Skip to content

Posts from the ‘Pasta’ Category

Spagettí carbonara með myntu og garðertum

Eftir miklar bollaleggingar og veðurpælingar þá ákváðum við hjónin að flýja Bergen og héldum til Aurdal í Vestur Noregi. Við leigðum okkur lítinn kofa á rólegu tjaldstæði við Aurlandsána og eyddum þremur dögum í að ganga og skoða eitt fallegasta landsvæði sem ég hef augum litið. Áður en ég fór til Noregs hafði mamma sagt mér að Noregur sé eins og ,,Ísland á sterum“ og hún hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Fjöllin eru stórkostlega há og þverhnípt, dalirnir djúpir og gróðursælir og það er ekki þverfótað fyrir villiblómum og birkitrjám. Fegurðin er yfirgengileg. Það er algjör synd hvað það er dýrt að vera í Noregi og ferðast um því þetta er land sem ég gæti eytt ævinni í að skoða.
Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara í fjallgöngu þar sem fótunum var kippt undan mér þegar ég steig á sleipan stein, ég skall á hliðina í berg og er núna með lófastórt mar á mjöðminni. Það versta við fallið var að ég var með myndavélina óvarða um öxlina og linsan slóst við bergið og er (næstum því) öll. Ég hélt samt áfram að taka myndir á vélina en meirihluti myndanna lenti því miður í ruslinu (restin er á flickr). Ég er svo einstaklega klaufsk að ég lét mér þetta ekki að kenningu verða og rann næstum því fram af bröttum klettastíg daginn eftir. Stundum er það mesta furða að ég hafi aldrei þurft að kalla til björgunarsveitir þegar ég er að hlaupa upp á fjöll.

Eftir svona svaðilför á maður skilið sérlega matarmikið pasta, að mínu mati. Ég er alveg forfallinn aðdáandi carbonara en bý það sjaldan til sökum þess hversu krefjandi það er á meltuna. Þessi carbonararéttur frá Jamie Oliver er sérstaklega skemmtilegur þar sem rétturinn fær smá ferskt bragð frá myntu og garðertum (sem eru víst ranglega kallaðar grænar baunir). Ég nota alltaf frosnar garðertur (peas) því þær eru víst mjög fljótar að missa næringargildi og ferskleika og því er best að kaupa þær beint frá ræktanda eða djúpfrystar í poka.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með sítrónu og rækjum

Dvöl okkar í Bergen líður afskaplega hratt og það er eins og dagarnir hreinlega fljúgi frá mér. Við erum þó alltaf jafn ánægð hérna þrátt fyrir reglulegar úrkomur og einstaka kuldaskeið. Þegar sólin fór að skína um helgina þá nýttum við á tækifærið og töltum upp eitt bæjarfjallið hér í grenndinni. Løvstakken varð fyrir valinu í þetta skiptið og við áttum einstaklega skemmtilegan dag uppi á þessu lága fjalli með gullfallegt útsýni, nesti og (í Elmars tilfelli) nýja skó. Løvstakken er víst vinsælasta göngufjall Bergenbúa og ég var hæstánægð að sjá öll litlu krílin sem hlupu upp hæðarnar með foreldrum sínum.

Eitt af því sem ég elska við Bergen er fiskmarkaðurinn niðri við höfnina. Þar er hægt að fá ógrynni af ferskum, nýveiddum skelfiski (dauðum og lifandi), reyktan og grafin lax, alls kyns hrogn og tilbúinn mat. Því miður er þetta oft ein túristasúpa þar sem ekkert lát er á skemmtiferðaskipum sem virðast raða sér að bryggjunni á hverjum degi með tilheyrandi látum og mannmergð. Við hættum okkur samt niður á markað um daginn og keyptum hálft kíló af rækjum í þennan dásemdar pastarétt.

Ég er örugglega ekki ein um það að finnast sjávarréttir sérstaklega góðir með sítrónu (ég neita a.m.k. að trúa því að það sé bara sítrónuáráttan mín að tala) og þessi diskur blandar þessum tveimur hráefnum mjög vel saman. Rétturinn er léttur, ferskur og sumarlegur og það er sérstaklega gott að mala smá ferskan pipar yfir réttinn þegar búið er að skammta honum á diskana. Og, í guðanna bænum, notið bara alvöru ferskan parmesanost í þennan rétt. Allt annað er drasl.

SJÁ UPPSKRIFT

Sumarlegt linguine

Það er margt jákvætt við að vinna í bókabúð. Ég fæ tæplega helmingsafslátt af öllum bókum og vörum. Ég hef góða þekkingu á nýjustu útgáfunum og fæ að mæla með uppáhaldsbókunum mínum við viðskiptavini (frá því að ég byrjaði hef ég t.d. selt 80 eintök af Sjálfstæðu fólki). En það besta við að vinna í lítilli bókabúð er að útgefendur senda búðinni nýjar óútgefnar bækur sem hvata til að selja þær. Þegar eigandinn er búinn að fara í gegnum þær þá fáum við að eiga þær bækur sem vekja athygli okkar. Og það var einmitt þannig sem ég eignaðist nýjustu matreiðslubókina mína, Super Natural Every Day eftir matarbloggarann Heidi Swanson.

Heidi leggur mikla áherslu á hollt gænmetisfæði og hvetur lesendur sína til að elda aðeins úr óunnum og lífrænum hráefnum. Bókin er full af girnilegum uppskriftum og gullfallegum myndum sem hún hefur tekið sjálf. Ég byrjaði að merkja við uppskriftir sem mig langaði til að prófa en hætti að lokum við þegar ég sá að hver einasta blaðsíða sem ég fletti fékk merkimiða. Að lokum ákvað ég að búa til sumarpastað hennar þar sem það 1) virtist  auðvelt og 2) inniheldur chili og parmesan (ég er einföld sál). Rétturinn er léttur og bragðgóður og lítur einnig einstaklega sumarlega út. Ég notaði bæði gulan og grænan kúrbít, sáldraði smá chiliflögum ofan á réttinn og varð eitthvað svo hamingjusöm við að sjá hversu falleg litasamsetningin var.

Þar sem ég á það til að vera svolítið löt þegar það kemur að því að rífa niður grænmeti þá var rétturinn örugglega ekki eins flottur og hjá henni Heidi. Ég notaði rifjárnið á matvinnsluvélinni minni og það var aðeins of fínt þannig að kúrbíturinn varð að smá mauki. Og þó það skaði ekki bragðið þá mæli ég með því að nota gróft handrifjárn (þ.e. fyrir þau ykkar sem er mjög umhugað um útlit matarins).

SJÁ UPPSKRIFT

Sítrónupasta með rjóma, beikoni og basilíku

Ég er gripin sítrónuæði. Það eina sem mig langar virkilega til að borða er sítrónubragðbættur matur. Í hvert skipti sem ég rekst á uppskrift á netinu sem notar sítrónur þá langar mig strax til að hlaupa út í búð, kaupa í réttinn og borða á við þrjá. Sem er einmitt nákvæmlega það sem ég gerði þegar ég sá þessa uppskrift á smitten kitchen um daginn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég bý til sítrónupasta (sjá hér) en mig langaði til að breyta aðeins út frá uppskriftinni á SK til að gera réttinn aðeins saðsamari og vetrarlegri (því það er víst ennþá vetur, því miður). Ég ákvað því að skera niður smá beikon og steikja það með – enda er pasta, rjómi og beikon guðdómleg blanda. Ég var mjög ánægð með útkomuna en fyrir þá sem fá hroll yfir beikoni (af grænmetisætuástæðum eða bara af óskiljanlegum ástæðum) þá er rétturinn mjög góður beikonlaus.

SJÁ UPPSKRIFT

Ofnbakað rigatoni með eggaldini og furuhnetum

Við erum búin að taka sameiginlega ákvörðun um að við ætlum að hunsa hina amerísku Valentínusardagshefð. Elmar gerði reyndar tilraun til að taka þátt í súkkulaðigjafaæðinu í fyrra og gaf mér (ahemm) Twix. Mér fannst það reyndar alveg fínt því  af einhverjum ,óskiljanlegum’ ástæðum var ég sjúk í þetta súkkulaði á þessum tíma og það gerði kvöldvaktina í litlu hryllingsbókabúðinni mun betri fyrir vikið.

En áður en þið haldið að ég hafi blátt áfram hafnað degi sem býður upp á súkkulaði, blóm og kósýheit, þá var hluti af samkomulaginu að við héldum bónda- og konudag heilagan.  Reyndar bakaði ég bara möffins á bóndadaginn og bjóst því ekki við miklu húllumhæi á konudaginn. En sumir eru heppnari en aðrir og ég er ótrúlega heppin. Ég fékk þesssa fallegu túlípana og nýjasta Bon Appetit sem er troðfullt af uppskriftum af bökuðu pasta – nýjustu ástríðu minni í eldhúsinu.

Það er eitthvað við ofnbakað pasta á veturna. Það er auðvelt að matreiða það, það er sjóðandi heitt og (ef þið eruð eins og ég) troðfullt af osti sem teygist endalaust þegar maður lyftir bita upp úr mótinu. Mér finnst þetta líka skemmtileg tilbreytinging frá lasagna sem krefst þess að maður raði hráefninu í snyrtilegar hæðir í réttri röð því þessu má bara gluða beint í eldfast mót, sulla smá osti og pestói yfir og voilá.

Þessi réttur er mjög góður. Grænmetið ristast í ofninum og verður mjúkt en bragðmikið og basilíkan gefur ferskt og upplífgandi bragð. Ég var reyndar að blaðra svo mikið þegar ég útbjó réttinn að ég steingleymdi að setja tómatana með grænmetinu inn í ofninn og seinkaði því matnum um hálftíma því ég var handviss um að þeir máttu ekki missa sín. Matarskammturinn er mjög stór og ég sé fram á að við munum úða þessu í okkur alla helgina.

SJÁ UPPSKRIFT

Linguine með káli, furuhnetum, beikoni og osti

Þessi réttur er mjög oft í kvöldmat (og stundum hádegismat) hjá okkur. Hann er fljótlegur – tekur innan við 30 mínútur – og er virkilega ljúffengur. Ég gæti í raun borðað hann annan hvern dag án þess að fá leið á honum. Það er reyndar skrítið að ég skuli ekki hafa skrifað um hann áður en venjulega er ég í svo miklu letikasti þegar ég bý réttinn til að ég get ekki hugsað mér að dunda við myndtöku einnig. Ég nota yfirleitt blöðrukál í réttinn en nú veit ég ekki hversu fáanlegt það er heima á Íslandi. Blöðrukál er afbrigði af hvítkáli og ég hugsa að það sé líka hægt að nota hvítkál. En það má einnig nota annað grænmeti, t.d. spínat eða klettasalat.

Bónusinn við þennan pastarétt er hversu gaman það er að borða hann. Furuhneturnar og kálið gefa svolítið bit og mozzarella osturinn bráðnar og myndar litla klumpa af osti, beikoni og hnetum. Ég er reyndar alveg veik fyrir öllum réttum sem innihalda beikon eða pancetta og þeir fá sjálfkrafa stjörnu fyrir það eitt að nýta þetta guðdómlega hráefni.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: