Sítrus-smjörkex með timíani
Ég er óttalegur klaufi. Ég er alltaf að segja það hérna en stundum er ég ekki alveg viss um að fólk skilji hversu mikill klaufi ég er. Málið er að ég læt mig oft vaða án þess að hugsa beint um hversu fáránlega vanhugsaðar athafnir mínar eru. Ég sting putta ofan í sjóðandi heita karamellu bara af því að ég get ekki beðið eftir að smakka hana. Ég gleymi að nota ofnhanska þegar ég teygi mig eftir nýbökuðum ofnrétti. Reyndar er klaufaskapur minn ekki bundinn við eldhúsið. Um daginn missti ég fartölvuna mína á andlitið á mér og náði að rispa gleraugun mín svo illa að ég verð víst að þola að vera eineygð þar til ég finn ný á námsmannaverði. Mér er eiginlega ekki viðbjargandi.
Matreiðslubók Joy the Baker kom út í vikunni og ég hef sjaldan verið eins spennt að fá nýja bók í hendurnar. Ég er ekkert lítið skotin í stúlkunni og blogginu hennar en hún á heiðurinn af kanillengjunni, ferskjubökunni og klassískum amerískum pönnukökum sem ég hef skrifað um hér. Bókin olli mér ekki vonbrigðum og ég er mjög spennt að elda og baka upp úr henni á næstu vikum.
Ég ákvað að tækla smjörkexið hennar fyrst. Ég er forfallinn sítrusávaxtarfíkill og ég elska smjör þannig að kannski kemur ákvörðun mín ekki beint á óvart. En uppskriftin er tiltölulega einföld og ég átti öll hráefnin til. Ég lendi samt alltaf í sömu vandræðum þegar það kemur að því að fletja út smjörkexdeigið – það vill helst liðast í sundur og því er svolítið erfitt fyrir mig að fletja það jafnt út. Ef þetta vandamál er eitthvað sem þið kannist við þá myndi ég jafnvel rúlla deiginu í pylsu og skera deigið svo niður í þunnar sneiðar eftir kælingu. En smjörkexið er alveg frábært! Timíanið gerir það svolítið sérstakt og sítrusbragðið á mjög vel við. Þetta er mjög gott með svörtu tei.
Sítrus-smjörkex með timíani
(Uppskrift frá Joy Wilson: Joy the Baker Cookbook)
- 3 bollar [375 g] hveiti
- 1/4 tsk lyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2 tsk sítrónubörkur, rifinn
- 1 tsk límónubörkur, rifinn
- 1 bolli sykur
- 250 g ósaltað smjör, við stofuhita
- 2 tsk timíanlauf, söxuð
- 2 stór egg
- 1 msk mjólk
Aðferð:
Blandið saman hveitinu, lyftiduftinu og saltinu í meðalstórri skál. Setjið til hliðar.
Hellið sykrinum á hreint bretti eða borðflöt og notið skeið eða hníf til að nudda sítrusberkinum inn í sykurinn. Sykurinn verður eilítið gulleitur og mun lykta af sítrus.
Þeytið saman sykrinum og smjörinu í hærirvél á meðal hraða. Þeytið þar til blandan verður ljóslit og loftmikil. Blandið timíaninu saman við. Brjótið annað eggið út í skálina, hellið mjólkinni út í og þeytið í ca. 1 mínútu.
Bætið hveitiblöndunni út í skálina og hrærið öllu saman á hægum hraða þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Fjarlægið skálina frá hrærivélinni og klárið að blanda öllu saman með sleikju.
Leggið deigið á stóran bút af vaxpappír (eða plastfilmu) og mótið deigið í bjálkalaga form. Rúllið þvínæst deiginu inn í pappírinn, lokið endunum með því að rúlla þeim upp eða leggja þétt upp að deiginu og geymið í ísskáp í 3 klukkutíma eða yfir nótt. Deigið geymist í ísskáp í 4 daga og í frysti í allt að mánuð.
Leyfið deiginu að mýkjast í ca. 20 mínútur áður en byrjað er að fletja út.
Hitið ofninn í 325 F/ 160 C. Stillið ofnrekkana í miðju og efri hluta ofnsins. Takið fram tvær ofnplötur, leggið bökunarpappír ofan á þær og setjið til hliðar.
Skiptið deiginu í tvennt. Fletjið það síðan varlega út á hveitistráðum flöt þar til það verður ca 1/2 cm þykkt. Notið smákökuskera eða hníf og flytjið síðan kökurnar á ofnplöturnar. Þrýstið afganginum af deiginu saman aftur fletjið út og skerið til. Hendið síðan restinni af deiginu.
Hrærið seinna egginu saman við 1 msk af vatni. Burstið kökurnar með eggjablöndunni og stráið smá sykri yfir. Bakið í 8 til 10 mínútur [ég þurfti 12 mínútur] eða þar til smákökurnar fara að gyllast örlítið á endunum.
Leyfið kökunum að kólna á ofnplötunum í 5 mínútur áður en þær eru fluttar yfir á grind. Leyfið að kólna alveg.
Smákökurnar geymast í ca. 4 daga við stofuhita í loftþéttum umbúðum.
Við verðum að prófa uppskriftir saman úr þessari bók þegar ég er hjá þér!