Skip to content

Posts from the ‘Ítalskt’ Category

Orecchiette með grænkáli og stökkum brauðmolum

Ég er mjög spennt fyrir febrúarhefti Bon Appétit og hef flett því fram og aftur á kvöldin. Umfjöllunarefni mánaðarins er pasta og þau hafa þróað sjö afar girnilegar uppskriftir. Ég er sjúk í pasta á veturna og finnst mjög notalegt að malla slíka rétti á köldum kvöldum. Við höfum núna prófað tvær af þessum sjö uppskriftum og mig langaði til að deila annarri þeirra með ykkur.

Orecchiette er tegund af pasta sem finnst aðallega í Puglia-héraði á Ítalíu og fæst í flestum matvörubúðum hérna úti. Það má auðvitað skipta því út fyrir annað lítið pasta – eins og skeljar eða jafnvel skrúfur. Aðalhráefnið er grænkál – sem er víst pakkað af alls kyns hollustu – og svo er chili, ansjósur og góður skammtur af hvítlauk. Punkturinn yfir i-ið er pönnusteikt brauðmylsna sem er brakandi stökk og gefur réttinum mikinn karakter.

SJÁ UPPSKRIFT

Affogato með karamellugljáðum heslihnetum

Nú er árið senn á enda og ég trúi því vart hvað það hefur liðið ótrúlega hratt. En áður en við fikrum okkur yfir á nýtt ár og nýja tíma þá langaði mig til að deila með ykkur jólaeftirréttinum hjá okkur þetta árið. Mig langaði til að hafa eitthvað  létt og einfalt þar sem aðalrétturinn hjá okkur var bæði þungur og afskaplega fyrirhafnarmikill. Við höfum lengi ætlað okkur að búa til þennan ítalska eftirrétt eftir að hafa fengið hann með sykruðum möndlum á veitingastað hérna í hverfinu. Ég ákvað að búa til karamellugljáðar heslihnetur til að gefa réttinum smá bit og karakter. Þetta var fullkominn eftirréttur eftir allt þunga kjötið. Við mælum því með honum ef þið eruð ekki búin að ákveða hvað þið ætlið að bjóða upp á á gamlárskvöld – kaffið er örugglega sérstaklega hentugt fyrir þá sem vilja halda sér glaðvakandi fram yfir miðnætti.

SJÁ UPPSKRIFT

Klassískt tíramísú

Það eru liðin fjögur ár frá því að ég eyddi síðast hausti á Íslandi. Það er því langt síðan ég hef stolist í lopapeysur og þykka sokka í septembermánuði. En ,ástandið’ gerir mig þakkláta fyrir kulið í loftinu enda er ég orðin ansi ólétt á að líta og heitfeng eftir því. Nú styttist samt óðum í að ég fari að hætta að labba um eins og mörgæs í þrautakóng, geti sofið á maganum aftur og tekið út 9 mánaða sushiskammt á sem skemmstum tíma. Ég er spennt og afar óþreyjufull.

Ég held áfram að stelast í afrakstur annarra til að halda blogginu gangandi enda fer ekki mikið fyrir mér í eldhúsinu þessa dagana. Við erum búin að troða okkur inn á foreldra mína og systur í þessu fæðingarstússi og þar sem þau eru öll hvert öðru hæfileikaríkara á matreiðslusviðinu þá ,leyfi’ ég þeim að sjá að mestu leyti um eldhússtörfin. Mamma bjó til tíramísúið sitt um daginn og ég finn mig knúna til að deila uppskriftinni hennar með ykkur. Þetta er tíramísu upp á sitt allra besta með nóg af mascarpone og sterku kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Panna cotta með bláberjasósu

Sumarið er við það að renna sitt skeið og ég eiginlega skammast mín niður í tær þegar ég sé hversu ódugleg ég hef verið við að skrifa og setja inn uppskriftir. Á móti kemur er að ég hef haft það alveg einstaklega gott í Eyjafirðinum og Aðaldalnum síðasta mánuðinn. Við höfum borðað heil ógrynni af kjöti og fiski, farið í mýmargar sundferðir, lesið bækur og síðustu helgi tíndum við nokkra lítra af bláberjum við sumarbústað tengdaforeldra minna. Veðrið hefur heldur ekki spillt fyrir góðum stundum en ég man bara ekki eftir eins þurru og sólríku sumri fyrir norðan.

Tengdapabbi kom heim af veitingahúsi eitt kvöldið fyrir skömmu og hafði fengið að smakka panna cotta í fyrsta skiptið. Við ákváðum fljótlega eftir það að búa til slíkan eftirrétt í sameiningu í næstu bústaðarferð. Panna cotta er ítalskur eftirréttur, nafnið þýðir einfaldlega ,eldaður rjómi’ og á upptök sín í Piedmont héraðinu á norður Ítalíu. Við suðum saman rjóma, nýmjólk, sítrónu og vanillu og bættum síðan matarlími saman við. Búðingurinn er svo látinn kólna í formum og á þeim tíma þéttist hann allverulega. Það er því gott að búa réttinn til vel fyrir tímann svo hann fái góðan tíma til að þykkna. Við bárum hann fram með bláberjasósu úr bláberjauppskerunni okkar en það má bera hann fram með hvaða sætri sósu sem er (t.d. karamellusósu, súkkulaðisósu) eða bara með ferskum berjum.

SJÁ UPPSKRIFT

Fusilli með kúrbít og smjöri

Vorfiðringurinn er farinn að grafa alvarlega undan hæfileika mínum til að einbeita mér að námi. Íbúðin okkar verður bjartari með hverjum deginum, sólin skín í gegnum gardínurnar og allt ryk – hvert einasta rykkorn – sést greinilega. Ég tók því ómeðvitaða ákvörðun um að loka bókinni minni í gær og fara að þrífa íbúðina hátt og lágt. Sem betur fer er íbúðin mjög lítil og nett og því tók þetta ekki of langan tíma. Ég gat m.a.s. setið í síðdegissólinni með læmónaði og dáðst að afreki dagsins.

Ég vildi óska að ég væri eins stórtæk í eldhúsinu. Einhver eldamennskuleti hefur hellst yfir mig og ég hef hvorki viljað hugsa of mikið um hvað eigi að vera í kvöldmatinn né hvort ég nenni að elda það. Ég leita því í gamalkunna og einfalda rétti á meðan ég reyni að finna nýja í bókum og á netinu. Þessa uppskrift fann ég eiginlega fyrir algjöra slysni og rétturinn er einfaldur, ódýr og ófeimin við smjörmagn. Hann er líka ansi gómsætur. Kúrbíturinn er eldaður þar til hann verður afar mjúkur og kúrbítsbragðið kemur vel í gegn í sósunni sem verður til við eldunina. Ég hef samt aðeins breytt frá upprunalegri uppskrift – ég minnkaði smjörmagnið og bæti í staðinn við einni matskeið af jómfrúarolíu.

SJÁ UPPSKRIFT

Bruschetta með ofnbökuðu grænmeti

Ég borða yfirleitt ein á kvöldin tvisvar sinnum í viku. Elmar sækir kvöldfyrirlestra reglulega og á þeim dögum þarf ég að finna mér eitthvað að borða. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra heldur en að eldra fyrir mig eina og því enda þessi kvöld oft í því að ég fæ mér popp í kvöldmat og súkkulaði í eftirmat. Það er allt í lagi á meðan því stendur en yfirleitt fer maginn að láta í sér heyra þegar á líður. Ég er því farin að leita leiða til að búa til eitthvað einstaklega einfalt, gómsætt og létt. Og þessi bruschetta er einmitt það sem ég var að leita að.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: