Skip to content

Vikulok

vikulok2 1

Snjóstormurinn Nemó kom og fór og hafði lítil áhrif á hverfið okkar. Önnur en hversu fallegt og hljótt allt varð í hvítum snjónum.

Ég er ekki óvön langdvölum frá Íslandi. Ég bjó í Tókýó í sex ár sem unglingur og hef núna búið í tæplega fimm ár í Skotlandi og Bandaríkjunum. Það eru mikil forréttindi að fá að búa erlendis og upplifa nýja og áður óþekkta staði á svo náinn hátt. En það koma stundir þar sem Ísland kallar á mig. Það byrjar eins og lágvært hvísl en svo finn ég mig hugsa heim með miklum söknuði. Þessi tímabil líða alltaf hjá en það er auðvelt að hugsa til himins sem teygir úr sér út í óendanleikann þegar sýn manns er sífellt innrömmuð byggingum. Þegar skvaldur í fólki, drunur í bílum og skerandi sírenuvél er í endurteknu undirspili þá hugsa ég ósjálfrátt til náttúrunnar heima og þagnarinnar sem henni fylgir. Ég held að þessi færsla um Ísland hafi kynt undir þessum söknuði.

vikulok2 2

Kannist þið við matarvefsíðuna The Kitchn? Ég skoða þessa síðu mjög reglulega. Hún er með uppskriftir, innlit í eldhús, fróðleik um hráefni og meðhöndlun á því, og svo mætti lengi telja. Hún er líka uppfærð oft þannig að það er alltaf eitthvað nýtt að skoða.

Sóley heldur tónleika á bar rétt hjá okkur í lok mánaðarins. Ég er orðin friðlaus mig langar svo að fara með Elmari en þar sem vöntun er á pössun þá köstum við líklega krónu upp á hvort okkar fái að fara.

Kuldakastið heldur áfram hjá okkur. Það snjóar reglulega og frostið bítur í kinnar. Ég reyni eftir fremsta megni að hugsa ekki of mikið til vorsins en þó gafst ég upp um daginn og keypti vönd af fjólubláum túlípönum til að gera biðina aðeins bærilegri.

Vonandi höfðuð þið það gott í vikunni!

3 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Knús! Ísland saknar þín líka ægilega mikið, mig langar svo að knúsa hana Þórdísi Yrju vinkonu mína <3

    13/02/2013
  2. Svo gaman að lesa skrifin þín. Meira að segja þó þau fjalli ekki um mat.. og myndirnar svo fallegar eins og ávallt :)

    17/02/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: