Skip to content

Sumarlegt linguine

Það er margt jákvætt við að vinna í bókabúð. Ég fæ tæplega helmingsafslátt af öllum bókum og vörum. Ég hef góða þekkingu á nýjustu útgáfunum og fæ að mæla með uppáhaldsbókunum mínum við viðskiptavini (frá því að ég byrjaði hef ég t.d. selt 80 eintök af Sjálfstæðu fólki). En það besta við að vinna í lítilli bókabúð er að útgefendur senda búðinni nýjar óútgefnar bækur sem hvata til að selja þær. Þegar eigandinn er búinn að fara í gegnum þær þá fáum við að eiga þær bækur sem vekja athygli okkar. Og það var einmitt þannig sem ég eignaðist nýjustu matreiðslubókina mína, Super Natural Every Day eftir matarbloggarann Heidi Swanson.

Heidi leggur mikla áherslu á hollt gænmetisfæði og hvetur lesendur sína til að elda aðeins úr óunnum og lífrænum hráefnum. Bókin er full af girnilegum uppskriftum og gullfallegum myndum sem hún hefur tekið sjálf. Ég byrjaði að merkja við uppskriftir sem mig langaði til að prófa en hætti að lokum við þegar ég sá að hver einasta blaðsíða sem ég fletti fékk merkimiða. Að lokum ákvað ég að búa til sumarpastað hennar þar sem það 1) virtist  auðvelt og 2) inniheldur chili og parmesan (ég er einföld sál). Rétturinn er léttur og bragðgóður og lítur einnig einstaklega sumarlega út. Ég notaði bæði gulan og grænan kúrbít, sáldraði smá chiliflögum ofan á réttinn og varð eitthvað svo hamingjusöm við að sjá hversu falleg litasamsetningin var.

Þar sem ég á það til að vera svolítið löt þegar það kemur að því að rífa niður grænmeti þá var rétturinn örugglega ekki eins flottur og hjá henni Heidi. Ég notaði rifjárnið á matvinnsluvélinni minni og það var aðeins of fínt þannig að kúrbíturinn varð að smá mauki. Og þó það skaði ekki bragðið þá mæli ég með því að nota gróft handrifjárn (þ.e. fyrir þau ykkar sem er mjög umhugað um útlit matarins).

Linguine með kúrbít, chili og hvítlauk

(Heidi Swanson: Super Natural Every Day)

 • 2 meðalstórir kúrbítar (ca. 450 g), gróft rifnir
 • Sjávarsalt
 • 250 g linguine
 • 2 msk extra-virgin ólívuolía
 • 1 stórt hvítlauksrif, skorið í þunnar sneiðar
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 15 g smjör
 • 30 g parmesanostur, rifinn
 • Malaður svartur pipar

Aðferð:

Setjið kúrbítinn í sigti, sáldrið saltinu yfir og leyfið að sitja í ca. 10 mínútur.

Setjið vatn í pott, saltið vel og  náið upp suðu. Sjóðið pasta samkvæmt upplýsingum á pakkningu. Hellið síðan vatninu frá pastanu en geymið hluta af vatninu.

Hitið olívuolíuna á stórri pönnu. Bætið hvítlauk og chili út í og eldið á meðalháum hita í 1-2 mínútur, eða þangað til að hvítlaukurinn er farinn að taka á sig brúnan lit. Kreistið vatnið úr kúrbítsræmunum og setjið á pönnuna. Eldið í ca. 2 mínútur eða þar til kúrbíturinn mýkist. Hærið reglulega.

Bætið pastanu út í og hrærið örlitlu pastavatni saman við ef kúrbítsblandan virkar þurr. Blandið öllu vel saman, bætið ostinum og smjörinu saman við og blandið aftur vel saman þar til osturinn og smjörið hafa bráðnað.

Kryddið með salti og pipar. Berið fram ásamt parmesanosti, svörtum pipar og chiliflögum.

Fyrir 2 – 3

4 athugasemdir Post a comment
 1. Teitur #

  Mér líst einstaklega vel á þetta.

  22/05/2011
 2. Inga Þórey #

  Ég fór offörum með chili flögurnar, þarf að prófa aftur með MIKLU minna chili ;-)

  26/05/2011
 3. Auður #

  Þessi réttur er æði. Einfaldur, fljótlegur og barnvænn.

  02/11/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Súkkulaði- og bananabrauð með súkkulaðibitum « Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: