Skip to content

Posts from the ‘Vegan’ Category

Gulróta- og lárperusalat


Ég er búin að setja mér markmið. Ég ætla að halda þessum kryddjurtum á lífi í a.m.k. tvo mánuði. Ég er undirbúin. Jurtirnar eru komnar í leirpotta, í nýja mold og hafa fengið vænan skammt af áburði. Ég keypti harðgerar jurtir sem þurfa ekki vatn á hverjum degi og þurfa ekki 16 klukkustundir af birtu á dag. Ef þær deyja, þá gæti ég endað snöktandi úti í horni. Þetta verða gæludýrin mín næstu vikurnar og lifandi skulu þær vera fyrir jól! En ef þið lumið á einhverjum sniðugum ráðum varðandi svona ræktun þá megið þið endilega deila þeim með mér í athugasemdakerfinu. Ég er nefnilega lítið gefin fyrir að bugast og snökta. Dagsljósið er farið að hverfa úr íbúðinni ansi snemma þessa dagana og ég á eftir að sakna þess að taka myndir í náttúrulegri birtu í gluggakistunni okkar. Ég tók fyrst eftir þessu í dag þegar ég ætlaði að labba með afrakstur kvöldeldamennskunnar út í glugga og uppgötvaði að niðadimmt var orðið úti. Ég hafði búið til þennan stórgóða, einfalda, holla og ódýra rétt í kvöldmatinn. Gulræturnar keypti ég á grænmetismarkaðinum um helgina beint frá uppáhaldsbóndanum mínum og ég er svo ánægð með hversu vel þær fengu að njóta sín í þessu salati. Lárperurnar og sítrónusafinn voru ferskt mótvægi við sætuna sem ofnbaksturinn dró fram í gulrótunum og rétturinn var ótrúlega saðsamur. Það er gott að bera réttinn fram með smá sjávarsalti svo að hver og einn geti kryddað eftir sínum eigin smekk, ég vildi hafa frekar mikð salt á gulrótunum mínum.

SJÁ UPPSKRIFT

Rósavíns- og hindberjasorbet

Tölum aðeins um rósavín. Rósavín hefur fengið svolítið slæmt orð á sig fyrir að vera of sætt, of stelpulegt, of bleikt og margir snúa upp á nef sér og fúlsa við drykknum. Það er svo sem allt í lagi. En rósavín er alveg jafn margbreytilegt og allar aðrar víntegundir. Það er til gott rósavín og svo er til rosalega (rosalega) vont rósavín. Ég játa fúslega að ég drekk rósavín endrum og eins og finnst þau stundum m.a.s. mjög góð. Því þurrara sem vínið er því meira slær á sætuna án þess þó að drepa ávaxtakeiminn.

Það má líka búa til sorbet úr rósavíni og hindberjum. Sorbet sem mér finnst mjög frískandi og skemmtilega öðruvísi á bragðið (ásamt því að vera svona líka fallegur á litinn!). Ég á því láni að fagna að sitja ein að fengnum þar sem eiginmaðurinn grettir sig ógurlega í hvert skipti sem ég býð honum upp á kúlu og muldrar eitthvað um að hann hafi lítinn sem engan áhuga á einhverjum rósavínsóskapnaði.

Verið hugrökk, búið til rósavínssorbet!

SJÁ UPPSKRIFT

Vorlauks- og engifernúðlur með pækluðum gúrkusneiðum


Það er fellibylur á leið upp austurströndina og stefnir á New York.  Strætóar hætta að ganga og borgarstjórinn hefur ákveðið að stöðva allar lestarsamgöngur í borginni frá og með hádegi í dag. 370 þúsund manns hafa þurft að rýma heimili sín þar sem flóðahætta er talin skapast af ofsaviðrinu. Við fórum í búðina í gærkvöldi til að kaupa mat fyrir næstu daga (enda ekki víst að búðir geti verið opnar þegar samgönguleiðir lokast) og hittum þar fyrir nánast alla í stóra hverfinu okkar. Raðirnar voru lygilega langar og brauð- og kartöflusnakkshillur voru galtómar. Við erum mjög róleg yfir þessu öllu saman og ætlum bara að hafa það notalegt á milli þess sem við pökkum niður íbúðinni. Ég hef reyndar smá áhyggjur af gluggunum sem eru svo illa einangraðir að í miklu úrhelli þá rignir inn um þá. Annars verður bara fróðlegt fyrir veðurnörd eins og mig að fylgjast með veðuráhrifum fellibylsins. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem varað er við miklum veðurofsa síðan við fluttum og ég á enn eftir að upplifa slíkt.
En nóg af veðri. Mig langar til að deila með ykkur einfaldri, ódýrri og ljúffengri núðluuppskrift. Við erum þegar búin að borða þennan rétt þrisvar sinnum á nokkrum dögum og ég býst við að hann verði reglulega á boðstólum í vetur. Hægt er að eiga krukku af pækluðum gúrkum og sósu inni í ísskáp og þá þarf bara að sjóða núðlur og steikja smá grænmeti með. Maturinn er þannig til á innan við 10 mínútum og er seðjandi á meðan gúrkurnar gefa honum ferskt mótvægi.
Uppskriftin segir að maður eigi að nota vínkjarnaolíu bæði í sósuna og í steikinguna á grænmetinu. Ég átti ekki slíkt við höndina og notaði ólívuolíu í sósuna og canolaolíu í steikinguna í staðinn. Ég ætla mér samt að fjárfesta í vínkjarnaolíu bráðlega þar sem ég býst við að búa til þennan rétt reglulega. Það er hægt að skipta út blómkálinu fyrir annað grænmeti (eða kjöt) sem til er í ísskápnum. Ég notaði sobanúðlur en það er auðvitað hægt að nota ódýru pakkanúðlurnar líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Mangó sorbet

Það er ýmislegt sem ég á eftir að sakna þegar við flytjumst yfir ána til Brooklyn – Riverside Park, arkitektúrsins í hverfinu okkar og kúbversku gamlingjanna sem hanga fyrir utan þvottahúsið hlustandi á háværa salsatónlist. En það sem ég á eftir að sakna mest og kvíði eiginlega að flytja frá er Barzini’s. Barzini’s er pínkulítil matvörubúð í eigu fúllyndra bræðra sem nær samt að pakka ótrúlegu úrvali af matvælum, ferskum ávöxtum og grænmeti, mörgum tegundum af bjór og framúrskarandi ostadeild í örfáa fermetra. Og það er alltaf ostasmakk í boði á meðan raðað er ofan í körfuna. En ég hef komist að því að Elmar hefur engan áhuga á að finna hráefni með mér þegar við stígum þangað inn, heldur labbar hann á milli ostabakka með tannstöngul við höndina og raðar í sig. Ef þið hafið verið að fylgjast með síðunni þá vitið þið að ég átti afmæli fyrir ekki svo löngu síðan. Ég fékk frábærar gjafir og á meðal þeirra var ísvél frá Emblu Ýri, litlu systur minni. Mig hefur langað í þessa blessuðu ísvél í háa herrans tíð og þó hún sé ekki dýr þá átti ég, sökum rýrs fjárhags, erfitt með að réttlæta kaup á henni. Þegar ég labbaði fram hjá Barzini’s um daginn og sá falleg mangó á spottprís, þá stóðst ég ekki mátið og ákvað að vígja vélina með mangó sorbet. Ísinn heppnaðist frábærlega og er hæfilega sætur með ríku og fersku mangóbragði. Ég er sérstaklega hrifin af sorbet í heitu veðri og eftir mat en mér líður eins og þeir hreinsa á mér bragðlaukana. Auðvitað þarf maður ekki að eiga ísvél til að búa til rjómaísa og sorbet en hérna er tengill á síðu sem útskýrir hvernig best er að fara að án ísvélar.

SJÁ UPPSKRIFT

Tælenskt grænt karrí & asískt chili agúrku salat

Okkur var boðið til Brooklyn í mat á Þakkargjörðarhátíðinni. Vinur okkar, Ástralinn Ben, var svo góður að bjóða okkur að vera hjá honum og herbergisfélögum sínum í Bushwick þar sem þau buðu þrettán manns í alvöru þakkargjörðarhátíðarmat.  Bushwick er fyrrum iðnaðarhverfi en búið er að breyta heilu verksmiðjunum í íbúðarhúsnæði. Þetta tekst misvel en íbúðirnar eru yfirleitt ódýrar með risastóru sameiginlegu rými og herbergjunum skipt niður með spónaplötum. Þannig að þeim tókst að gera (það sem aðeins múltímilljónamæringum er fært að gera á Manhattan) stórt matarboð mögulegt. Þannig að þarna settumst við niður ásamt stórri fjölskyldu frá Texas og hámuðum í okkur kalkún, glóðaðan aspas, grillað rósarkál, tvenns konar fyllingu, maísbrauð, spínatsalat, kartöflumús og sósu.  Og þetta var alveg mikilfenglegt. Við rúlluðum út með mataróléttumaga og létt af rauðvíni. Ég vona bara að við fáum aftur boðsmiða að ári.

Kalkúnninn var risastór og einstaklega ljúffengur.

Og við gerðum matnum góð skil:

Ég ákvað að prófa nýja rétti úr asísku matreiðslubókinni hennar Hemu Parekh og bauð vinkonu okkar í mat til að hafa ástæðu til að búa til tvo rétti. Salatið kom mjög vel út og ég hugsa að ég eigi eftir að hafa það oftar með asískum mat enda er það fljótlegt, ferskt og sterkt – ekki slæmir eiginleikar það. Ég tók því bara rólega í eldhúsinu en eins og svo oft áður þá fannst mér ég vera komin í tímaþröng undir rest. Ekki vanmeta það að tælenskur matur krefst snöggra handtaka og því er best að vera búin að taka allt til áður en kveikt er undir pottinum.

Það voru alls kyns asískar sérvörur í innihaldslista uppskriftarinnar þannig að ég dreif mig niður í Kínahverfið og í stærstu matvöruverslunina þar, Hong Kong Supermarket. Verslunin er mjög skemmtileg, þar geturðu keypt hin ótrúlegustu hráefni á mjög góðu verði og þannig búið til asískan mat sem bragðast eins og það sem maður fær yfirleitt bara á veitingahúsum. En verslunin brást mér illa í þetta sinn. Þeir áttu ekki fersk chili, engin límónulauf, og ekkert galangal. Ég leitaði á öllum stöðum sem mér datt í hug í Kínahverfinu klyfjuð innkaupapokum frá Hong Kong og spurði starfsfólk og götusala (sem flest talaði ekki ensku) með frekar ruglingslegu látbragði hvort þeir ættu þessar vörur og hvar ég gæti fengið þær. Enginn árangur. Ég endaði því í Wholefoods sem einungis áttu fersk chili en sögðust ekki hafa séð límónulauf í langan tíma. Þannig að ég fór heim með engifer í staðinn fyrir galangal og límónur í staðinn fyrir límónulauf.

Ég var frekar svekkt að vera ekki með þau hráefni sem áttu að vera í réttinum og þá sérstaklega að hafa ekki límónulaufin. Ég reif niður börk af einni límónu í staðinn fyrir að nota laufin til að fá eitthvað límónubragð í réttinn. Ég notaði líka engiferrót í staðinn fyrir galangal, en þau eru af sömu rótarættinni. Ég ákvað líka að vera ævintýraleg og keypti ferskan bambus til að hafa í réttinum en þegar ég var komin heim með hann þá fannst mér hann lykta eitthvað furðulega þannig að ég setti aðeins nokkur grömm af honum. (Sem betur fer því að nógu sterkt var bragðið af honum í réttinum þegar allt var tilbúið). Ég hugsa því að ég muni halda mig við að kaupa bambus úr áldós í framtíðinni. En rétturinn var gómsætur þrátt fyrir brasið og óheppnina. Spyrjið bara Elmar sem fékk sér þrisvar sinnum á diskinn (konunni hans til mikillar ánægju). Og eins og áður með þessa tælensku karrírétti þá er hægt að skipta út eða minnka innihald á sumum hráefnum fyrir svínakjöt, kjúklingakjöt eða annað grænmeti.


SJÁ UPPSKRIFTIR

Massaman karrí

Ég dró Elmar með mér suður í Kínahverfið í gær til að versla hráefni í þetta gómsæta karrí. Að fara þangað er eins og að stíga inn í annan heim, allir (með fáum undantekningum) tala kínversku eða víetnömsku, öll skilti eru á kínversku og maður finnur ótrúlegustu hráefni í matarmörkuðunum. Mér finnast skúringarföturnar með lifandi froskum í skemmtilegastar, þeir láta mann fá tangir svo maður getur dregið upp úr feitasta og ljótasta froskinn. Ég hef reyndar ekki reynt það ennþá en kannski ef ég finn girnilega froskauppskrift þá læt ég á það reyna.

Þessi uppskrift er smá breyting á uppskrift úr bókinni The Asian Vegan Kitchen eftir Hemu Parekh. Ég og dóttir Hemu erum mjög góðar vinkonur og við vorum nánast óaðskiljanlegar þegar við vorum saman í skóla í Tokyo. Ég eyddi því nokkrum árum í eldhúsinu hennar Hemu og hún var mjög dugleg að gefa mér að borða (sérstaklega þar sem ég var mjög dugleg að borða). Maturinn hennar er það ljúffengasta sem ég hef smakkað og ég er mjög spennt yfir bókinni hennar. Ég fæ reyndar oft hroll yfir orðum eins og ,,gluten-free“ og ,,vegan“ því ég á bara erfitt með að skilja slíkar sérþarfir í mataræði. En í rauninni er mjög mikið af mat í Asíu ,,vegan“ matur þar sem mjólkurvörur og kjöt eru alls ekki nauðsynleg uppistaða í réttum þar og því er ég alls ekki afhuga þessari bók.

Það er auðvelt að leika sér með þessa uppskrift. Það má minnka magn af kartöflum og skipta út fyrir kjúkling, tófú eða svínakjöt, það má líka nota sveppi í þennan rétt. Ef þú vilt milda laukbragðið þá geturðu steikt laukinn í pönnu þangað til hann verður glær áður en honum er bætt við réttinn. Ég mæli svo með að bera réttinn fram með sjóðandi heitum jasmín hrísgrjónum.


SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: