Skip to content

Posts from the ‘Vegan’ Category

Rabarbarasorbet

Þá er ég búin að kveðja systur mína eftir yndislega viku sem leið alltof hratt. Litla kotið virðist ansi tómlegt og það verður skrítið að detta aftur í daglega rútínu af lærdómi og skriftum. Við vorum mjög dugleg að labba um hin ýmsu hverfi Brooklyn, skoðuðum hinn fræga og víðáttumikla Greenwood grafreit, flatmöguðum í sólinni í Prospect Park og átum á okkur gat við hvert tækifæri. Þetta er fimmta ferð Emblu til New York en í fyrsta skiptið sem hún eyðir tíma utan Manhattan og hún var fljót að lýsa því yfir að þrátt fyrir mikla hrifningu á Manhattan þá væri Brooklyn mun skemmtilegri. Sem ég get tekið heilshugar undir.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgninum, hengdum myndavélarnar um hálsinn og töltum út á bændamarkaðinn. Jarðarberjatíðin er greinilega að ná hámarki – ljúfur og sætur ilmur lá í loftinu og við vorum ekki lengi að því að grípa nokkra bakka af jarðarberjum, eitt knippi af rabarbara og annað af aspas og ýmislegt góðgæti beint frá býli.

Við fórum á frábæran veitingastað í Fort Greene í einum göngutúrnum okkar og deildum tveimur ískúlum. Annar ísinn var rabarbarasorbet með engiferi sem var svo ferskur og bragðgóður að ég mátti til með að nýta rabarbarann í að búa til minn eigin. Ég lagðist í smá rannsóknir og fann uppskrift á netinu sem notar ekki of mikinn sykur á móti rabarbara og útkoman er þessi fallega bleiki sorbet með ljúfu rabarbarabragði og smá vísi að engiferi. Upprunlega uppskriftin notar smá sterkt áfengi til að koma í veg fyrir að sorbetinn frjósi um of en það má auðvitað sleppa áfenginu og leyfa ísnum bara að standa við stofuhita í nokkrar mínútur eftir að hann er tekinn úr frysti til að mýkja hann aðeins.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskir kjúklingaleggir + asískt hrásalat með mangói og myntu

Ég er, svona almennt séð, frekar viðutan manneskja en undanfarið hefur jarðtenging mín fjarlægst um nokkur ljósár. Stundum ranka ég við mér inni á baði og hef ekki hugmynd um af hverju í ósköpunum ég fór þangað inn, ég les efni fyrir doktorsritgerðina mína og fatta klukkutíma seinna að ég hef ekki meðtekið eitt einasta orð og um daginn labbaði ég út að ruslatunnu og fattaði ekki að ég hafði gleymt að taka ruslapokann með mér út fyrr en ég opnaði lokið. Við Elmar áttum þriggja ára brúðkaupsafmæli á mánudaginn og höfðum ákveðið, með ágætum fyrirvara, að prófa loksins einn eftirsóttasta matsölustaðinn í hverfinu. Ég hlakkaði mikið til, skoðaði matseðilinn á netinu og var búin að ákveða allt það góðgæti sem ég ætlaði að smakka.

Svo rann mánudagurinn upp og um miðjan dag fattaði ég að ég hafði keypt kjúkling daginn áður, búið til marineringu og ætlað að elda hann um kvöldið. Sama kvöld og við ætluðum út að borða! Ég þurfti að tilkynna manninum mínum að í staðinn fyrir að fara fínt og skemmtilegt út að borða þá yrðum við að borða tælenskan kjúkling og hrásalat. Ég var á þvílíkum bömmer. Það er, þangað til að við smökkuðum kjúklinginn og salatið. Því þessi kjúklingur var svo góður og hrásalatið svo ferskt og fallega litað með brakandi kasjúhnetum að ég hreinlega gat ekki fengið nóg. Ég læddist m.a.s. inn í eldhús rétt fyrir svefninn og skóflaði afgöngunum í mig í miklu græðgiskasti.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjasorbet

Á meðan lóan og spóinn eru óumdeilanlegir vorboðar heima á Íslandi þá er fátt sem gefur eins sterklega til kynna að vorið sé loksins komið hérna úti eins og rabarbarinn, aspasinn og jarðarberin á bændamarkaðnum. Í byrjun birtast þau á markaðnum í takmörkuðu upplagi og einungis þeir árrisulustu fara heim með poka af þessu góðgæti. Ég hef ekki verið ein af þessum heppnu undanfarnar helgar enda er ég vakandi hálfu og heilu næturnar sökum lítilla kröftugra fóta sem sparka í mig innan frá og áður en ég veit af er klukkan orðin alltof margt og ég er ennþá dottandi undir sæng.

Ég get því ekki sagt að þessi ótrúlega ljúffengi sorbet hafi verið búinn til úr lífrænt ræktuðum, nýuppteknum jarðarberjagersemum. Við fórum í búðina um daginn og ég fyllti heilan poka af ávöxtum í tilraun til að sefa sætuáráttu mína. Ég greip tvo bakka af jarðarberjum á útsölu en þegar heim var komið sá ég að þau myndu varla endast mjög lengi, svo þroskuð voru þau.

Ég starði á þau í svolitla stund og velti fyrir mér möguleikunum. Ætti ég að baka? Búa til eitthvert svakalegt jarðarberjasalat? Sjóða síróp? En þá minntist ég uppskriftar fyrir sorbet sem ég hafði séð hjá Smitten Kitchen (er nokkuð orðið of augljóst að ég er farin að eyða heilu og hálfu dögunum í að lesa gamlar færslur frá henni?). Ég hafði merkt við uppskriftina en ákveðið að salta hana þar sem ég sá ekki fram á að eiga heilt kíló af ódýrum jarðarberjum í bráð. Og krakkar, þessi sorbet er unaður. Hann minnir mig svolítið á óáfenga margarítu nema í ísformi og ég hef lúmskan grun um að ef þið setjið nokkrar skeiðar af þessum sorbet, nokkra klaka, slurk af tekíla og smá ferskan límónusafa í blandara að þið fáið hreint magnaða jarðarberjamargarítu. Ég væri allaveganna að brasa við það akkúrat núna ef ég væri ekki svona ábyrgðarfull og samviskusöm ófrísk kona.

SJÁ UPPSKRIFT

Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti

Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.

SJÁ UPPSKRIFT

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

Sólin heldur áfram að skína og blómin spretta upp úr beðunum á methraða og trén eru farin að hylja nekt sína með fíngerðum hvítum blómum. Vorið er sérstaklega falleg árstíð í stórborginni . Það er þó ennþá a.m.k. mánuður í að bændamarkaðurinn fari að selja eitthvað annað en rótargrænmeti og epli en ég bíð spennt eftir berjunum, aspasnum og rabarbaranum (þó ég eigi enn eftir að venjast því að þurfa að borga fyrir rabarbarann).

Ég hef aldrei eldað tófú sjálf. Mér finnst sjálfri tófú ágætlega gott (sé það rétt matreitt) en einhvern veginn hefur mér aldrei dottið í hug áður að teygja mig eftir pakkningunni í búðinni og skella því í rétt. En það mun sko breytast eftir þessa frumraun mína. Ég fann þessa uppskrift á eldhúsblogginu The Kitchn og varð strax hrifin. Þeir mæla með því að þrýsta vökvanum úr tófúinu, velta því síðan upp úr sojasósu og baka í ofni í ca. hálftíma. Við þetta verður tófúið svolítið stökkt að utan en mjúkt og eilítið seigt að innan og er frábær (og mjög holl) viðbót við asíska rétti. Rétturinn var mjög góður og seðjandi með skemmtilegri asískri bragðblöndu af hvítlauki, engiferi, sítrónugrasi og chilí. Það má auðvitað gera þetta að kjötrétti með því að snöggsteikja sojamaríneraða kjötbita á pönnu.

SJÁ UPPSKRIFT

Epla- og engifersorbet

Gleðileg jól!

Hátíðin var stórkostlega notaleg hjá okkur hjónunum og við gerðum vel við okkur með fínum kjötrétti (uppskrift síðar), ostum, rauðvíni og þessum heimalagaða ís. Mér fannst eitthvað svo tilvalið að búa til ís úr hráefni sem ég tengi við jólin – engifer og rauð epli. Ég var búin að einsetja mér að nota ísvélina svo mikið í ár að Elmari gæfist ekki færi á að benda mér á hversu mikil sóun á eldhúsplássi hún væri. Því miður hef ég ekki verið eins iðin við kolann og ég ætlaði mér en því ætla ég að ráða bót á á nýju ári, enda er heimalagaður ís alveg frábært matarfyrirbæri.

Ég dró fram ísbiblíuna mína og fletti þar til ég fann uppskrift sem mér fannst tilvalin. Reyndar blandaði ég saman tveimur uppskriftum þar sem ég átti eina flösku af áfengislausum eplasíder inni í ísskáp og hreinlega tímdi ekki að kaupa hvítvínsflösku til að sulla út í blönduna. Ég tók tvo mild pirringsköst út í Lebovitz og fann mig knúna til að breyta örlítið frá uppskrift. Eitt skref uppskriftarinnar er að þrýsta öllu gumsinu í gegnum síu. Sem væri gott og blessað ef ég ætti heilan lager af alls kyns síum en þar sem ég á bara mjög fína síu þá reyndist þetta verkefni einstaklega seinlegt og erfitt. Ég brá því á það ráð að skella öllu í matvinnsluvélina og blanda síðan saman við sídersírópið. Og það kom sko alls ekki að sök og herðar og hendur voru afar þakklátar fyrir vikið.

Sorbetinn er mjög ljós á litinn, silkimjúkur með mildu epla- og engiferbragði. Við hituðum brownies í örbylgjuofninum og bárum ísinn fram með þeim. Ég er mjög hrifin af því að bera fram svona ferskan og léttan eftirmat eftir mikið af þungum og krefjandi mat. Það hreinsar bragðlaukana og þegar eftirrétturinn er svona léttur þá er alltaf aukapláss fyrir meira. Það er gott að hafa í huga að velja alltaf vel þroskaða, vel ilmandi og fallega ávexti í sorbet. Sorbet gerir lítið annað en að magna bragð ávaxtarins og því er best að passa að ávöxturinn bragðist vel áður en hann er nýttur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: