Skip to content

Posts from the ‘Konfekt’ Category

Pekanbitar með karamellu

Við héldum upp á Þakkargjörðarhátíðina um helgina heima hjá foreldrum mínum. Í rauninni þjófstörtuðum við hátíðinni þar sem hún er haldin síðasta fimmtudaginn í nóvember í Bandaríkjunum og enn er rúmur mánuður í það. En þar sem við fjölskyldan verðum farin aftur vestur um haf eftir örfáar vikur og vorum fjarri góðu gamni í fyrra þá var ákveðið að taka forskot á sæluna. Pabbi matreiddi kalkún, fyllingu og sósu, ég sá um þessa pekanbita og salat, og Embla bjó til bökuð epli í eftirmat (sjá uppskrift hér). Kvöldmaturinn var því með besta móti og sú litla gerði foreldrum sínum þann greiða að sofa í gegnum borðhaldið.

Ég ætla því að nýta tækifærið og setja inn uppskriftir að matnum á næstu dögum ef svo skyldi vera að einhverjir freistast til að halda uppá Þakkargjörðarhátíðina og vantar hugmyndir að matseðli kvöldsins. Ég byrja í raun í vitlausri röð þar sem þessir pekanbitar voru í eftirrétt með kaffinu. Þetta eiga í raun að vera kökubitar en þar sem þeir eru dísætir (og afar hitaeiningaríkir) þá ákvað ég að skera kökuna í litla munnbita og bjóða upp á sem konfekt. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég  hef minnkað hana og breytt aðeins eftir mínum smekkk. Bitarnir eru einstaklega góðir – botninn er smjörmikill og eilítið mjúkur, söxuðum pekanhnetum er velt upp úr hunangskaramellu og dreift yfir – og útkoman er syndsamleg.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #6: Einfalt súkkulaðikonfekt

Aðeins rétt rúmar tvær vikur til jóla og ég er farin að eiga aðeins of mikið af konfekti í ísskápnum. Í þetta sinn bjó ég til einhvers konar tegund af konfektkaramellu, hérna úti kalla þeir þetta ,fudge’, sem er smekkfull af súkkulaði. Passið að nota 70% súkkulaði frekar en suðu- eða mjólkursúkkulaði því annars eigið þið á hættu að konfektið verður alltof sætt. Það má líka leika sér með uppskriftina – ég hefði viljað bæta við grófsöxuðum hnetum, það má líka sleppa cayennekryddinu og auka við kanilbragðið eða bara nota önnur krydd.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #4: Kókoskaramellur

Ég á erfitt með að trúa hversu hratt tíminn líður og að dagatalið sé farið að sýna desember. Kannski er sérstaklega erfitt að trúa því þegar veðrið hérna er óvenju milt, trén hafa ennþá einhver lauf, sólin skín og hitinn rýkur stundum upp í 20 gráður. Fólk er samt farið að skreyta í hverfinu okkar, jólatré eru seld úti á götu og kaupmennirnir eru byrjaðir að taka upp jólavörurnar. Þetta verða önnur jólin okkar saman í New York og við hlökkum til að taka því rólega og ættleiða vini sem komast ekki til Íslands um jólin. Ég er löngu byrjuð að skipuleggja matseðilinn og mun auðvitað deila uppskriftum með ykkur þegar að því kemur.

Ég bjó til karamellur (aftur) fyrir jólagjafafærslu vikunnar. Þessar karamellur eru mun auðveldari heldur en hinar og það þarf ekki mjög mikla nákvæmni eða sykurhitamæli til að uppskriftin heppnist. Þetta góðgæti er brasilískt að uppruna og er kallað þar brigadeiros. Uppistaðan er aðallega mjólk og smá síróp. Ég gat ekki fylgt uppskriftinni nákvæmlega eftir þar sem niðursoðna mjólkin í Bandaríkjunum er mun þynnri en sú brasilíska og því var eldunartíminn minn aðeins lengri (ég geri athugasemd við þetta í uppskriftinni). Útkoman er afar mjúk mjólkurkaramella með kókoskeim –  ef þið viljið hafa mikið kókosbragð þá er gott að skella smá kókosmjöli með í pottinn þegar karamellan er elduð.  Konfektið geymist best í kæli og það á að bera það fram við stofuhita (en mér finnst reyndar best að borða það beint úr kælinum).

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #1: Saltaðar karamellur í súkkulaðihjúpi

Jæja ágæta fólk, þá er komið að fyrstu færslunni í jólagjafaflokkinum mínum. Eitt það fyrsta sem ég vissi að ég vildi búa til þegar ég ákvað þessa færsluröð voru saltaðar karamellur frá David Lebovitz. Ég var því mjög eftirvæntingafull þegar ég tók fram allt hráefnið og raðaði því snyrtilega á eldhúsbekkinn. Nokkrum klukkutímum seinna var ég komin í heimsins mesta þrjóskukast, eldhúsið var á hvolfi, einn af pottunum okkar var húðaður brenndri karamellu og ég hafði misst allt traust á hitamælinum mínum. Bældar streituvaldandi minningar úr efnafræðitímum þeyttust að mér og mæðulegt andlit Mr. Oakes, þegar hann sá að ég hafði klúðrað tilraun dagsins enn einu sinni, var mér ofarlega í huga. Í þriðju tilraun var ég samt komin með bakka af fallegri karamellu sem fékk að kólna í gluggakistunni á meðan ég bjó til kvöldmatinn. Ekki fælast frá þessari uppskrift! Ég ætla að segja ykkur allt sem ég gerði vitlaust og hvernig þið getið forðast það til að fá fallegar og fullkomnar karamellur í fyrstu tilraun. Því þessar karamellur eru svo unaðslega góðar og ég hugsa að fólk verði yfir sig hrifið að fá slíkt góðgæti í jólagjöf.

Það fyrsta sem þið verðið að gera (ef þið eigið ekki slíkt tól ofan í skúffu fyrir) er að fjárfesta í hitamæli. Það eru til ódýrir hitamælar sem eru sérstaklega gerðir fyrir djúpsteikingu og sælgætisgerð og þar sem útkoma karamellunnar veltur algjörlega á því hitastigi sem henni er leyft að ná þá er þetta bráðnauðsynlegt tæki. Lebovitz mælir ekki með hitamælum sem eru með snúru og stálstykki á endanum því þeir þola síður hátt hitastig sírópsins. Áður en þið notið hitamælinn er best að prófa hversu nákvæmur hann er. Hitið vatn í potti, festið hitamælinn við pottinn (ekki leyfa honum að snerta botninn) og náið upp suðu. Mælirinn á að sýna 100C en ef hann er aðeins yfir eða aðeins undir er gott að skrifa það hjá sér og miða við það þegar karamellan er gerð.

Best er að nota pott sem er með þykkum botni (ég endaði á því að nota ódýran IKEA pott með þunnum botni og það var mér ekki til mikilla trafala) og er ca. 4 lítrar að stærð. Ef potturinn er of stór þá eru meiri líkur eru á að karamellan brenni við. Ef potturinn er of lítill þá getur blandan flætt yfir barma pottsins þegar rjómanum er bætt við sjóðandi heitt sírópið. Til að fá sem nákvæmasta hitastig þá er gott að halla pottinum til að leyfa hitamælinum að vera djúpt ofan í karamellunni. (Ég gerði þetta ekki til að byrja með og endaði með brennda karamellu sem bragðaðist svo illa að andlitið á mér festist næstum því endanlega í ljótri grettu.) Einnig þarf að passa að hitamælirinn snerti ekki botninn á pottinum en þá mun mælirinn sýna hærra hitastig en blandan hefur náð.

Hjá sumum virðist karamellan aldrei ná réttu hitastigi eftir að rjómanum er bætt saman við. Þá má bregða á eldra eldhúsráð sem ég veit að amma mín nýtti sér. Takið fram glas (eða litla skál) af köldu vatni (ekki ísköldu vatni en samt því kaldasta sem þið fáið úr krananum), dýfið skeið ofan í karamelluna og hellið úr henni ofan í glasið. Takið karamelluna upp úr með fingrunum og sjáið hvort að karamellan myndi lítinn bolta sem gefur vel undan þrýstingi (án þess þó að gliðna alveg í sundur). Hérna er myndband sem sýnir ykkur hvernig þetta er gert. Ég myndi bæði styðjast við þetta próf sem og hitamælinn til að vera alveg viss um að réttu stigi sé náð. Því það virtist vera alveg sama hversu lengi ég sauð karamelluna, hún virtist bara ekki hitna yfir visst hitastig, ég missti algjörlega trúna á hitamælinum og studdist við vatnsaðferðina undir rest. Það getur tekið dágóðan tíma að ná karamellunni á rétt stig. Ef karamellan er of langt undir réttum hita þá mun hún vera mjög mjúk (svo mjúk að hún heldur ekki formi) og ef hún fer yfir rétt hitastig þá verður hún of hörð (og við viljum ekki láta fólk brjóta í sér tennurnar a jólunum).

Áður en þið byrjið er best að taka fram allt sem þarf að nota, vigta hráefnið og vera með öll tól sem mögulega gætu reynst nauðsynleg við hendina. Passið að vera í eldhúsinu allan tímann og haldið einbeitingu ykkar við karamelluna. Þar sem allt þarf að vera mjög nákvæmt er auðvelt að brenna sírópið við (sérstaklega þegar nýr tölvupóstur er meira spennandi en það sem er í gangi í pottinum, ég get vottað það). Passið að öll áhöld sem þið notið þoli mjög háan hita. Venjuleg plasttól munu bráðna í heitri karamellunni og því er best að nota tréáhöld eða sílíkonskeiðar sem eiga að þola háan hita. Og munið að karamellan er heit og þið getið brennt ykkur illa á henni. Ég náði að brenna mig svona fjórum sinnum og var einu sinni næstum því búin að stinga henni inn fyrir varirnar. En ég er líka óttalegur sauður.

Ef þið hafið þessi atriði í huga er ég nokkuð viss um að þið þurfið ekki þrjár tilraunir eins og ég virtist þurfa. Þið munuð líklega ekki hvæsa í gegnum samanbitnar tennur og þurfið örugglega ekki að fara út í búð með þrumuský yfir hausnum til að kaupa meira síróp. En eins og ég benti á að ofan, ég var alltaf langverst í efnafræðitímum í skóla og átti erfitt með það þolinmæðisverk sem er að fylgjast með hitamæli og vökva á sama tíma. Þannig að ekki láta vandræði mín aftra ykkur, þau í rauninni gáfu mér tækifæri til að prófa allt það sem gat farið úrskeiðis til þess að geta miðlað jafnvel betri leiðbeiningum til ykkar. Við Elmar sitjum núna uppi með 60 ljúffengar súkkulaðihúðaðar karamellur sem við getum ekki hætt að borða og þurfum að fara að deila gleðinni sem fyrst.

SJÁ UPPSKRIFT

Heslihnetutrufflur

Ég hef aldrei búið til konfekt áður. Sem er hálf hneykslanlegt því ég elska konfekt, súkkulaði og flest allt sem viðkemur sykri og sætindum. Það kom mér mjög á óvart hversu auðvelt það er að búa til konfekt sjálf (a.m.k. þessar trufflur) og hvað möguleikarnir eru óendanlegir þegar það kemur að því að blanda bragðið út í súkkulaðiblönduna. Ég fann uppskrift að heslihnetutrufflum á Smitten Kitchen sem mér fannst spennandi og ákvað að gera mér glaðan dag og keypti Siríus súkkulaði í Whole Foods og allt of stóra flösku af Frangelico í vínbúðinni. Þetta er kannski svolítið tímafrekt ferli þar sem súkkulaðið er endalaust að fara í og úr ísskápnum en annars er þetta pís of keik. Ég lenti í smá vandræðum með að súkkulaðið var eitthvað lengur að kólna hjá mér í ísskápnum en hjá Deb á SK en trufflurnar klúðrast nú ekki við það að þurfa að fara aftur inn í ísskápinn. Eldhúsið mitt er reyndar allt út í súkkulaði sem og andlit mitt og hendur, gólf, föt og skápar en það er algjörlega þess virði.

Þetta er meira að segja svo gómsætt og flott í alla staði að ef þið eigið lítinn pening og langar til að gefa góða gjöf þá er þetta tilvalið. Setjið trufflurnar bara í fallega krukku, bindið borða utan um og gefið sælkerunum í lífi ykkar.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: