Eggjasalat
Í hvert skipti sem ég þarf að kaupa sellerí í einhvern rétt handa okkur þá held ég ræðu yfir Elmari. Hún snýst aðallega um hversu pirrandi mér þykir að þurfa að kaupa risavaxinn vönd með ótalmörgum stilkum þegar flestar uppskriftir þurfa bara einn stilk. Eftir situr sellerívöndurinn og fer strax að mýkjast. Þótt mér þyki sellerí gott þá er ég ekki kona í að kjamsa á því í tíma og ótíma.
Það birti því yfir mér þegar ég sá uppskrift á Smitten Kitchen sem notar pæklað sellerí(!). Svo sniðugt. Svo einfalt. Svo má nýta pæklaða selleríið í meira en eggjasalat, túnfiskssalat og kartöflusalat. Það má til dæmis setja það á grillað brauð eða bara borða það beint upp úr krukkunni. Þetta eggjasalat er það besta sem ég hef fengið – dijonsinnepið gefur því hita, dillið ferskleika og selleríið smá bit og sýru. Eggjasalat í fullkomnu jafnvægi.