Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu
Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.
Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.