Skip to content

Kjúklingur í Tikka Masala

Það snjóar og snjóar í New York og ef eitthvað er að marka veðurspár þá heldur það áfram næstu daga. Við förum því seint að sjá fyrir endann á slabbi og klakapollum á göngustígum borgarinnar. Það er bara janúar en ég er strax farin að bíða eftir vorinu og hlakka til dagsins sem ég get pakkað niður vetrarfötunum og skónum og farið að spóka mig í Central Park. Það fer að verða augljóst að ég ætti að eiga heima í þurru og hlýju landi. Af hverju er svona langt til Ástralíu?

Annars fer hversdagslífið að komast í fastar skorður þar sem Elmar byrjar að kenna og sækja tíma í næstu viku og ég er byrjuð að sækja tíma í New York University. Ég fór í minn fyrsta tíma í gær og mér fannst alveg yndislegt að setjast aftur á skólabekk og fá að tala um lestrarefni vikunnar. Það er Whole Foods verslun rétt hjá skólanum og ég nýtti tækifærið, stökk inn og keypti í þennan indverska rétt og greip kippu af ísköldum bjór á tilboði í leiðinni. Rétturinn er mjög góður, kryddaður og sterkur. Ég notaði kjúklingalæri í staðinn fyrir kjúklingabringur og mér fannst það koma mjög vel út – enda eru lærin yfirleitt meyrari heldur en bringurnar. Svo er auðvitað hægt að nota lambakjöt í staðinn fyrir kjúklingakjöt og mig grunar að það komi mjög vel út, sérstaklega ef lambakjötið er grillað.


Kjúklingur í Tikka Masala

(Jamie Oliver: Jamie’s Dinners)

  • 6 hvítlauksgeirar
  • 6 cm engiferrót, skrælið hýðið af
  • 2 – 3 fersk rauð chilialdin, fín söxuð
  • Ólívuolía
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 1 msk paprikuduft
  • 2 tsk malað kúmin
  • 2 tsk malað kóríander
  • 3 msk garam masala
  • 180 ml hreint jógúrt
  • 4 meðalstórar kjúklingabringur, eða 6 kjúklingalæri, skornar í stóra bita
  • 15 g smjör
  • 2 meðalstórir laukar, skornir í þunnar sneiðar
  • 2 msk tómatpúrra
  • Handfylli af kasjúhnetum, malaðar
  • Sjávarsalt
  • 100 ml rjómi
  • Handfylli af fersku kóríaner, gróft saxað
  • Safi úr 2 límónum

Aðferð:

Rífið hvítlauksgeirana og engiferrótina fínt niður með rifjárni, setjið í skál og bætið chilipiparnum saman við. Hitið ca 1/2 msk af ólívuolíu á pönnu og bætið sinnepsfræjunum saman við. Bætið þeim saman við hvítlaukinn, engiferið og chilipiparinn þegar fer að smella í fræjunum ásamt paprikunni, kúmininu, kóríandernum (malaða) og 2 msk af garam masala. Skiptið svo kryddblöndunni í tvennt og hrærið helmingnum saman við jógúrtið. Blandið kjúklingabitunum saman við jógúrtblönduna og leyfið kjúklingnum að marinerast í rúman hálftíma.

Bræðið smjörið í sömu pönnu og notuð var fyrir sinnepsfræin og steikið laukinn og restinni af kryddblöndunni. Eldið við vægan hita í ca. 15 mínútur, passið að laukurinn brúnist ekki of mikið. Bætið við tómatpúrrunni, hnetunum, 500 ml af vatni og 1/2 tsk af salti. Hærið vel og leyfið að hægsjóða í nokkrar mínútur. Leyfið sósunni að þykkjast svolítið, slökkvið síðan undir og setjið til hliðar.

Eldið kjúklinginn á heitri grillpönnu (eða á grillinu) þangað til hann hefur eldast í gegn. Það er einnig hægt að elda hann í ofninum á háum hita (280°C) eða á grillstillingunni ef hún er til staðar í ca. 15 – 20 mínútur (eftir því hversu stórir bitarnir eru).

Hitið sósuna og bætið rjómanum saman við ásamt 1 msk af garam masala. Bragðið – ef það virðist vanta fyllingu í bragðið eða ef það er lítið kryddbragð bætið þá meira salti saman við. Slökkvið undir pönnunni þegarsósan fer að sjóða og bætið kjúklingnum saman við.

Berið fram með fersku kóríander, límónusneiðum, heitum hrísgrjónum og/eða naan brauði.

Fyrir 4

8 athugasemdir Post a comment
  1. Emmi #

    Namm… eigum við að éta afganginn í kvöld?

    26/01/2011
  2. Embla #

    Þú ert svo myndarleg eiginkona!

    26/01/2011
  3. Inga Þórey #

    Ég er búin að kaupa inn í þennan rétt og bjór og þetta verður föstudagstrít fyrst þið Jenný mælið báðar svona eindregið með þessum tjikken í tikka masala – HLAKKA TIL! og ég sakna þín!

    28/01/2011
  4. Inga Þórey #

    NAMM! :-) Tveir ákafir þumalfingur upp í loft!

    28/01/2011
  5. Teitur #

    smátipps fyrir þá sem eru með kjúklingabringur. Setjið þær í ofn við um 120°C í klukkutíma eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Kjúklingabringur eldaðar svona halda rakanum í sér og eru mjúkar. Ég er að hugsa um að prófa þennan rétt með bringum í kvöld og gef skýrslu eftir fjóra tíma.

    29/01/2011
  6. Teitur #

    þá er eldamennskunni lokið. Kjúklingabringurnar voru hjúpaðar vel í marineringunni og bakaðar í rúmlega klukkutíma meðan sósan og annað var útbúið. Síðan færði ég bringurnar upp á skurðarbretti og skar í teninga og setti í sósuna. Bringubitarnir voru mjúkir og ljúfir. Tókst fullkomlega eins og til stóð.

    29/01/2011
    • Léstu bringurnar liggja í marineringunni í einhvern tíma áður en þú settir þær inn í ofn?

      29/01/2011
  7. Teitur #

    Nei – ég makaði marineringunni á bringurnar og stakk þeim inn í ofninn um leið og ég setti hann af stað. bringurnar bökuðust síðan í klukkutíma eftir að ofninn náði 120°C. Sumum á þessu heimili finnst bringukjötið svo miklu betra en lærin og þetta er ágæt aðferð.

    Þegar bringur eru eldaðar er þetta aðferðin til að kjötið verði mjúkt og safaríkt. það er hægt að snöggsteikja þær á heitri pönnu ef þú vilt, hafa ysta byrði pínu stökkt og kryddað (eða í hjúp) og stingur síðan í ofn á þessum hita. Ég ætla að prófa fljótlega bringur í japönsku panko og þá verður þetta aðferðin. Ef mér finnst að það þurfi meiri lit á pankoið þá hækka ég hitann töluvert síðustu mínúturnar.

    30/01/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: