Sörur
Ég er búin að vera með svo miklar yfirlýsingar um skreytingaræði mitt undanfarið að mér var bent á að kannski væri við hæfi að birta nokkrar myndir af dýrðinni. Við búum í lítilli stúdíóíbúð (28 fermetrum, takkfyrirkærlega) og borgum himinháar fjárhæðir fyrir (fylgifiskur þess að búa í New York). Ég var því mjög tvístígandi hvort ég ætti að tíma að kaupa jólatré og hvort að eitt slíkt myndi ekki hreinlega taka frá okkur dýrmætt pláss. Lausnin blasti svo við okkur þegar við fórum á bændamarkaðinn og sáum knippi af grenigreinum til sölu fyrir vægt verð. Útkomuna sjáið þið hér að ofan og við erum bara ansi sátt með litla ,tréð’.
Reyndar var svo mikið af greinum í vendinum að ég náði að búa til lítinn greniskóg í arninum okkar og hengja upp stakar greinar hér og þar. Í gær varð svo allt í einu mjög kalt og ég tel að Vetur konungur sé endanlega búinn að hrekja haustið á brott. Mandarínur hafa verið skreyttar með negulnöglum, sörur bakaðar, jólaskrauti dreift út um allt og við erum því alveg að verða tilbúin að bjóða jólin velkomin.
Fyrir mér eru sörur bestu jólasmákökurnar. Þær krefjast meiri fyrirhafnar en flestar aðrar smákökur en þær bragðast líka í samræmi við það. Ég studdist við uppskriftina í Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur en breytti henni lítillega svo þær minntu mig meira á sörurnar sem mamma bjó til þegar ég var lítil. Möndlumarenskaka með espressósmjöri og dökkri súkkulaðihúð – ég veit ekki hver á heiðurinn af upprunalegu sörunni en mikið vildi ég geta keypt handa þeim bjór og gammel dansk.