Chai masala
Ég tek stundum ekkert svo skynsamlegar ákvarðanir í lífinu, svona eins og vera ber. En það eru sumar óneitanlega vitlausar ákvarðanir – meðvitaðar sem og ómeðvitaðar – sem ég virðist endurtaka aftur og aftur og aftur. Eins og að sleppa því að borða morgunmat (sem endar í svimakasti og blóðsykursfalli laust fyrir hádegi) og fá mér nokkur vínglös á fastandi maga (svo mikil vitleysa). En þau reginmistök sem ég geri ár eftir ár er að hætta að klæða mig eftir veðri á vorin. Ég verð svo spennt að ég fer að troða lopapeysum og frakka lengst inn í skáp og dreg í staðinn fram peysur sem blæs auðveldlega í gegnum og léttan jakka. Í einskæru þrjóskukasti held ég út í sólríkt en hrollkalt veðrið alveg ótrúlega illa klædd og leyfi mér að þykjast að nú sé komið sumar.
Þetta endar alltaf í því að ég fæ kvefpest og neyðist til að hafa mig hæga upp í sófa undir teppi með tebolla við höndina. Sem er alveg óendanlega leiðinlegt og langt frá því að vera það sem mig langar mest til að gera. Einhvern veginn var miklu ljúfara að vera lasin þegar ég bjó ennþá heima hjá mömmu og pabba og leyfði þeim að stjana við mig. Eitt af því sem mamma gaf mér oft þegar ég var lasin er þetta indverska kryddaða mjólkurte. Og ég er sannfærð um að það sé allra (kvef)meina bót. Þetta er líka mjög einfalt te (þrátt fyrir langan hráefnalista) og er kryddað, mjúkt og róandi. Ég er sannfærð um að þetta te og hvítlaukssúpan sem ég ætla að elda í kvöld muni lækna mig á mettíma.