Skip to content

Posts from the ‘Asískt’ Category

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

Sólin heldur áfram að skína og blómin spretta upp úr beðunum á methraða og trén eru farin að hylja nekt sína með fíngerðum hvítum blómum. Vorið er sérstaklega falleg árstíð í stórborginni . Það er þó ennþá a.m.k. mánuður í að bændamarkaðurinn fari að selja eitthvað annað en rótargrænmeti og epli en ég bíð spennt eftir berjunum, aspasnum og rabarbaranum (þó ég eigi enn eftir að venjast því að þurfa að borga fyrir rabarbarann).

Ég hef aldrei eldað tófú sjálf. Mér finnst sjálfri tófú ágætlega gott (sé það rétt matreitt) en einhvern veginn hefur mér aldrei dottið í hug áður að teygja mig eftir pakkningunni í búðinni og skella því í rétt. En það mun sko breytast eftir þessa frumraun mína. Ég fann þessa uppskrift á eldhúsblogginu The Kitchn og varð strax hrifin. Þeir mæla með því að þrýsta vökvanum úr tófúinu, velta því síðan upp úr sojasósu og baka í ofni í ca. hálftíma. Við þetta verður tófúið svolítið stökkt að utan en mjúkt og eilítið seigt að innan og er frábær (og mjög holl) viðbót við asíska rétti. Rétturinn var mjög góður og seðjandi með skemmtilegri asískri bragðblöndu af hvítlauki, engiferi, sítrónugrasi og chilí. Það má auðvitað gera þetta að kjötrétti með því að snöggsteikja sojamaríneraða kjötbita á pönnu.

SJÁ UPPSKRIFT

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum


Það er fellibylur á leið upp austurströndina og stefnir á New York.  Strætóar hætta að ganga og borgarstjórinn hefur ákveðið að stöðva allar lestarsamgöngur í borginni frá og með hádegi í dag. 370 þúsund manns hafa þurft að rýma heimili sín þar sem flóðahætta er talin skapast af ofsaviðrinu. Við fórum í búðina í gærkvöldi til að kaupa mat fyrir næstu daga (enda ekki víst að búðir geti verið opnar þegar samgönguleiðir lokast) og hittum þar fyrir nánast alla í stóra hverfinu okkar. Raðirnar voru lygilega langar og brauð- og kartöflusnakkshillur voru galtómar. Við erum mjög róleg yfir þessu öllu saman og ætlum bara að hafa það notalegt á milli þess sem við pökkum niður íbúðinni. Ég hef reyndar smá áhyggjur af gluggunum sem eru svo illa einangraðir að í miklu úrhelli þá rignir inn um þá. Annars verður bara fróðlegt fyrir veðurnörd eins og mig að fylgjast með veðuráhrifum fellibylsins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem varað er við miklum veðurofsa síðan við fluttum og ég á enn eftir að upplifa slíkt.
En nóg af veðri. Mig langar til að deila með ykkur einfaldri, ódýrri og ljúffengri núðluuppskrift. Við erum þegar búin að borða þennan rétt þrisvar sinnum á nokkrum dögum og ég býst við að hann verði reglulega á boðstólum í vetur. Hægt er að eiga krukku af pækluðum gúrkum og sósu inni í ísskáp og þá þarf bara að sjóða núðlur og steikja smá grænmeti með. Maturinn er þannig til á innan við 10 mínútum og er seðjandi á meðan gúrkurnar gefa honum ferskt mótvægi.
Uppskriftin segir að maður eigi að nota vínkjarnaolíu bæði í sósuna og í steikinguna á grænmetinu. Ég átti ekki slíkt við höndina og notaði ólívuolíu í sósuna og canolaolíu í steikinguna í staðinn. Ég ætla mér samt að fjárfesta í vínkjarnaolíu bráðlega þar sem ég býst við að búa til þennan rétt reglulega. Það er hægt að skipta út blómkálinu fyrir annað grænmeti (eða kjöt) sem til er í ísskápnum. Ég notaði sobanúðlur en það er auðvitað hægt að nota ódýru pakkanúðlurnar líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Ískaffi

Það er brjálað veður úti. Þrumur svo háværar að ég held að þær séu beint fyrir ofan hausinn á mér og rigningin er svo mikil að ég sé ekki út um gluggana okkar. Það er notalegt að vera inni og heyra í veðrinu úti fyrir á meðan ég úða í mig misheppnuðum bláberjasorbet og hlusta á útvarpsþátt um vín. Kósy dagur hjá mér á Manhattan.

En það er ekki veðrið sem mig langaði til að segja ykkur frá. Það sem mig langar virkilega til að deila með ykkur er þetta ískaffi. Ég er mjög hrifin af  ískaffi en það var eiginlega nauðsyn sem kenndi mér að kunna að meta það því ég hreinlega gat ekki (og get ekki) drukkið heitt kaffi í 40°C hita.

Ískaffi, eins og venjulegt kaffi, er afskaplega mismunandi eftir sölustöðum og þeim aðferðum sem beitt er við uppáhellingu. Versta aðferðin sem þú getur beitt er að hella upp á heitt kaffi og láta það kólna í ísskápnum. Fyrir alla muni, sleppið því! Það verður einstaklega biturt og mun ekki renna ljúflega niður, ég lofa. Kaffið sjálft skiptir líka máli þó ég sé ekki hlynnt því að eyða miklum pening í baunir sem enda í ískaffi. Reynið bara að sleppa Merrildpokunum. 
En ískaffið sem við höfum verið að drekka frá því að við komum aftur út er útgáfa af víetnömsku ískaffi. Það er í raun mjög einfalt, við setjum eina matskeið (eða í mínu tilfelli tvær) af sætri niðursoðinni mjólk út í ískaffið og hrærum vandlega þar til hún hefur blandast við kaffið. Þetta dregur mjög úr biturleika svarta kaffisins og gerir það sætara (sætumagnið fer auðvitað alfarið eftir hversu mikil mjólk er notuð) og gefur því karamellukenndan keim og mýkri áferð. Þetta er hrein snilld.

SJÁ UPPSKRIFTIR

Asísk steikt hrísgrjón með spældu eggi

Í dag kom viðgerðarmaðurinn og gerði við uppþvottavélina, mér til mikillar ánægju. Það er fátt sem mér finnst eins leiðinlegt eftir góða kvöldmáltíð og að þurfa að vaska upp heilan helling af diskum, brettum, skálum, pönnum og pottum. Lífsgæði mín hafa því aukist til muna og það lá við að ég rauk upp um hálsinn á grey manninum þegar hann tilkynnti mér að vélin væri farin að virka. Ég kvaddi hann með sparibrosinu mínu og fór að hlaða í vélina leirtaui sem ég hafði ekki nennt að vaska upp kvöldið áður í þeirri veiku von að blessuð vélin hrykki í gang.

Eldavélin fór aftur á móti að virka í gærkvöldi (þetta er allt mjög dularfullt) og ég greip því tækifærið og bjó til asískan hrísgrjónarétt sem er bæði einfaldur og einstaklega ljúffengur. Ef þið eigið afgangshrísgrjón í ísskápnum þá verður þessi réttur ennþá einfaldari og fljótlegri fyrir vikið. Ég hef reyndar oftast notað nýsoðin hrísgrjón en það veldur því að hrísgrjónin verða aðeins of blaut. Dagsgömul hrísgrjón eru best í réttinn því þau hafa tapað vökva og rétturinn verður þá ekki eins grautkenndur.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir sumarréttir

Ég er nýkomin til Íslands í stutt stopp. Þegar ég lenti á Keflavíkurflugvelli var heiðskírt og fallegt en þriggja stiga hiti. Þriggja! Daginn sem ég fór frá New York var 30 stiga hiti og sól. Það var því úfin, ferðaþreytt og úrill ég sem gekk á móti Suðurnesjavindinum úr Leifsstöð.

Við nýttum samt síðustu dagana í hlýjunni í New York vel. Við eyddum tveimur dögum í Brooklyn þar sem við flökkuðum á milli bjórgarða og skoðuðum ný svæði þar sem næsta húsnæði okkar gæti leynst. Við settumst út á kvöldin, fengum okkur vínglas og nutum þess að eiga nokkra frídaga saman – en það hefur ekki farið mikið fyrir þeim þessa önnina.

En þrátt fyrir veður og vind þá er alltaf gott að koma ,heim’. Ég saknaði brauðostsins í risaumbúðunum, kalda ferska vatnsins úr krananum og fiskréttanna úr Fylgifiskum. En ég saknaði þó sérstaklega þagnarinnar, tístsins í fuglunum og gjallið í Tjaldinum í fjörunni fyrir utan gluggann minn heima hjá mömmu og pabba. Kærkomin breyting frá hinum stanslausa niði og hávaða stórborgarinnar.

Ég vildi auðvitað komast í eldhúsið sem fyrst og búa til einhverja dásemd handa fjölskyldunni minni. Að lokum ákvað ég að búa til tvo rétti sem hafa lengi verið á matardagskránni. Ég bjó til tælenskan hrísgrjónarétt með ananas og nautakjöti en í forrétt hafði ég djúpsteiktar risarækjur í bjórdeigi. Ég var reyndar eins og hauslaus hæna í eldhúsinu þeirra til að byrja með. Skipulagið ruglaði mig í ríminu og ég ætlaði aldrei að finna nauðsynleg hráefni og tól. Pabbi greip loks inn í  og gaf mér ráðleggingar varðandi steikingu á kjötinu (þar sem ég elda næstum því aldrei kjöt úti) og ananashreinsun. Útkoman var mjög ljúffeng. Ég breytti frá uppskriftinni og hafði soja- og chilimarinerað nautakjöt í staðinn fyrir tofu til að gefa réttinum aðeins meiri hita (og auðvitað sem afsökun til að matreiða kjöt). Djúpsteikingin á rækjunum var aðeins ævintýralegri, sem ótalmargir litlir brunablettir bera vott um, en þær voru svo ljúffengar umvafðar stökku djúpsteiktu bjórdeigi.

SJÁ MEIRA

%d bloggurum líkar þetta: