Greipósa
Ég ætti kannski ekki að pína ykkur með þessu en vorið er farið að skarta sínu fegursta í hverfinu okkar. Prospect Heights er mjög gróið hverfi með mörgum magnólíu- og kirsuberjatrjám sem keppast nú við að opna blóm sín. Við tökum vorinu fagnandi og hlökkum til að eyða góðum tíma saman í garðinum í sumar.
Ef ég byggi heima í þessu langvarandi vetrarhreti, þá myndi ég bjóða góðu fólki í bröns um helgina. Ég myndi baka ólívuolíuköku, steikja ofnbakaðar kartöflur með spínati og beikoni, hleypa egg og búa til stóra könnu af þessum frábæra kokkteil. Uppskriftin er innblásin af hinni sívinsælu mímósu (appelsínusafi í kampavíni) en mér finnst þessi drykkur margfalt betri. Ferskur greipsafi blandaður saman við Campari og freyðivín.