Skip to content

Posts from the ‘Egg’ Category

Eggjasalat

Í hvert skipti sem ég þarf að kaupa sellerí í einhvern rétt handa okkur þá held ég ræðu yfir Elmari. Hún snýst aðallega um hversu pirrandi mér þykir að þurfa að kaupa risavaxinn vönd með ótalmörgum stilkum þegar flestar uppskriftir þurfa bara einn stilk. Eftir situr sellerívöndurinn og fer strax að mýkjast. Þótt mér þyki sellerí gott þá er ég ekki kona í að kjamsa á því í tíma og ótíma.

Það birti því yfir mér þegar ég sá uppskrift á Smitten Kitchen sem notar pæklað sellerí(!). Svo sniðugt. Svo einfalt. Svo má nýta pæklaða selleríið í meira en eggjasalat, túnfiskssalat og kartöflusalat. Það má til dæmis setja það á grillað brauð eða bara borða það beint upp úr krukkunni. Þetta eggjasalat er það besta sem ég hef fengið – dijonsinnepið gefur því hita, dillið ferskleika og selleríið smá bit og sýru. Eggjasalat í fullkomnu jafnvægi.

SJÁ UPPSKRIFT

Frittata með ricotta og kryddjurtum

Mér varð að ósk minni á fimmtudaginn. Við vorum boðin í Þakkargjörðarmat hjá vinum okkar í hverfinu en þau voru að þreyta frumraun sína í að elda heilan kalkún og með því. Maturinn tókst svona ljómandi vel og við eyddum nokkrum klukkutímum í að borða í rólegheitunum. Ég bjó til salat og skonsur en gerðist svo djörf að kaupa graskersböku á markaðnum í staðinn fyrir að baka hana sjálf (þessi litli tímaþjófur gerði það ómögulegt). Ég hafði aldrei áður smakkað graskersböku og verð að viðurkenna, þar sem ég hafði mínar efasemdir, að hún er alveg ljómandi góð. Kannski ég taki mig til og galdra fram eina slíka að ári.

Við fengum vini okkar í heimsókn í hádeginu og ég ákvað að finna eitthvað fljótlegt og létt til að gefa þeim. Ég hafði keypt lífræn egg, ilmandi blaðlauk og ricottaost úr geitamjólk á markaðinum um morguninn og þessi fallegu hráefni rötuðu í þennan stórgóða eggjarétt. Frittata er ítölsk tegund af ommelettu og er töluvert auðveldari en hin klassíska franska (sem krefst smá tækni og æfingar – sjá hér). Frábær og fyrirhafnarlítill hádegisréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Hádegisverður að vori

Eitt það skemmtilegasta við að búa í New York er að uppgötva ný hverfi. Við Elmar fórum í göngutúr í sólríku veðri um daginn og ákváðum að labba í nýja átt. Eftir smá labb framhjá eilítið niðurníddum húsum og vanræktum görðum þá komum við að götu þar sem sjá mátti kaffihús, bari, veitingastaði og litlar fallegar búðir hvert sem við litum. Ég fann blómasala sem seldi mér stóran vönd af gulum blómum á þrjá dali og trítlaði heim með bros á vör. Þessi litla vin í Crown Heights hverfinu býður upp á mjög margt skemmtilegt og við hlökkum til að kanna það frekar í sumar.

Ég er orðin svo afskaplega leið á brauði með osti og sultu. Það er svo auðvelt að detta í einhverja eilífa endurtekningu á hádegismat og undanfarið höfum við gripið alltof oft í brauðpokann. Ég ákvað þess vegna að fara að finna uppskriftir að hollum, fljótlegum og ódýrum lausnum á þessum hádegisvanda. Ég rakst á útgáfu af þessum rétti hjá Joy, varð mjög spennt, pantaði bókina hennar Sophie Dahl af Amazon og hef síðan eldað hann tvisvar í hádeginu handa okkur.

Gleðilega páska!

SJÁ UPPSKRIFT

Kanillengja með kremi

Eldað í Vesturheimi er eins árs í dag. Ég er búin að skrifa 76 færslur, birta 89 uppskriftir og landa einu blaðaviðtali. Ég ætla ekki einu sinni að telja myndirnar sem ég hef birt, ég er hrædd um að ég fái vægt áfall. En mig langaði til að nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að líta inn hjá mér – hvort sem þið gerið það reglulega eða endrum og eins. Ég get ekki byrjað að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir heimsóknir ykkar, athugasemdir og áhuga.

Er þetta orðið of væmið? Of vandræðalegt? Vindum okkur þá í sykur-, smjör- og gerbombu dagsins. Ég bakaði hana sérstaklega fyrir ykkur.

Þetta sætabrauð er stórhættulegt. Það er svo mjúkt, bragðgott og sætt. Sykurinn og smjörið leka niður í mótið og botninn á brauðinu verður karamellukenndur. Það passar ótrúlega vel með heitu kaffi eða kaldri mjólk. Og þið munuð vilja borða það allt án þess að deila með öðrum. (Eða var það bara ég?) Ég hugsa að ég búi það ekki til aftur nema ég eigi von á fólki í kaffibolla, svo ég geti haft hemil á mér. Borðsiðirnir í dag voru ekki beint til fyrirmyndar.

Þetta brauð, eins og flest allt gerbrauð, krefst smá tíma og alúðar. Það þarf að hefast tvisvar og hvílast tvisvar, bakast í hálftíma og kólna í korter. Þetta er því tilvalið brauð til að baka um helgi þegar veðrið er vont og hangsa þarf inni. Það má líka búa til deigið og stinga því inn í ísskáp og fletja það út og baka næsta dag. Það má sleppa rjómaostskreminu og búa frekar til súkkulaðikrem eða glassúr. Eða sleppa bara kremi alfarið. En fyrir alla muni fáið fólk í kaffi. Eins og Vesturheimsbúar segja:

Sharing is caring.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí carbonara með myntu og garðertum

Eftir miklar bollaleggingar og veðurpælingar þá ákváðum við hjónin að flýja Bergen og héldum til Aurdal í Vestur Noregi. Við leigðum okkur lítinn kofa á rólegu tjaldstæði við Aurlandsána og eyddum þremur dögum í að ganga og skoða eitt fallegasta landsvæði sem ég hef augum litið. Áður en ég fór til Noregs hafði mamma sagt mér að Noregur sé eins og ,,Ísland á sterum“ og hún hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Fjöllin eru stórkostlega há og þverhnípt, dalirnir djúpir og gróðursælir og það er ekki þverfótað fyrir villiblómum og birkitrjám. Fegurðin er yfirgengileg. Það er algjör synd hvað það er dýrt að vera í Noregi og ferðast um því þetta er land sem ég gæti eytt ævinni í að skoða.
Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara í fjallgöngu þar sem fótunum var kippt undan mér þegar ég steig á sleipan stein, ég skall á hliðina í berg og er núna með lófastórt mar á mjöðminni. Það versta við fallið var að ég var með myndavélina óvarða um öxlina og linsan slóst við bergið og er (næstum því) öll. Ég hélt samt áfram að taka myndir á vélina en meirihluti myndanna lenti því miður í ruslinu (restin er á flickr). Ég er svo einstaklega klaufsk að ég lét mér þetta ekki að kenningu verða og rann næstum því fram af bröttum klettastíg daginn eftir. Stundum er það mesta furða að ég hafi aldrei þurft að kalla til björgunarsveitir þegar ég er að hlaupa upp á fjöll.

Eftir svona svaðilför á maður skilið sérlega matarmikið pasta, að mínu mati. Ég er alveg forfallinn aðdáandi carbonara en bý það sjaldan til sökum þess hversu krefjandi það er á meltuna. Þessi carbonararéttur frá Jamie Oliver er sérstaklega skemmtilegur þar sem rétturinn fær smá ferskt bragð frá myntu og garðertum (sem eru víst ranglega kallaðar grænar baunir). Ég nota alltaf frosnar garðertur (peas) því þær eru víst mjög fljótar að missa næringargildi og ferskleika og því er best að kaupa þær beint frá ræktanda eða djúpfrystar í poka.

SJÁ UPPSKRIFT

Brauð með reyktum laxi, avókadómauki og eggjahræru

Sólin skein í Bergen í gær í fyrsta skipti í marga daga. Ég er ekki alveg viss um hvernig þetta rigningarveður á við mig því að ég er ekki með nógu góða skó og ef það er eitthvað sem mér er virkilega verulega einstaklega illa við þá er það að vera blaut í fæturna. Ég er sjaldan eins dauf í dálkinn og þegar ég finn fyrir skvampi í skónum og rennandi blautum sokkum. Þetta endalausa votviðri gerir það samt að verkum að ég verð eins og barn á jólunum þegar sólin gægist fram, jörðin hlýnar og ég get legið í grasinu í pilsi og stuttermabol. Það er engin önnur árstíð sem kemst nálægt því að skipa þann heiðursess sem sumarið hefur í hjarta mínu (þrátt fyrir alla rigninguna).

Við áttum afgang af reyktum laxi frá laxa- og kartöflusalatinu deginum áður. Ég ákvað því að búa til smørrebrød með avókadómauki og eggjum. Þetta var mjög góður hádegismatur og hráefnin þrjú passa mjög vel saman. Svo eru litirnir líka svo fallegir – allt mjög lekkert. Ég átti afgang af crème fraîchesósu frá því deginum áður en það má auðvitað sleppa sósunni og mala ferskan pipar yfir allt saman.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: