Skip to content

Posts from the ‘Greip’ Category

Greipósa

Ég ætti kannski ekki að pína ykkur með þessu en vorið er farið að skarta sínu fegursta í hverfinu okkar. Prospect Heights er mjög gróið hverfi með mörgum magnólíu- og kirsuberjatrjám sem keppast nú við að opna blóm sín. Við tökum vorinu fagnandi og hlökkum til að eyða góðum tíma saman í garðinum í sumar.

Ef ég byggi heima í þessu langvarandi vetrarhreti, þá myndi ég bjóða góðu fólki í bröns um helgina. Ég myndi baka ólívuolíuköku, steikja ofnbakaðar kartöflur með spínati og beikoni, hleypa egg og búa til stóra könnu af þessum frábæra kokkteil. Uppskriftin er innblásin af hinni sívinsælu mímósu (appelsínusafi í kampavíni) en mér finnst þessi drykkur margfalt betri. Ferskur greipsafi blandaður saman við Campari og freyðivín.

SJÁ UPPSKRIFT

Ólívuolíukaka

Undanfarna morgna hef ég labbað út á uppáhaldskaffihúsið mitt, Glass Shop, í þeirri veiku von að fá margrómuðu ólívuolíukökuna þeirra með kaffibollanum mínum. En hún er alltaf búin. Étin upp til agna af árrisulu vinnandi fólki. Þar sem mér er meinilla við fýluferðir þá fæ ég mér eitthvað annað – pain au chocolat, croissant eða smjördeigshorn með eplabitum. Núna ákvað ég samt að taka málin í mínar eigin hendur og baka álíka köku sjálf til að eiga með kaffinu.

Uppskriftin að þessari köku er upprunalega frá Abraço á Manhattan og birtist í einhverju gömlu Bon Appétit-blaði. Ég gróf hana síðan upp á fallega blogginu hennar Alice Gao. Hún er mild, létt og fullkomin með kaffinu. Upprunalega á að nota sítrónubörk í deigið en ég notaði rifinn börk af greipi – ég hugsa að börkur af öðrum sítrusávöxtum muni líka passa vel. Þetta er mögulega einfaldasta kaka sem ég hef bakað og mig grunar að hún eigi eftir að vera bökuð margoft í framtíðinni þegar von er á góðum gestum í kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Greip- og hunangsskonsur

Það er svo heitt hérna. Að langflestu leyti finnst mér það eiginlega alveg frábært og nýt þess að finna hitann ná mér inn að beini. En mikið óskaplega langar mig líka út úr borginni, langt frá steinsteypunni, eitthvert út í sveit þar sem ég get legið í grasinu, grillað á kolagrilli og jafnvel dýft tánum í sjó eða vatn. Náttúrulífið í borginni er samt ósköp fallegt og við búum vel að því að búa rétt hjá Prospect Park þar sem maður getur komið sér fyrir undir skugga trjánna, horft á fiðrildin og fuglana og ímyndað sér að maður sé langt frá ys og þys borgarinnar.

Það mætti því ætla að ég væri orðin eitthvað verri að ákveða að kveikja á ofninum og baka þegar úti er glaðasólskin og 32 stiga hiti. Kannski er það ekki svo fjarri lagi en ég var bara svo svöng og mig (eða má ég kenna ófæddu barninu um?) langaði bara í skonsur. Ég átti greipávöxt því í einhverju bjarstýniskasti í Whole Foods sannfærði ég mig um að slíkt væri góður morgunmatur (en svo bjó ég til granóla í staðinn). Sem það örugglega er, en hver verður saddur af einu greipi á morgnana? Þannig að greipið lá fyrir skemmdum þegar ég rakst á þessa uppskrift hjá henni Joy og úr því urðu þessar ljómandi góðu og einkennilega frískandi skonsur.

Má ég mæla með þeim nýbökuðum með smjöri ásamt kaffibolla, með þetta lag á fóninum?

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: