Skip to content

Posts from the ‘Indverskt’ Category

Chai masala

Ég tek stundum ekkert svo skynsamlegar ákvarðanir í lífinu, svona eins og vera ber. En það eru sumar óneitanlega vitlausar ákvarðanir – meðvitaðar sem og ómeðvitaðar – sem ég virðist endurtaka aftur og aftur og aftur. Eins og að sleppa því að borða morgunmat (sem endar í svimakasti og blóðsykursfalli laust fyrir hádegi) og fá mér nokkur vínglös á fastandi maga (svo mikil vitleysa). En þau reginmistök sem ég geri ár eftir ár er að hætta að klæða mig eftir veðri á vorin. Ég verð svo spennt að ég fer að troða lopapeysum og frakka lengst inn í skáp og dreg í staðinn fram peysur sem blæs auðveldlega í gegnum og léttan jakka. Í einskæru þrjóskukasti held ég út í sólríkt en hrollkalt veðrið alveg ótrúlega illa klædd og leyfi mér að þykjast að  sé komið sumar.

Þetta endar alltaf í því að ég fæ kvefpest og neyðist til að hafa mig hæga upp í sófa undir teppi með tebolla við höndina. Sem er alveg óendanlega leiðinlegt og langt frá því að vera það sem mig langar mest til að gera. Einhvern veginn var miklu ljúfara að vera lasin þegar ég bjó ennþá heima hjá mömmu og pabba og leyfði þeim að stjana við mig. Eitt af því sem mamma gaf mér oft þegar ég var lasin er þetta indverska kryddaða mjólkurte. Og ég er sannfærð um að það sé allra (kvef)meina bót. Þetta er líka mjög einfalt te (þrátt fyrir langan hráefnalista) og er kryddað, mjúkt og róandi. Ég er sannfærð um að þetta te og hvítlaukssúpan sem ég ætla að elda í kvöld muni lækna mig á mettíma.

SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingur í Tikka Masala

Það snjóar og snjóar í New York og ef eitthvað er að marka veðurspár þá heldur það áfram næstu daga. Við förum því seint að sjá fyrir endann á slabbi og klakapollum á göngustígum borgarinnar. Það er bara janúar en ég er strax farin að bíða eftir vorinu og hlakka til dagsins sem ég get pakkað niður vetrarfötunum og skónum og farið að spóka mig í Central Park. Það fer að verða augljóst að ég ætti að eiga heima í þurru og hlýju landi. Af hverju er svona langt til Ástralíu?

Annars fer hversdagslífið að komast í fastar skorður þar sem Elmar byrjar að kenna og sækja tíma í næstu viku og ég er byrjuð að sækja tíma í New York University. Ég fór í minn fyrsta tíma í gær og mér fannst alveg yndislegt að setjast aftur á skólabekk og fá að tala um lestrarefni vikunnar. Það er Whole Foods verslun rétt hjá skólanum og ég nýtti tækifærið, stökk inn og keypti í þennan indverska rétt og greip kippu af ísköldum bjór á tilboði í leiðinni. Rétturinn er mjög góður, kryddaður og sterkur. Ég notaði kjúklingalæri í staðinn fyrir kjúklingabringur og mér fannst það koma mjög vel út – enda eru lærin yfirleitt meyrari heldur en bringurnar. Svo er auðvitað hægt að nota lambakjöt í staðinn fyrir kjúklingakjöt og mig grunar að það komi mjög vel út, sérstaklega ef lambakjötið er grillað.


SJÁ UPPSKRIFT

Kjúklingabaunir í engifersósu & mangó lassi

Það er komið haust í New York og ég kveð hitann með söknuði. Það hefur kólnað heilmikið og það rigndi í allan dag. Við erum búin að eyða þessum sunnudegi innandyra að lesa og skrifa og því datt mér í hug að taka vel á móti haustinu með bragðmiklum mat. Við erum mjög hrifin af indverskum mat en lengi vel þá fannst mér allar tilraunir mínar að matreiða hann heima fyrir vera ansi misheppnaðar. Maturinn var ýmist of bragðlaus, of saltur eða bara hreinlega vondur. Ég ákvað á endanum að þetta væri ekki mér að kenna heldur uppskriftunum sem ég var að nota (einstaklega heppilegt) og lagðist í bókarannsóknir á amazon. Ég rakst á endanum á þessa bók og hún hefur reynst mér afskaplega vel, allt sem ég bý til er með þessum indælis indverska keim.

Í kvöld var kjúklingabaunaréttur fyrir valinu en mig langaði líka til að búa til eitthvað aukalega með því. Ég leitaði uppi uppskrift að mangó lassa, sem tæknilega séð er sumardrykkur en það er bara ekki hægt að ætlast til að ég sleppi sumrinu svo auðveldlega!

 

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: