Skip to content

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

Við erum að fá svo marga skemmtilega gesti á næstu mánuðum að ég hef varla undan að bóka íbúðir á Airbnb fyrir mannskapinn. Það eru því mjög skemmtilegir tímar framundan. Ég reyni því að nýta þann nauma tíma sem ég hef frá Þórdísi í að vinna að doktorsverkefninu. Verkefni sem er orðið að svo ógurlegu skrímsli að ég þori stundum ekki að opna glósurnar mínar.

Ég er almennt mjög hrifin af svona skonsum – þær eru fljótlegar, einfaldar og það er auðvelt að frysta þær hráar til að eiga bakkelsi til að stinga beint inn í ofn þegar löngunin kallar. Svo á ég líka yfirleitt allt nauðsynlegt hráefni í þær og eitthvað auka til að hræra saman við. Við vorum mjög hrifin af þessum skonsum, þær voru fullkomnar nýbakaðar með eftirmiðdagskaffibollanum.

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 3 bollar [375 g] hveiti
  • 2 msk sykur
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 3/4 tsk salt
  • 170 g smjör, ósaltað, kalt og skorið í teninga
  • 1 stórt egg
  • 3/4 bolli + 2 msk [2 dl] buttermilk eða súrmjólk
  • 1/3 bolli [0.8 dl] kókosflögur
  • 1/3 bolli [0.8 dl] sneiddar möndlur
  • 1/2 bolli [1.2 dl] súkkulaðibitar
  • súrmjólk og sykur til að bursta ofan á skonsurnar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F. Stillið grindina fyrir miðju ofnsins.

Dreifið úr kókosflögunum og sneiddu möndlunum á ofnplötu og bakið inni í ofni í ca. 8 – 10 mínútur. Fylgist samt vel með, kókosinn er fljótur að brenna þegar hann fer að gyllast. Setjið til hliðar og leyfið að kólna.

Hitið ofninn því næst í 200°C/400°F. Leggið bökunarpappír á ofnplötu.

Hrærið saman hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti í stórri skál. Setjið smjörið út í skálina og notið hreina fingur til að nudda smjörinu saman við hveitiblönduna þar til deigið fer að líta út eins og gróft mjöl. Setjið inn í ísskáp í nokkrar mínútur.

Hrærið egginu saman við súrmjólkina.

Takið deigið út úr ískápnum, blandið möndlum, kókos og súkkulaðibitum saman við. Myndið holu í miðju deigsins og hellið súrmjólkurblöndunni ofan í. Notið gaffal til að blanda blautefnunum saman við þurrefnin. Deigið á ekkert að vera slétt og fínt.

Hvolfið deiginu á hveitstráðan flöt. Þjappið deiginu saman og klappið það síðan niður þar til það verður tæplega 4 sm á þykktina. Notið hringlaga deigskera (eða glas) sem er 6 sm í þvermál til að skera úr deiginu. Ef deigið klístrast við mótið þá er gott að dýfa því ofan í smá hveiti. Safnið saman afganginum af deiginu, þéttið því saman og skerið aftur út.

[Skonsurnar geymast vel í frysti og því finnst mér gott að baka bara það magn sem ég held að við munum borða þann daginn. Restina set ég á disk inn í frysti og þegar þær eru alveg frosnar þá set ég þær í stóran ziplock poka. Svo skelli ég þeim beint úr frysti í ofn og baka bara aðeins lengur en venjulega.]

Raðið skonsunum á ofnplötuna með 2 sm millibili. Penslið með súrmjólk og sáldrið smá sykri yfir. Bakið inni í miðjum ofni í 14 – 18 mínútur, eða þar til þær fara að gyllast og hafa bakast í gegn.

Berið fram volgar með hunangi, smjöri eða sultu.

Gerir ca. 8 – 10 skonsur

Prenta uppskrift

One Comment Post a comment
  1. VÁ hvað mér líst vel á þessar!

    13/02/2013

Skildu eftir athugasemd