
Ég er mjög þakklát fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum. Ég hef reyndar ekkert gaman af því að klæða mig í búning, hvað þá að finna einhverja snilldarhugmynd til að útfæra og reyni því að hafa mig hæga á meðan fólk hleypur um í ótrúlegustu múnderingum. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég finn lítinn innblástur í búningaverslunum. Vil ég vera sexí hjúkka, sexí nunna, sexí pandabjörn (já, það er til) eða sexí vatnsmelóna (já! líka til)? Nei, takk. En ég er þakklát vegna þess að þetta hægir aðeins á jólamaníunni hérna úti og það er aldrei fyrr en eftir hrekkjavöku sem jóladótið tekur yfir.

Ekki að ég hafi neitt út á jólin að setja. Ég er forfallið jólabarn og það er fátt sem mér finnst eins skemmtilegt og að halda upp á jólin. Ég er á því að jólin þurfi ekki að vera rándýrt fyrirbæri með útgjaldamiklu gjafastandi. Heimatilbúnar gjafir eru oft stórskemmtilegar, persónulegar og mun ódýrari en aðkeyptar gjafir. Ég ætla þess vegna að koma með eina gjafahugmynd í viku fram að jólum og ef ég kann ennþá að reikna þá gerir það sjö tillögur allt í allt! Þetta mun allt passa ofan í ódýrar glerkrukkur, dósir eða pappakassa og verður eitthvað aðeins frumlegra en smákökur í dollu (þó ég sé mjög hrifin af slíkum gjöfum). Þetta verða misflóknar uppskriftir en vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir. Og ætli ég fari ekki að vera tilbúin að bjóða jólin velkomin, þetta var útsýnið úr glugganum okkar síðustu helgi:

Pönnukökuæðið mitt hefur engin takmörk. Ég vil pönnukökur alla morgna og þá helst nýja útgáfu í hvert skipti. En þar sem móðir mín náði að kenna mér smá stillingu í æsku þá held ég aftur af mér (með herkjum) og steiki bara pönnukökur einu sinni í viku. Í þetta sinn töfruðum við fram bananapönnukökur og suðum saman frosin bláber og hlynsíróp. Sósan er algjör snilld og passar örugglega vel við flestar tegundir af amerískum pönnsum. Bananapönnukökurnar eru mjög bragðgóðar og saðsamar en ég myndi minnka aðeins sykurmagnið næst þegar ég geri þær. Ég vil frekar hafa pönnukökurnar minna sætar svo ég geti sleppt mér algjörlega í sírópsæðinu. Kannist þið við þetta?

Líkar við:
Líka við Hleð...