Frönsk lauksúpa
Samfara skyndilegri hitabylgju heima á Íslandi hefur hitinn hérna snarlækkað og ég hélt að andlitið ætlaði að frjósa af mér þegar ég hljóp upp á jógastöð í morgun. Við erum í þeirri leiðinlegu aðstöðu að geta ekki stjórnað hitanum inni í íbúðinni okkar, það er hitakútur í kjallaranum sem hitar allt húsið og við erum upp á náð húseigandans komin þegar það kemur að hitastigi í húsinu. Honum finnst greinilega ekki kominn tími á að setja kyndingu á fullt og því er Elmar búinn að flytja vinnuaðstöðu sína upp að ofninum og ég klæði mig í allar lopaflíkur sem ég finn inni í skáp. Við (lesist: Elmar) erum búin að stoppa upp í allar sprungur og glufur með dagblöðum og föndrað við leiðir til að einangra loftkælinguna (sem hleypir inn svellköldu lofti). Ég ákvað því í tilefni veturs og fimbulkulda að búa til ekta vetrarrétt – franska lauksúpu.