Skip to content

Posts from the ‘Þakkargjörðarhátíð’ Category

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.

Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana.  Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.

SJÁ UPPSKRIFT

Pekanbitar með karamellu

Við héldum upp á Þakkargjörðarhátíðina um helgina heima hjá foreldrum mínum. Í rauninni þjófstörtuðum við hátíðinni þar sem hún er haldin síðasta fimmtudaginn í nóvember í Bandaríkjunum og enn er rúmur mánuður í það. En þar sem við fjölskyldan verðum farin aftur vestur um haf eftir örfáar vikur og vorum fjarri góðu gamni í fyrra þá var ákveðið að taka forskot á sæluna. Pabbi matreiddi kalkún, fyllingu og sósu, ég sá um þessa pekanbita og salat, og Embla bjó til bökuð epli í eftirmat (sjá uppskrift hér). Kvöldmaturinn var því með besta móti og sú litla gerði foreldrum sínum þann greiða að sofa í gegnum borðhaldið.

Ég ætla því að nýta tækifærið og setja inn uppskriftir að matnum á næstu dögum ef svo skyldi vera að einhverjir freistast til að halda uppá Þakkargjörðarhátíðina og vantar hugmyndir að matseðli kvöldsins. Ég byrja í raun í vitlausri röð þar sem þessir pekanbitar voru í eftirrétt með kaffinu. Þetta eiga í raun að vera kökubitar en þar sem þeir eru dísætir (og afar hitaeiningaríkir) þá ákvað ég að skera kökuna í litla munnbita og bjóða upp á sem konfekt. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég  hef minnkað hana og breytt aðeins eftir mínum smekkk. Bitarnir eru einstaklega góðir – botninn er smjörmikill og eilítið mjúkur, söxuðum pekanhnetum er velt upp úr hunangskaramellu og dreift yfir – og útkoman er syndsamleg.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: