Skip to content

Spagettí með risarækjum og klettasalati

Gleðilegt sumar!

Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.

Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.

Spagettí með risarækjum og klettasalati

(Uppskrift frá Jamie Oliver: Jamie in Italy)

 • 450 g spagettí
 • salt og pipar
 • extra virgin ólívuolía
 • 2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • 1 – 2 þurrkaðir chili, fínt saxaðir eða þurrkaðar chiliflögur (1/4 tsk – 1/2 tsk, eftir smekk)
 • 400 g risarækjur, afþýddar og skelin tekin af
 • 1 lítið hvítvínsglas
 • 2 stórar matskeiðar mauk úr sólþurrkuðum tómötum (ef þið finnið ekki mauk má mauka 6 sólþurrkaða tómata í blandara)
 • börkur (rifinn) og safi úr 1 sítrónu
 • 2 handfylli klettasalat

Aðferð:

Sjóðið pastað samkvæmt upplýsingum á pakkningu. Geymið hluta af pastavatninu og hellið síðan öllu vatninu frá.

Hitið ólívuolíu á stórri pönnu og setjið saxaða hvítlaukinn og þurrkað chili út á pönnuna. Þegar hvítlaukurinn fer að gyllast skal setja risarækjurnar á pönnuna og elda þær í ca. 1 mínútu. Hellið hvítvínsglasinu út á pönnuna og setjið tómatmaukið á pönnuna. Hrærið öllu saman og eldið í ca. 2 mínútur. Setjið spagettíið út á pönnuna og blandið öllu vel saman þar til sósan þekur pastað. Ef pastað er þurrt og blandast ekki vel við sósuna skal bæta smá pastasoði við þar. Takið af hitanum. Blandið sítrónuberki og safa saman við og setjið klettasalati’ út á. Blandið öllu vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.

Berið fram með pipar, parmesanosti og hvítvíni.

Fyrir 3 – 4

Prenta uppskrift 

7 athugasemdir Post a comment
 1. Guðný Ólafsdóttir #

  Takk fyrir þessa uppskrift Nanna, kvöldmatnum á þessum bæ reddað! Mikið óskaplega held ég afinn og amman í Kóp hafi verið glöð að sjá fréttirnar! ;)

  26/04/2013
 2. Nei! Við erum einmitt líka að flytja til Íslands í sumar og það er rúmur mánuður síðan ákvörðunin var tekin :) Er einmitt í akkúrat sömu sporum að drekka í mig hvern einasta sólargeisla og njóta í botn!

  26/04/2013
 3. P.S. Ég er samt ennþá að velta því fyrir mér hvort þetta sé bölvuð vitleysa, svo við erum kannski ekki alveg í sömu sporum :)

  26/04/2013
  • Æj veistu, ég er ekkert svo viss um þessa ákvörðun heldur og hugsa stundum hvað við séum eiginlega að gera. En svo man ég eftir leigunni, stærðinni á íbúðinni, músaganginum (það birtist önnur mús hjá okkur bara í gær) og hávaðanum í borginni og þá hugsa mér gott til glóðarinnar að komast heim.

   26/04/2013
 4. Gleðilegt sumar Nanna, held það verði alveg jafn gaman að fylgjast með eldamennskunni hér heima :-)

  26/04/2013
  • Takk fyrir það :) Það gleður mig mjög að heyra.

   26/04/2013

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: