiptið sem ég eldaði hann fór allt úrskeiðis. Svona næstum því. Ottolenghi segir manni að elda réttinn í lokaðri pönnu yfir lágum hita á eldavélinni. Eftir tilgreindan tíma var kjúklingurinn þó ennþá hrár en hrísgrjónin voru elduð í gegn. Eftir tæpan klukkutíma í viðbót var kjúklingurinn eldaður í gegn en hrísgrjónin voru ofelduð og klesst. Við vissum þó að rétturinn yrði góður gætum við bara eldað hann rétt.

Ég ákvað því að taka fram trygga steypujárnpottinn minn (sem hefur aldrei brugðist mér) og elda réttinn inni í ofni frekar en á eldavélinni. Það var með betri hugmyndum sem ég hef fengið. Kjúklingurinn var alveg rétt eldaður, hrísgrjónin bragðmikil og með örlitlu biti og kryddin gáfu réttinum skemmtilegt og ríkt miðausturlenskt bragð. Þetta er frábær vetrarmatur – seðjandi, kryddaður og heitur. Ég mæli með því að bera hann fram með smá grískri jógurt með ólívuolíu og jafnvel einhverju góðu brauði.

Kjúklingur með kardemommuhrísgrjónum og ferskum kryddjurtum

(Örlítið breytt uppskrift frá Yotam Ottolenghi og Sami Tamimi: Jerusalem)

 • 4 msk ólívuolía
 • 2 meðalstórir laukar, skornir í þunnar sneiðar
 • 1 kg kjúklingalæri, með beini og skinni, eða 1 heill kjúklingur, skorinn í fjóra bita
 • 10 kardemommubelgir
 • rúm 1/4 tsk negulnaglar
 • 2 kanilstangir, brotnar í tvennt
 • 1 2/3 bollar [300 g] basmatí hrísgrjón
 • 3 msk rúsínur (má sleppa)
 • 2 1/4 bolli [550 ml] sjóðandi vatn
 • 1. 5 msk [5 g] fersk steinseljulauf, söxuð
 • 1/4 bolli [5 g] ferskt dill, saxað
 • 1/4 bolli [5 g] fersk kóríanderlauf, söxuð
 • 1/3 bolli grísk jógúrt, hrærð með 2 msk af ólívuolíu (má sleppa)
 • salt og ferskur malaður pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F og setjið grindina í neðsta þriðjung ofnsins.

Takið fram stóran eldfastan pott (eða notið stóra pönnu með loki ef þið eigið ekki slíkan pott). Hitið 2 msk af ólívuolíu í honum yfir meðalháum hita. Setjið laukinn út í og eldið, hrærið af og til, í 15 – 20 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn gullinbrúnn á litinn [þetta tekur mig alltaf a.m.k. 20 mín]. Flytjið laukinn yfir í litla skál og þurrkið pottinn með eldhúspappír.

Setjið kjúklinginn í stóra skál og kryddið með 1.5 tsk salti og 1.5 tsk pipar. Hellið 2 msk af ólívuolíu yfir kjúklinginn og setjið kardemommubelgina, negulnaglana og kanilstangirnar í skálina. Veltið kjúklingabitunum til að kryddin og ólívuólian þekji bitana.

Hitið pottinn/pönnuna aftur og stekið kjúklinginn og kryddin í 5 mínútur á hverri hlið (ekki sleppa þessu þrepi, þetta eldar kjúklinginn að hluta til). Takið kjúklinginn upp úr og setjið til hliðar. Kryddin mega vera eftir í pottinum en það er líka í lagi ef þau límast við kjúklinginn. Ef að kjúklingurinn skilur eftir sig mikla fitu er gott að hella henni frá og skilja bara eftir filmu af olíu í pottinum.

Setjið hrísgrjónin, laukinn, rúsínurnar, 1 tsk salt og 1 tsk malaðan pipar í pottinn/pönnuna. Hrærið vel og setjið síðan kjúklinginn aftur í pottinn/pönnuna og ýtið honum ofan í hrísgrjónin.

Hellið sjóðandi vatninu yfir allt, setjið lokið á og eldið inni í ofni í 30 mínútur, eða þar til vatnið hefur gengið inn í hrísgrjónin og kjúklingurinn er eldaður í gegn.*

Takið út úr ofninum þegar kjúklingurinn er tilbúinn. Takið lokið af og leggið hreint viskustykki yfir pottinn og setjið lokið aftur á. Leyfið réttinum að hvílast í 10 mínútur. Sáldrið kryddjurtunum yfir réttinn og notið gaffal til að blanda þeim við og losa aðeins um hrísgrjónin. Smakkið og bætið við meira salti eða pipar ef þarf.

Berið fram heitt eða volgt með grískri jógúrt og smá skammti af kryddjurtum.

[*Ottolenghi segir í uppskriftinni að elda yfir lágum hita á eldavélinni í pönnu í 30 mínútur. Ég gerði það í fyrsta skipti sem ég bjó til þennan rétt og kjúklingurinn var ennþá frekar hrár eftir þann tíma og ég lenti í alls kyns vandræðum með hrísgrjónin. Eftir smá rannsóknir á netinu sá ég að fleiri lentu í sama vanda. Ég mæli því með að baka það í lokuðum potti eða eldföstu móti með álfilmu yfir inni í ofni.]

Fyrir 4 – 5

Prenta uppskrift

5 athugasemdir Post a comment
 1. Hjördís Inga #

  Þetta er spennandi uppskrift hjá þér sem ég hlakka til að prófa og smakka. Vonandi verður veðrið hjá þér ekki eins slæmt og búið er að spá.
  Kær kveðja Hjördís

  08/02/2013
  • Takk fyrir það Hjördís. Þessi uppskrift ætti engan að svíkja, okkur finnst hún algjört lostæti :)

   08/02/2013
 2. Hjördís Inga #

  Bjó til þennan frábæra kjúklingarétt. Fór gagngert út í búð með uppskriftina og keypti það sem mig vantaði og fór nákvæmlega eftir leiðbeiningunum sem eru mjög góðar. Rétturinn gerði mikla lukku í fjölskyldunni og mér finnst að ekki megi sleppa rúsinunum. Þær gera mjög gott bragð. var með stórar rúsínur. Takk fyrir þessa frábæru uppskrift sem ég á ábyggilega eftir að búa til aftur.
  Kær kveðja Hjördís

  09/02/2013
  • En hvað það gleður mig óskaplega að heyra að ykkur hafi líkað hann! Við erum farin að elda hann vikulega hérna. Ég er sammála þér með rúsínurnar en ég þekki nokkra sem geta ómögulega borðað heitar rúsínur ;)

   09/02/2013
 3. Inga Þórey #

  Var að elda þennan rétt, hann er algjört lostæti og rosa einfaldur og frekar ódýr (nema kryddjurtirnar kosta reyndar sitt, ekkert mál samt að rækta dill og steinselju í garðinum og þetta er sniðug leið til að nýta þær). Við keyptum einn bakka af kjúklingalærum (tæpt kíló, 5 læri) og kannski er kjötáherslan á þessu heimili mikil, en við þrjú (einn lystarlaus 2 ára meðtalinn) kláruðum allan kjúklinginn en ekki hrísgrjónin, þau duga í matinn líka á morgun.

  01/04/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: