Skip to content

Formkökur með telaufum og sítrónukremi

Ég er lasin. Enn og aftur. Ég vil kenna þessu rigningarveðri og hitaflökti um ástand heilsu minnar en einhvern veginn held ég að óhófleg víndrykkja, léttur klæðnaður og lýsisleysi sé líklegri útskýring. Þannig að ég er búin að vera inni við síðustu daga, drekkandi heitt te í lítratali, dreifandi snýtubréfi um alla íbúð eins og mér sé borgað fyrir það og farin að skipuleggja máltíðir út frá því sem eftir situr í ísskápnum. En í gær var aðgerðaleysið að gera út af við mig. Ég ákvað því að baka. Ég þrívafði hlýjasta treflinum um hálsinn á mér, dró á mig regnstígvélin og hóstaði alla leiðina upp í búð.

Það greip mig nefnilega löngun að prófa formkökur kryddaðar með Earl Grey telaufum og smyrja telaufs-sítrónusmjörkremi yfir þær. Og þær eru góðar. Mjög góðar. Kakan er létt í sér, mjúk og tekeimurinn læðist aftan að manni eftir að munnbitinn hefur runnið niður. Kremið er sætt (ég hef minnkað sykurmagnið í uppskriftinni) en sítrónan vegur upp á móti með sýrunni. Smakkið samt kremið til meðan þið bætið sykrinum saman við og finnið það sætumagn sem hentar ykkur best. Það er alltaf hægt að þykkja kremið með smá hveiti ef þess þarf.

Kökurnar eru svo sérstaklega góðar með heitu tei og útsýni á úrhellisrigningu fyrir utan gluggann.

Annars verð ég komin aftur ,heim’ eftir nokkra daga. Og þrátt fyrir veðurspá, eldgos, öskuský, kuldaköst og niðurdrepandi fréttir úr sveitum Íslands þá verð ég að trúa því að breytist allt og að Reykjavík muni taka á móti mér með þeirri sumarfegurð sem einkennir hana í mínum huga. Þessi von mín jókst um helming þegar ég rakst á nokkrar línur eftir  Tómas Guðmundsson í dag.

Gríptu dagsins dýra bikar.

Drekktu örugg lífsins vín.

Nóttin bíður björt og fögur.

Borgin ljómar. Sólin skín.

Formkökur með telaufum og sítrónukremi

(Frá Hönnu Queen: honey & jam)

Kökurnar:

 • 115 g smjör, við stofuhita
 • 220 g sykur
 • 2 egg
 • 190 g hveiti
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 125 ml mjólk
 • 1 1/2 poki af Earl Grey, bara telaufin

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C [350°F]. Takið fram möffinsform og fyllið bakkann með pappírsformum.

Þeytið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Bætið sykrinum saman við og þeytið þar til blandan verður mjúk og smjörið og sykurinn hafa blandast vel saman. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og þeytið vel eftir hvert egg.

Takið fram meðalstóra skál. Blandið hveitinu, lyftiduftinu, saltinu og telaufunum saman. Bætið síðan helmingnum af hveitiblöndunni saman við smjörblönduna. Ekki nota þeytara á þessu stigi, best er að blanda þessu vel saman með sleif til að missa ekki allt loft úr deiginu (annars verða kökurnar alltof þéttar í sér).  Hellið síðan mjólkinni saman við og síðan restinni af hveitiblöndunni og hrærið þar til allt hefur blandast saman.

Fyllið 2/3 af pappírsformunum með deigi, stingið inn í forhitaðan ofninn og bakið í 15 – 20 mínútur, eða þar til kökurnar hafa bakast í gegn. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt ofan á.

Kremið:

 • 115 g smjör, við stofuhita
 • 115 g flórsykur, sigtaður
 • Rifinn börkur af 1 sítrónu
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 – 2 tsk telauf [ég notaði það sem eftir var af seinni pokanum af teinu]

Aðferð:

Þeytið smjörið þar til það verður kremkennt. Bætið flórsyknum saman við í skömmtum og þeytið vel saman eftir hvert skipti. Bætið síðan sítrónuberki, sítrónusfa og telaufum saman við og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman og kremið er orðið kekkjalaust. Smyrjið á formkökurnar.

Gerir 12 – 15 formkökur

3 athugasemdir Post a comment
 1. Embla #

  Þú ert orðin svo hugguleg með öllum þessum bakstri. Hvenær kemurðu heim og við getum farið að gera tilraunir saman? Ég er líka með plan að vera ekki veik svo ég mæli með að þú gerir sama planið, við getum ekki haft aðra okkar rúmfasta í hvert skipti sem við ætlum að gera tilraunir saman í eldhúsinu.

  24/05/2011
  • Nei það gengur svo aldeilis ekki! Við göldrum fram einhverja epík ;)

   24/05/2011
 2. Guðný Ebba #

  Ég elska elska ELSKA hvað þú ert sjúk í sítrónur!

  25/05/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: