Quiche með blaðlauk og portobellosveppum
Ég, eins og aðrir, eldist víst með hverju árinu sem líður. Og oft finnst mér ég vera orðin mjög fullorðin. Ég er gift, bý í erlendri borg, er með masterspróf, kann að prjóna og baka vöfflur. Samt, þrátt fyrir fjöldamörg dæmi og beinar upplifanir, virðist mér fyrirmunað að geta lært nokkrar grundvallarlexíur. Ein af þessum meginreglum er að borða alltaf (alltaf!) kvöldmat áður en maður hittir vini sína á barnum og þá sérstaklega þegar eitt glas (*hóst* þrjú) af hvítvíni hefur runnið ljúflega niður í rólegheitunum heima. En þó þetta hafi hent mig oftar en ég kæri mig nokkurn tíma um að viðurkenna, þá fyllist ég samt alltaf einhverri illskiljanlegri blekkingu að ég sé slíkt ofurkvendi að ég þurfi ekki mat með víni.
Og þá þarf ég að viðurkenna að ég er í raun bara krakkagríslingur sem kann ekki að drekka.
Þetta henti mig sem sagt þessa helgi. Ég vaknaði morguninn eftir með dúndrandi höfuðverk og löngun til að hverfa undir sæng það sem eftir lifði dags þegar mig fór að ráma, í gegnum þykka þynnkumóðu, að vinur okkar hafi borgað reikninginn á barnum og kæruleysislega sagt að við ættum bara að bjóða honum í mat seinna. Og þar sem ég lifði mig mikið inn í ofurkvendistálmyndina á þeim tímapunkti þá bauð ég honum og kærustunni hans auðvitað í mat strax daginn eftir.
Svo ég reif mig fram úr rúminu, fór að laga til og undirbúa kvöldmat. Og þar sem ég var búin að ákveða að búa til quiche (í fyrsta skipti) kvöldið áður og hráefnið lá fyrir skemmdum inni í ísskáp þá vissi ég að uppskriftin yrði tækluð undir þessum erfiðu kringumstæðum.
Þetta er svolítið langt frá því að vera fljótlegur réttur, laukurinn þarf að eldast í hálftíma og bökuskelin þarf að hvílast inni í ísskáp í rúman klukkutíma, en hann er tiltölulega einfaldur og sérstaklega ljúffengur. Skelin er gerð úr smjördeigi og eggjablandan og osturinn ljá réttinum mjög mjúka áferð og ríkt bragð. Það er auðvitað hægt að búa til smjördeigið fyrirfram og frysta það (það geymist í frysti í ca. 1 mánuð).
Quiche með blaðlauk og portobellosveppum
(Aðlögun frá Juliu Child, Mastering the Art of French Cooking)
Skelin:
- 155 g hveiti
- 1/2 tsk salt
- 1/4 tsk sykur
- 115 g smjör, kælt og skorið í litla bita.
- 2 – 3 msk ískalt vatn
Aðferð:
Hitið ofninn í 400°F/200°C. Og smyrjið hringlaga quiche eða annað bökunarmót (helst smelluform eða eitthvað með fjarlægjanlegum botni).
Takið fram matvinnsluvél og blandið saman hveiti, salti og sykri í skálinni. Bætið smjörinu saman við og vinnið þar til blandan lítur út fyrir að vera grófkorna, 8 – 10 sekúndur.
Með vélina í gangi, hellið ísvatninu í einni rólegri bunu ofan í. Notið síðan púlstakkann til að blanda deiginu saman þar til það verður hvorki blautt né klístrað. (Passið ykkur samt að láta vélina ekki vinna lengur en 30 sekúndur.) Prófið deigið með því að þrýsti því á milli puttanna, ef það er laust í sér bætið þá við annarri matskeið af ísvatni.
Þrýstið deiginu saman og myndið disk úr því. Vefjið þétt í plastfilmu og setjið í ísskápinn. Leyfið að kólna í a.m.k. klukkutíma. Það má líka geyma deigið inn í frysti í allt að 1 mánuð.
Takið síðan deigið úr ísskápnum og setjið það á hveitistráðan bekk. Fletjið það út í hring þar til það er 4 cm breiðara en bökunarformið. Ef deigið er mjög hart þá er gott að berja aðeins ofan á það með kökukeflinu. Gerið þetta eins snögglega og hægt er svo að smjörið í deiginu fari ekki að bráðna. Rúllið deiginu upp á kökukeflið og breiðið úr því yfir bökunarformið. Þrýstið deiginu létt niður í formið og vel í hliðarnar. Skerið allt aukadeig frá börmunum á forminu. Gatið botninn á deiginu með gaffli með rúmlega 1 sm millibili.
Leggið álfilmu yfir deigið og þrýstið ofan á. Hellið hrísgrjónum eða þurrkuðum baunum ofan í (til að þyngja svo að skelin lyfti sér ekki of mikið í ofninum). Bakið í 8 – 9 mínútur. Fjarlægið álfilmuna með þyngdinni og bakið í 2 – 3 mínútur í viðbót eða þar til skelin hefur tekið á sig ljósbrúnan lit og er farin að skreppa frá hliðunum.
Fyllingin:
- 4 blaðlaukar, aðeins hvíti hlutinn, skorinn í sneiðar
- 100 ml vatn
- 1 1/2 msk hvítvín (má sleppa)
- Salt
- 30 g smjör
- 4 portobellosveppir, skornir í tvennt og svo í sneiðar
- 1 msk púrtvín
- 3 egg
- 300 ml rjómi
- 30 g rifinn ostur (ég notaði Gruyere)
- 10 g smjör, skorið í mjög lita bita
Aðferð:
Hitið ofninn í 375°F/180°C.
Sjóðið blaðlaukinn í potti ásamt vatni, hvítvíni, teskeið af salti og 20 g af smjöri þar til nánast allur vökvi hefur gufað upp. Lækkið hitann og eldið í 20 til 30 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjög mjúkur. Setjið til hliðar.
Bætið 10 g af smjöri út í pottinn ásamt 1/4 tsk salti og púrtvíni. Lokið pottinum og leyfið að malla í ca. 8 mínútur. Takið lokið af pottinum og sjóðið í nokkrar mínútur, þar til vökvinn hefur alveg gufað upp og sveppirnir eru farnir að steikjast í brúnu smjöri. Blandið saman við blaðlaukinn.
Hrærið saman eggjum, rjóma og mjólk í stórri skál. Saltið og piprið. Hrærið síðan sveppunum og blaðlauknum saman við. Hellið blöndunni í hálfbakaða smjördeigsskelina og sáldrið osti og smjöri yfir. Bakið í efra hluta ofnsins í 25 til 30 mínútur.
Fyrir 2 – 3
Þú ert alveg ótrúlega, ég er svo mikill mathákur og líður svo illa svöng að ég get bara ekki misst út máltíðir!
En namm namm ég elska quiche en hef ekki smakkað svona :-)