Skip to content

Posts from the ‘Ódýrt’ Category

Jólagjafahugmynd #3: Ristaðar chílehnetur með rósmaríni

Ég er svolítið sein með þessa færslu því ég er búin að liggja í flensu í óralangan tíma. Ég reif mig framúr rúminu síðasta fimmtudag og skellti í mig einu staupi af bourbon til að hafa orku til að elda þakkargjörðarmat með Elmari og mæta með réttina okkar þrjá í mjög skemmtilegt matarboð (meira um það seinna). En, eins og ég hefði átt að gera mér fyllilega ljóst, sló mér niður aftur og ég flakkaði á milli sófans og rúmsins í allan gærdag. Og mikið afskaplega er það óendanlega leiðinlegt.

Þessi uppskrift er virkilega einföld og fljótlega gerð. Hún ætti því að vera sniðug fyrir þá sem eiga eftir einhverjar jólagjafir á Þorláksmessu og hreinlega geta ekki hugsað sér að ramba á milli búða til að finna eitthvað. Hneturnar eru líka ljómandi ljúffengar, góðar með jólabjór og sérstaklega hentugt partísnakk. Íbúðin okkar ilmar eins og rósmarín og ristaðar hnetur núna og mig er farið að klæja í fingurna að fá að hengja upp það litla jólaskraut sem við eigum.

SJÁ UPPSKRIFT

Heilhveitipönnukökur með banana og valhnetum ásamt soðsteiktum eplum

Við erum svo heppin að fá að njóta haustlitanna í óvenju langan tíma í ár. Veðrið hefur í rauninni verið afar gott og hverfið okkar er skreytt gulu, grænu, rauðu og appelsínugulu laufþaki. Einstaka sinnum rignir laufblöðum og minnir mann á hversu skammvinn þessi fallega árstíð í rauninni er og rekur mann út í daglega göngutúra í allri litadýrðinni. Jólin eru í raun skammt undan og ég á erfitt með að trúa því að Þakkargjörðarhátíðin er handan við hornið.

En eins mikið og mig langar til að vera úti í göngutúrum með myndavélina mína þá blasir sú staðreynd við að lok annarinnar er yfirvofandi og neyðir mig til þess að gera doktorsverkefninu mínu góð skil. Stundum finnst mér þetta allt saman vera aðeins of fullorðins og súrrealískt. Og hvað gerir maður þá? Ég mæli með pönnukökum. Pönnukökur gera allt betra. Þær minna mig á að stundum er gott að vera fullorðin og mega hella úr hálfri sírópskrukku yfir morgunmatinn sinn án þess að nokkur geti sagt manni að gæta hófs.

Ég notaði fínmalað heilhveiti í þessar pönnukökur og hugsa að ég haldi því áfram upp úr þessu. Ekki af því að heilhveiti er hollara en það hvíta, mér er nú alveg sama um það.  Heldur af því að heilhveitið gefur aðeins meira bragð og ég er ekki frá því að það sé lúmskur hnetukeimur af því. Það má auðvitað nota venjulegt heilhveiti í staðinn eða hvítt hveiti ef þið eruð hrifnari af því. Ég hafði keypt tvö epli á markaðinum og fannst þau heldur súr þannig að ég velti þeim upp úr smá sykri og steikti þau upp úr smjöri á pönnu. Þau voru mjög skemmtileg viðbót. Ég stappaði líka einn banana og saxaði handfylli af valhnetum og bætti við deigið og var mjög ánægð með útkomuna.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #2: Granóla með súkkulaðibitum

Ég er farin að hlakka mikið til jólanna. Það gerist yfirleitt þegar sólin hverfur fyrir klukkan fimm á daginn að ég finn fyrir mikilli þörf til að hengja upp lítil jólaljós alls staðar og kveikja á kertum. Ég hef aldrei kunnað vel við myrkrið sem fylgir vetrartíðinni og þó ég sé flutt frá Íslandi þá finnst mér ljósið of skammlíft í New York. Nú neyðist ég til að draga djúpt andann og herða mig – mér leiðist veturinn óskaplega.

En þrátt fyrir vetrarfælni mína þá þykir mér afskaplega vænt um jólin. Ef jólanna nyti ekki við þá væri ég búin að gefast upp í byrjun desember. Það er því sérstaklega upplífgandi að halda áfram með jólagjafafærslurnar. Í þessari viku bjó ég til granóla. Granóla er mjög einfalt og mér finnst þessi uppskrift eiga vel við jólin – kanilkryddað með súkkulaðibitum og þurrkuðum trönuberjum. Það er hægt að skipta út súkkulaðibitunum og trönuberjunum fyrir annað gúmmelaði, nota heslihnetur í staðinn fyrir möndlur, skipta út hlynsírópinu fyrir hunang – möguleikarnir eru margir. Það má borða það út í mjólk eða súrmjólk eða sem snakk beint upp úr krukkunni. Það er gott að stinga því í poka og nota sem nasl í fjallgöngur (eða aðrar göngur). Þetta er því tilvalin gjöf fyrir göngumanninn eða handa þeim sem kunna að meta góðan morgunmat.

SJÁ UPPSKRIFT

Bananapönnukökur með bláberjahlynsírópi


Ég er mjög þakklát fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum. Ég hef reyndar ekkert gaman af því að klæða mig í búning, hvað þá að finna einhverja snilldarhugmynd til að útfæra og reyni því að hafa mig hæga á meðan fólk hleypur um í ótrúlegustu múnderingum. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég finn lítinn innblástur í búningaverslunum. Vil ég vera sexí hjúkka, sexí nunna, sexí pandabjörn (já, það er til) eða sexí vatnsmelóna (já! líka til)? Nei, takk. En ég er þakklát vegna þess að þetta hægir aðeins á jólamaníunni hérna úti og það er aldrei fyrr en eftir hrekkjavöku sem jóladótið tekur yfir.

Ekki að ég hafi neitt út á jólin að setja. Ég er forfallið jólabarn og það er fátt sem mér finnst eins skemmtilegt og að halda upp á jólin. Ég er á því að jólin þurfi ekki að vera rándýrt fyrirbæri með útgjaldamiklu gjafastandi. Heimatilbúnar gjafir eru oft stórskemmtilegar, persónulegar og mun ódýrari en aðkeyptar gjafir. Ég ætla þess vegna að koma með eina gjafahugmynd í viku fram að jólum og ef ég kann ennþá að reikna þá gerir það sjö tillögur allt í allt! Þetta mun allt passa ofan í ódýrar glerkrukkur, dósir eða pappakassa og verður eitthvað aðeins frumlegra en smákökur í dollu (þó ég sé mjög hrifin af slíkum gjöfum). Þetta verða misflóknar uppskriftir en vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir. Og ætli ég fari ekki að vera tilbúin að bjóða jólin velkomin, þetta var útsýnið úr glugganum okkar síðustu helgi:

Pönnukökuæðið mitt hefur engin takmörk. Ég vil pönnukökur alla morgna og þá helst nýja útgáfu í hvert skipti. En þar sem móðir mín náði að kenna mér smá stillingu í æsku þá held ég aftur af mér (með herkjum) og steiki bara pönnukökur einu sinni í viku. Í þetta sinn töfruðum við fram bananapönnukökur og suðum saman frosin bláber og hlynsíróp. Sósan er algjör snilld og passar örugglega vel við flestar tegundir af amerískum pönnsum. Bananapönnukökurnar eru mjög bragðgóðar og saðsamar en ég myndi minnka aðeins sykurmagnið næst þegar ég geri þær. Ég vil frekar hafa pönnukökurnar minna sætar svo ég geti sleppt mér algjörlega í sírópsæðinu. Kannist þið við þetta?

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með graskeri og glóðaðri papriku

Ég er mjög hrifin af quesadillum. Þær eru góð leið til að nýta afganga, frábær afsökun til að borða bráðinn ost á brauðmeti og taka enga stund að matreiða. Í þetta sinn átti ég afgang af graskeri frá því að ég bjó til þennan pastarétt og leitaði uppi sniðuga leið til að nýta restina. Að lokum fann ég þessa uppskrift hjá Smitten Kitchen (Deb klikkar aldrei) og rótaði í frystinum okkar í leit að mexíkóskum hveitikökum.

Quesadillur eru sáraeinfaldar. Fyllingin er dreifð yfir hálfa hveitikökuna, osti stráð yfir, helmingnum lokað, penslað með smá ólívuolíu eða smjöri og steikt á heitri pönnu. Olían gerir það að verkum að hveitikakan myndar stökka og gyllta skorpu utan um heita fyllinguna. Osturinn bráðnar og límir hveitikökuna saman og gefur fyllingunni aðeins syndsamlegra bragð.

Okkur finnst best að borða quesadillurnar okkar með sterku salsa, fersku guacamole og (stundum) sýrðum rjóma. Það er líka gott að eiga þær í nesti því þær eru góðar kaldar og eru auðveldur fingramatur.


SJÁ UPPSKRIFT

Kaffipönnukökur

Ég náði loksins að rífa mig á fætur nógu snemma í morgun til að arka á markaðinn áður en hann fylltist af fólki. Það er orðið kalt í lofti og það var mjög hressandi að labba út í garð með kaldan vind í lopapeysuklæddu fanginu og bjarta morgunsólina í andlitinu. Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur af hverju ég get ekki sleppt því að eyða laugardagsmorgnunum mínum þarna.

Ég elska að vera með þennan stórkóstlega markað í göngufæri. Það er skemmtilegt og uppörvandi að versla matvæli beint frá ræktanda. Það þýðir að allt sem maður kaupir hefur verið ræktað í nágrenninu við náttúrulegar aðstæður í samræmi við veðráttu og árstíðir. Brauðið er bakað í bakaríum í hverfinu og fólkið sem selur varning sinn þarna hefur virkilegan áhuga og ástríðu fyrir því sem það gerir. Ég er einstaklega þakklát fyrir að fá tækifæri einu sinni í viku til að styrkja þennan viðkvæma iðnað og sleppa því að labba inn í flúórslýstan súpermarkaðinn.

Ég kom heim með stóran poka af grænmeti og fallegan eggjabakka frá kjúklingabóndanum og skellti í pönnukökur sem mig hefur lengi langað að prófa. Þetta eru óvenjulegar pönnukökur að því leyti að í þeim er kaffi. Kaffibragðið er samt alls ekki yfirþyrmandi heldur virkar frekar eins og krydd og parast því sérstaklega vel með te- eða kaffibolla.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: