Skip to content

Posts from the ‘Vikulok’ Category

Vikulok

Embla Ýr, systir mín, á gamla Pentax myndavél sem tekur svo skemmtilegar myndir. Hún var dugleg að taka myndir á hana þegar hún var í heimsókn hjá mér og ég hef sérstaklega gaman af þeim sem hún tók í hverfinu okkar. Mér líður eins og mitt hversdagslega umhverfi fái ævintýralegan blæ. Embla gaf mér leyfi til að birta nokkrar myndir í þessari færslu.

Mér er meinilla við að henda mat en á oft erfitt með að vera nógu skipulögð til að koma í veg fyrir það. Ísskápurinn okkar er risastór (og hávær eftir því) og á einhvern undarverðan hátt á hann það til að fyllast og ég hætti að finna hluti. Ég ætla að taka þessa ágætu konu mér til fyrirmyndar og fara að nýta frystinn meira.

Ég dáist svo að fólki sem skrifar fallega texta. Rachel á Rachel eats og Molly á Orangette eru einstaklega góðir pennar. Þær blogga bara endrum og eins en mér líður eins og það séu jólin í hvert skipti sem ég fæ skeyti um nýja færslu.

Hér er fallegt myndband um gerð kleinuhringja.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Vikulok

Það kólnaði hjá okkur og ég greip tækifærið og bakaði klassíska skúffuköku (í fyrsta skiptið á ævinni). Uppskriftina fékk ég hjá Ljúfmetis-Svövu og hún heppnaðist mjög vel. Kakan var borðuð með góðri vinkonu okkar á meðan við syrgðum umhverfisráðuneytið og veltum fyrir okkur hver staða umhverfisverndar á Íslandi verður eftir fjögur ár. Svona í bland við önnur gleðilegri og minna alvarleg umræðuefni.

Árni vinur minn vann hörðum höndum ásamt góðu fólki að sjónvarpsþætti sem nú hefur hafið göngu sína á Stöð 2. Hið blómlega bú er sýnt á miðvikudagskvöldum og ég hlakka til að sjá upptökur af þáttunum þegar ég kem heim í sumar.

vikulok9

Mig langar á þennan markað og kaupa ósköpin öll af blómum og gömlum eldhúsvarningi.

Ég er búin að hlusta á þessa upptöku af Lay Low stanslaust. Lagið kemur mér í skemmtilegan sumarfíling.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Vikulok

Mikið líður tíminn hratt! Maímánuður löngu byrjaður, skólaönninni fer að ljúka (GAH!) og allt í einu er allt orðið fagurgrænt í borginni. Ég keypti mér basilplöntu á markaðinum í gær og ætla að halda henni lifandi. Plöntur hafa aldrei lifað lengi heima hjá mér.

Einn uppáhaldsljósmyndarinn minn fór í ferðalag til Íslands fyrir skömmu og nú er hún farin að setja myndirnar inn á vefsíðu sína. Ég er yfir mig hrifin.

Systir mín pantaði sér bók af Amazon sem kom til mín í síðustu viku. Ég hef ekki hætt að skoða hana og hreinlega verð að eignast hana sjálf. Bouchon Bakery er mögulega fullkomnasta bakstursbók sem ég hef augum litið.

Það er sérstaklega gaman að uppgötva ný og skemmtileg íslensk matarblogg. Ég rakst nýlega á bloggið Matarkarl og hef skemmt mér mikið við að lesa það.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Vikulok

Ég ætla að reyna að endurvekja sunnudagsfærslurnar mínar. Ég er komin í þrjóskukast og ætla ekki að leyfa þessum músagangi að trufla rútínu okkar lengur.

Við fórum að skoða kirsuberjatrén í listigarðinum (Brooklyn Botanic Garden) í gær. Þessi garður er stór og einstaklega fallegur. Ég mæli með að fólk geri sér ferð í hann sé það í New York (psst, það er ókeypis inn í hann á milli 10 og 12 á laugardagsmorgnum).

Kannist þið við Sriracha sósuna? Ég veit reyndar ekki hvort hún er seld heima á Íslandi en við eigum alltaf flösku af henni inni í ísskáp. Elmar er forfallinn aðdáandi hennar og getur sett hana út á flestan mat í stórum skömmtum. Ég vissi ekkert um merka sögu framleiðandans, Huy Fong Foods, áður en ég rakst á þessa grein í Los Angeles Times.

Þessi stelpa er farin að skríða og það má ekki líta af henni lengur. Hún er ansi ánægð með sjálfa sig.

Ég hafði gaman af því að lesa þessa færslu á A Sweet Spoonful. Ég finn einmitt fyrir því sjálf að þegar lífið sparkar í rassinn á mér eða þegar ég borða mikið einsömul að ég gæti ekki nógu vel að því að borða góðan næringarríkan mat. Það var ansi oft popp og súkkulaði með rauðvínsglasi í kvöldmatinn hjá mér þegar ég bjó ein.

Af hverju á ég ekki vöfflujárn? Mér er fyrirmunað að skilja það. Ég elska vöfflur en hef aldrei látið verða af því að kaupa járn og þar sem að styttist í brottför get ég engan veginn réttlætt slík útgjöld. Ætli það verði ekki fyrstu kaupin hjá mér þegar ég kem heim. Mig langar nefnilega svo mikið í þessar vöfflur.

Ég vona að þið áttuð góða viku. Ef ekki þá má alltaf blanda sér smá tekíla, hlusta á bossanova og gleyma sér um stund.

Vikulok

Við erum komin í íbúðina sem við tókum á leigu fyrir tengdaforeldra mína en þau koma til okkar á morgun. Við erum vægast sagt yfir okkur hrifin, útsýnið er stórfenglegt (eins og sjá má á myndinni hér að ofan) og í gærkvöldi sá ég sólsetur í fyrsta skipti í marga mánuði. Þórdís Yrja er mjög ánægð með þetta og furðar sig á allri birtunni og fuglunum fyrir utan gluggann.

Ég er iðin við að prófa ný kaffihús til að læra á þessa dagana. Ég er alveg kolfallin fyrir staðnum Glass Shop og kann vel að meta rólegheitin, tónlistina og hverfisstemmninguna þar inni. Það skemmir líka ekki hversu skemmtileg hönnunin er þar inni.

Ég hef eytt (alltof) löngum tíma í að fara í gegnum uppskriftasíðuna mína. Ég hef stokkað síðuna svolítið upp og reynt að gera hana skipulegri og þar með auðveldari í notkun.

Mig langar í þessar vöfflur hjá Svövu. Mig sárvantar vöfflujárn en ég er komin í sjálfskipað raftækjabann.

Ég er með þetta bananabrauð sem ég sá hjá Kristínu Gróu á heilanum.

Ég hafði sérstaklega gaman af þessari færslu á Sprouted Kitchen um gleðina sem hlýst af því að gefa fólki gott að borða. Myndirnar eru líka mjög fallegar.

Tónlistarmaðurinn Jason Molina lést í vikunni en ég hef hlustað mikið á hann eftir að Elmar kynnti mig fyrir honum stuttu eftir að við byrjuðum saman. Þetta lag er einhvers konar fullkomnun og þetta lag er í eilífu uppáhaldi hjá mér.

Vonandi áttuð þið góða viku!

Vikulok

Vikulokin eru stutt hjá mér þessa vikuna. Einhvern veginn hefur mér fundist tíminn fljúga frá mér án þess að ég viti hvað ég er að gera við hann. Það snjóaði í gær og ég hesthúsaði í mig heilu súkkulaðistykki á meðan ég horfði hrygg á litlar flygsur falla til jarðar. Erum við ekki öll sammála um að vorið megi fara að koma?

Hér eru nokkrir hlutir sem ég rakst á í vikunni og hef ekki hætt að hugsa um.

Þessi morgunmatur hjá Cressidu á The Standard of Taste. Truffluolía, reyktur lax og kartöflur, já takk!

Kaffismiðja Íslands er uppáhaldskaffihúsið mitt á Íslandi. Mér fannst þessi ljósmyndafærsla því afskaplega skemmtileg.

Mig langar í þennan kokkteil.

Vonandi áttuð þið góða viku!

%d bloggurum líkar þetta: