Spagettí carbonara með myntu og garðertum
Eftir miklar bollaleggingar og veðurpælingar þá ákváðum við hjónin að flýja Bergen og héldum til Aurdal í Vestur Noregi. Við leigðum okkur lítinn kofa á rólegu tjaldstæði við Aurlandsána og eyddum þremur dögum í að ganga og skoða eitt fallegasta landsvæði sem ég hef augum litið. Áður en ég fór til Noregs hafði mamma sagt mér að Noregur sé eins og ,,Ísland á sterum“ og hún hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Fjöllin eru stórkostlega há og þverhnípt, dalirnir djúpir og gróðursælir og það er ekki þverfótað fyrir villiblómum og birkitrjám. Fegurðin er yfirgengileg. Það er algjör synd hvað það er dýrt að vera í Noregi og ferðast um því þetta er land sem ég gæti eytt ævinni í að skoða.
Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara í fjallgöngu þar sem fótunum var kippt undan mér þegar ég steig á sleipan stein, ég skall á hliðina í berg og er núna með lófastórt mar á mjöðminni. Það versta við fallið var að ég var með myndavélina óvarða um öxlina og linsan slóst við bergið og er (næstum því) öll. Ég hélt samt áfram að taka myndir á vélina en meirihluti myndanna lenti því miður í ruslinu (restin er á flickr). Ég er svo einstaklega klaufsk að ég lét mér þetta ekki að kenningu verða og rann næstum því fram af bröttum klettastíg daginn eftir. Stundum er það mesta furða að ég hafi aldrei þurft að kalla til björgunarsveitir þegar ég er að hlaupa upp á fjöll.
Eftir svona svaðilför á maður skilið sérlega matarmikið pasta, að mínu mati. Ég er alveg forfallinn aðdáandi carbonara en bý það sjaldan til sökum þess hversu krefjandi það er á meltuna. Þessi carbonararéttur frá Jamie Oliver er sérstaklega skemmtilegur þar sem rétturinn fær smá ferskt bragð frá myntu og garðertum (sem eru víst ranglega kallaðar grænar baunir). Ég nota alltaf frosnar garðertur (peas) því þær eru víst mjög fljótar að missa næringargildi og ferskleika og því er best að kaupa þær beint frá ræktanda eða djúpfrystar í poka.