Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum
Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.
Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana. Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.