Skip to content

Orecchiette með grænkáli og stökkum brauðmolum

Ég er mjög spennt fyrir febrúarhefti Bon Appétit og hef flett því fram og aftur á kvöldin. Umfjöllunarefni mánaðarins er pasta og þau hafa þróað sjö afar girnilegar uppskriftir. Ég er sjúk í pasta á veturna og finnst mjög notalegt að malla slíka rétti á köldum kvöldum. Við höfum núna prófað tvær af þessum sjö uppskriftum og mig langaði til að deila annarri þeirra með ykkur.

Orecchiette er tegund af pasta sem finnst aðallega í Puglia-héraði á Ítalíu og fæst í flestum matvörubúðum hérna úti. Það má auðvitað skipta því út fyrir annað lítið pasta – eins og skeljar eða jafnvel skrúfur. Aðalhráefnið er grænkál – sem er víst pakkað af alls kyns hollustu – og svo er chili, ansjósur og góður skammtur af hvítlauk. Punkturinn yfir i-ið er pönnusteikt brauðmylsna sem er brakandi stökk og gefur réttinum mikinn karakter.

Orecchiette með grænkáli og stökkum brauðmolum

(Breytt uppskrift úr Bon Appétit, Febrúar 2013)

 • 450 g grænkál, skerið breiðustu stilkana frá og hendið
 • 5 msk ólívuolía
 • 1 bolli gróf brauðmylsna
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • Malaður svartur pipar
 • 30 g smjör
 • 4 ansjósuflök
 • 1/4 tsk chiliflögur
 • 450 g orecchiette (eða annað pasta)
 • 1/4 bolli parmesanostur, rifinn

Aðferð:

Notið stóran pott, fyllið hann næstum því alla leið af vatni, saltið og setjið yfir hita. Náið upp suðu.

Skellið grænkálinu í tveimur hlutum ofan í pottinn og sjóðið í 4 mínútur. Takið grænkálið upp úr og dreifið úr því á ofnplötu. Leyfið að kólna. Kreistið síðan vatnið úr kálinu og saxið. Setjið til hliðar.

Hitið 3 msk af ólívuolíunni á lítilli pönnu. Hellið brauðmylsnunni út á pönnuna og veltið upp úr olíunni. Steikið í 4 mínútur, eða þar til brauðmyslnan er farin að byrja að gyllast. Setjið 1/3 af saxaða hvítlauknum út á pönnuna og stekið í 3 mínútur í viðbót, eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt á litinn. Dreifið úr brauðmylsnunni á eldhúspappír og sáldrið smá salti og pipar yfir.

Náið aftur upp suðu í pottinum sem grænkálið var soðið í. Þegar suðu er náð skal setja pastað út í og sjóða þar til það er orðið al dente.

Hitið smjörið og 2 msk af ólívuolíu í meðalstórum potti. Bætið ansjósuflökum, chiliflögum og restinni af hvítlauknum út í. Maukið með skeið eða gaffli og steikið í ca. 2 mínútur. Hellið saxaða grænkálinu út í ásamt 1/2 bolla af vatni og hrærið vel í svo að grænkálið blandast vel saman við ansjósumaukið. Smakkið og saltið og piprið eftir smekk.

Hellið vatninu frá pastanu (en geymið 1 bolla af pastavatninu) þegar það er búið að eldast. Bætið pastanu saman við grænkálið og hrærið vel saman. Hækkið hitann undir pottinum. Bætið pastavatni við smám saman og hrærið vel í þar til grænkálið límist vel við pastað. Það þarf kannski ekki að nota allan bollann af vatninu til að ná þessu stigi.

Bætið ostinum og helmingnum af brauðmylsnunni saman við og hrærið vel saman.

Takið pottinn af hitanum. Berið strax fram og rífið meiri parmesanost yfir hvern disk og sáldrið restinni af brauðmylsnunni yfir.

Fyrir 4

Prenta uppskrift

2 athugasemdir Post a comment
 1. Holmfríður #

  Sæl. Hvernig ansjosur notarðu? ;)

  05/02/2013
  • Ég notaði ansjósur í olíu. Ég man ekki alveg frá hvaða framleiðanda…

   05/02/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: