Skip to content

Posts from the ‘Bakkelsi’ Category

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

Ég á við smá vandamál að stríða. Uppáhaldskaffihúsið mitt selur kleinuhringi sem eru svo góðir að ég gæti borðað þá í morgunmat á hverjum einasta degi. Þegar ég var ófrísk þá stalst ég ófáum sinnum þangað, keypti mér tvo og skóflaði þeim í mig á leiðinni heim. Amerískir kleinuhringir tvinna saman allt sem mér finnst syndsamlega gott. Allt það sem maður ætti bara borða í hófi. Þeir eru kolvetnisríkir, djúpsteiktir og með sykruðum glassúr. Fyrir mörgum (*hóst*Elmari*hóst*) er þetta of mikið af hinu góða.

Ég hef samt aldrei lagt í að djúpteikja kleinuhringi sjálf. Mér finnst skelfilega leiðinlegt að djúpsteikja og þar sem ég er afskaplega klaufsk þá er ég hálfhrædd við það líka. Þegar ég sá ofnbakaða kleinuhringi hjá Tracy þá hugsaði ég ekki um annað í marga daga. Ég tók loks af skarið og pantaði mér kleinuhringjamót á Amazon og bauð vinkonu okkar í kaffi.

Þessir kleinuhringir voru meira að segja Elmari að skapi! Kleinuhringirnir eru hlaðnir súkkulaði og espressói og glassúrinn er með ríkulegu kaffibragði. Þeir eru svo góðir að ég er hissa á að internetið hafi hreinlega ekki sprungið þegar Tracy birti þá á síðunni sinni. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að baka af Eldað í Vesturheimi þá er þetta uppskriftin. Bjóðið svo vinum ykkar í kaffi og berjist um síðustu bitana. 

[* Ég hef lagst í smá rannsóknarvinnu og reynt að finna staði á Íslandi sem selja kleinuhringjamót. Allt í köku selur þá á vefsíðu sinni. Einhver hvíslaði því að mér að hún hafi séð slíkt í Melabúðinni. Ég hef haft samband við Kost og þau eru að íhuga að flytja þau inn.]

SJÁ UPPSKRIFT

Hversdagsleg súkkulaðikaka

Ég finn mig knúna til að tilkynna að það eru ekki bara kökur, kanillengjur og ís í matinn hjá okkur svona frá degi til dags. Ég er búin að elda margt mjög ljúffengt síðustu vikur en því miður sest sólin hjá okkur um fjögurleytið og allar tilraunir til að taka fallegar myndir af matnum mistakast. Ef ég væri ekki á fullu við að kenna Þórdísi að sofa (ég er ennþá steinhissa á þessum hluta uppeldisins, ég hélt að sá hæfileiki væri meðfæddur) og reyna að læra og skrifa í þá fáu klukkutíma sem ég hef aflögu þá myndi ég kannski elda í hádeginu og nýta dagsbirtuna í myndatökur. En því miður þá held ég að ég þurfi bara að bíða þangað til sólin hækkar á lofti og Þórdís Yrja fer að læra að það gengur ekki að vera vakandi allan liðlangan daginn. Þangað til gæti verið smá skortur á kvöldmatarfærslum á þessari síðu.

Þetta er í annað skiptið sem ég baka þessa köku. Hún er einstaklega einföld, það tekur enga stund að blanda deigið, hún skilur eftir sig lítið uppvask og svo er hún látin bakast inni í ofni við lágan hita í rúman klukkutíma. Útkoman er algjör súkkulaðisprengja. Hún minnir mig svolítið á banana- og súkkulaðiformkökuna sem ég bjó til þegar við fluttum fyrst inn í íbúðina okkar í Brooklyn en er þó ekki eins sæt og syndsamleg. Þessi kaka er frábær með ískaldri mjólk eða sterkum kaffibolla og ætti að höfða til allra sem kunna að meta bragðið af dökku súkkulaði. Þar sem súkkulaðið er aðalhlutverkið í þessari formköku mæli ég með að nota gæðakakóduft í hana til að fá gott og eilítið beiskt súkkulaðibragð.

SJÁ UPPSKRIFT

Eplakanillengja

Þegar ég fór frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá hafði ég smá áhyggjur af því að við værum að fara að einangra okkur í Brooklyn. Vinir okkar hérna úti eiga ekki börn, lifa frekar annasömu lífi og við höfðum vanist því að hitta þá í bjór á börum borgarinnar. Ég bjóst því við að Þórdís myndi aðeins sjá andlit foreldra sinna og yrði ef til vill mannfælin (og já, það er greinilega hægt að hafa áhyggjur af öllu þegar maður á barn). En einangrun hefur alls ekki einkennt líf okkar frá því að við komum út, langt því frá. Það er sífelldur gestagangur og við mjög ötul við að bjóða fólki í bröns, hádegismat, kaffi og kvöldmat. Þetta gerir það að verkum að ég reyni eftir fremsta megni að fylla frystinn af heimabökuðu bakkelsi sem má henda inn í ofn þegar við fáum gesti. Og með þannig mat í huga fann ég þessa uppskrift.

Þessi eplakanillengja er stórsniðug, það er ýmist hægt að skera rúlluna niður og búa þannig til eplakanilsnúða eða hafa hana eins og hér að ofan og baka hana eins og rúlluköku. Uppskriftin gefur tvær kanillengjur og það má frysta eða kæla óbakaða lengjuna (eða báðar lengjurnar) og eiga þar til gesti ber að garði. Eplin vega aðeins upp á móti sykrinum og gefa bæði smá bit og ferskleika. Þetta er svolítið tímafrek uppskrift þar sem deigið þarf að hefast tvisvar og skera þarf eplin niður í litla teninga. En afraksturinn er tvær matarmiklar kanillengjur sem geyma má í frysti og auðveldar manni þannig lífið ef von er á gestum í kaffi og með því.

SJÁ UPPSKRIFT

Peruskonsur með súkkulaðibitum

Síðustu daga höfum við fylgst úr fjarska með eyðileggingunni í borginni okkar og heyrt í vinum sem komust allir undan storminum heilir á húfi þó margir séu enn án rafmagns og hita. Hverfið okkar í Brooklyn lenti ekki illa í Sandy þar sem það er langt frá ströndinni og liggur hátt. Það voru aðeins nokkur tré sem féllu og vægar vatnsskemmdir. Við þurfum ekki að kvíða því að koma heim í vatnsfyllta, rafmagnslausa íbúð. Það verður forvitnilegt að sjá hversu fljótt þeir ná að koma lestarsamgöngum aftur á en lestir á Manhattan og samgöngur þeirra til og frá Brooklyn eru í algjörum lamasessi.

Ég ætla að taka smá hlé frá Þakkargjörðaruppskriftunum. Ég hef verið að rembast við að skrifa um matseldina á kalkúninum án þess að komast mikið áfram og ákvað þess í stað að nýta blund Þórdísar í að baka. Þessi uppskrift kemur frá uppáhaldsblogginu mínu, Smitten Kitchen, og ég hef verið að bíða eftir réttu tækifæri til að baka skonsurnar. Ég greip gæsina í dag enda veðrið illskeytt og það brakaði hátt í þakinu undan vindinum. Skonsurnar eru mjög góðar, ofnbakaðar perur, stórir súkkulaðibitar og mikið smjör gera gæfumuninn. Passið að hafa perurnar stífar og aðeins óþroskaðar því ef að perurnar eru mjög safaríkar þá verður deigið of blautt og skonsurnar verða fremur flatar. Best er að borða þær samdægurs og það má auðvitað frysta deigið og baka seinna ef heil uppskrift er of mikið magn fyrir heimilisfólkið.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðihorn

Það er eiginlega með ólíkindum hvað tíminn líður hratt þegar maður er í fæðingarorlofi. Mér finnst hálf óraunverulegt að það sé kominn heill mánuður (rúmlega) frá því að við fengum Þórdísi Yrju í heiminn en mikið hefur þessi tími verið skemmtilegur. Við erum loksins farin meira á stjá með gripinn og ég átti einstaklega ljúfan dag á miðbæjarrölti með litlu fjölskyldunni minni um daginn. Við fengum okkur frábæra súpu á Noodle Station og ljúfan kaffibolla á Kaffismiðjunni með góðvinkonu okkar. Það var orðið nauðsynlegt að komast út úr húsi og hitta gott fólk.

Ég ætlaði að taka smá bloggpásu frá bakkelsi, sætabrauði og eftirréttum en svo komu þessi súkkulaðihorn út úr ofninum og ég mátti til með að segja ykkur frá þeim. Því það er fátt sem mér finnst betra en smjördeig. Ég er til dæmis mjög hrifin af kjötbökum, ávaxtabökum, croissant og öllu því sem nýtir slíkt deig. Það er heilmikil fyrirhöfn að búa til ekta smjördeig á franska mátann – þar sem útflöttum smjörstykkjum er pakkað á milli laga af deigi og svo flatt út aftur (og aftur og aftur). En það má líka stytta sér leið með því að búa til einfaldara smjördeig eins og í uppskriftinni hér að neðan. Við fundum þessa uppskrift í Gestgjafanum og höfum aðeins breytt henni eftir okkar höfði. Hornin eru stórgóð pökkuð með fullt af súkkulaði.

SJÁ UPPSKRIFT

Marmarakaka

Eftir langa bið er litla lambið okkar mætt á svæðið. Þórdís Yrja fæddist á Hreiðrinu fyrir rétt rúmri viku og hefur í þessa fáu daga gert foreldrana svo ofboðslega stolta og ástfangna að það keyrir fram úr öllu hófi. Fæðingin og allt sem því fylgir gekk eins og í sögu undir góðri leiðsögn yndislegra ljósmæðra. Ég er svo fegin því að hafa komið heim til Íslands og átt stúlkuna hér því þjónustan er svo framúrskarandi og persónuleg. Ég veit fyrir víst að slíkt hefði aldrei boðist í New York (nema fyrir svimandi háa peningaupphæð).

Þið verðið því að afsaka ef færslur verða stopular næstu vikurnar en ég ætla samt að reyna að gera mitt besta að birta uppskriftir og myndir. Ef Þórdís Yrja heldur áfram að vera svona vær og góð býst ég nú samt við að ég geti uppfært síðuna nokkuð reglulega. Sérstaklega þar sem ég bý svo vel að því að eiga systur sem elskar að baka og foreldra sem eru meistaralega flinkir í eldamennsku.

Það var í miðri mjólkurþoku sem við mæðgur sátum inni í eldhúsi hjá systur minni og móður og fylgdumst með þeim baka bestu marmaraköku sem ég hef fengið. Gallinn við flestar marmarakökur, að mínu mati, er að það er ekki nógu skýr bragðmunur á súkkulaði- og vanilludeiginu og þó að kakan sé oft góð þá er hún kannski ekki það góð að maður skeri sér sneið eftir sneið. Þessi uppskrift gefur því öðrum marmarakökuuppskriftum langt nef. Í súkkulaðideiginu er bæði brætt dökkt súkkulaði og kakó, sýrður rjómi ljær kökunni bæði þéttleika og kemur í veg fyrir að hún verði þurr. Uppskriftin er stór (næg í tvö 26 cm brauðform) og því má frysta aðra kökuna til að eiga síðar meir, borða báðar strax eða skera uppskriftina niður um helming. Embla Ýr breytti uppskriftinni aðeins en hún kemur upprunalega frá hinu stórgóða Baked bakaríi í Brooklyn.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: