Skip to content

Posts from the ‘Fljótlegt’ Category

Lambasalat með chili og myntu

Þá er ég búin að flýja hitabylgjuna miklu í Brooklyn og er komin í öllu þægilegra loftslag hérna heima á Íslandi. Það er eiginlega ekkert grín að vera í 35 stiga hita og glaðasólskini komin sjö mánuði á leið. Ég var farin að halda til að mestu leyti innandyra  þar sem loftkælingin var á fullu. Enda mátti ég eiginlega ekki við öðru eftir að hafa fengið hitaslag eftir einn heitan sólardag utandyra. Ég þakka því bara fyrir köldu goluna og fallega endalausa bláa himininn yfir sumarklæddu landinu. Litla krílið virðist líka una sátt við sitt og treður hælnum reglulega eins langt upp undir rifbein og hún mögulega kemst.

Ég kvarta líka ekki yfir því að vera komin í foreldrahús þar sem ég er í miklu yfirlæti og dekri. Mamma bjó til lambasalat handa okkur um daginn og ég er yfir mig hrifin af því. Það er einstaklega fljótlegt (enda eldað úr bókinni Nigella með hraði), ljúffengt og fallega grænt skreytt með fagurrauðu söxuðu chili. Salatsósan er með asísku ívafi og gefur kjötinu skemmtilegt mótvægi. Það er auðvitað best að hafa lambakjötið eldað að utan en rautt og meyrt að innan, skorið í þunnar sneiðar og dreift yfir salatblöðin.

Passið bara að hundurinn komist ekki í matinn.

SJÁ UPPSKRIFT

Hádegisverður að vori

Eitt það skemmtilegasta við að búa í New York er að uppgötva ný hverfi. Við Elmar fórum í göngutúr í sólríku veðri um daginn og ákváðum að labba í nýja átt. Eftir smá labb framhjá eilítið niðurníddum húsum og vanræktum görðum þá komum við að götu þar sem sjá mátti kaffihús, bari, veitingastaði og litlar fallegar búðir hvert sem við litum. Ég fann blómasala sem seldi mér stóran vönd af gulum blómum á þrjá dali og trítlaði heim með bros á vör. Þessi litla vin í Crown Heights hverfinu býður upp á mjög margt skemmtilegt og við hlökkum til að kanna það frekar í sumar.

Ég er orðin svo afskaplega leið á brauði með osti og sultu. Það er svo auðvelt að detta í einhverja eilífa endurtekningu á hádegismat og undanfarið höfum við gripið alltof oft í brauðpokann. Ég ákvað þess vegna að fara að finna uppskriftir að hollum, fljótlegum og ódýrum lausnum á þessum hádegisvanda. Ég rakst á útgáfu af þessum rétti hjá Joy, varð mjög spennt, pantaði bókina hennar Sophie Dahl af Amazon og hef síðan eldað hann tvisvar í hádeginu handa okkur.

Gleðilega páska!

SJÁ UPPSKRIFT

Bandarísk hjónabandssæla

Það er fátt sem mér finnst eins heimilislegt og nýbakað bakkelsi með kaffinu. Þegar ég var lítil og við ferðuðumst norður á Dalvík í heimsókn til ættingjanna þá var amma Lilja alltaf með heitt á könnunni og nýbúin að baka pönnukökur sem hún fyllti svo af þeyttum norðlenskum rjóma og sultu. Við tróðum okkur öll í litla eldhúsið hennar, horfðum út á sjóinn, göntuðumst og borðuðum á okkur gat. Í rauninni þykir mér alltaf mjög vænt um að koma norður í fallega sjávarþorpið – þar er kafftíminn athöfn út af fyrir sig og konurnar í ættinni afskaplega duglegar að baka.

Ég fann þessa uppskrift fyrir stuttu á 17 and baking og varð strax yfir mig hrifin (ætli smjör- og sultumagn hafi ekki verið aðalþátturinn í því). Þetta er í raun hjónabandssæluuppskrift eða mér finnst útkoman bera þess keim. Það má auðvitað nota hvaða sultu sem er í uppskriftina og þó ég sé ánægð með hindberjasultuna þá finnst mér rabarbarasultan alltaf skemmtilegust í svona köku.

SJÁ UPPSKRIFT

Kálsalat með ristuðum möndlum

Eins og ég minntist á í síðustu færslu þá fórum við hjónin í Þakkargjörðarveislu hjá vinum vina okkar. Þarna voru samankomnir útlendingar, Bandaríkjamenn, kettir og heil ósköp af forriturum. Við tróðum okkur inn í litla íbúð (lítil á íslenskum mælikvarða en ansi stór á mælikvarða New Yorkbúa), hlóðum borðið af alls kyns góðgæti og átum og drukkum í marga klukkutíma. Þessi hátíð er alveg stórskemmtileg og það er alltaf jafn yndislegt hvað Kaninn er gestrisinn og liðlegur þegar kemur að því að ,ættleiða’ fólk á þessum degi. Ég tók nokkrar myndir og þær eru að finna hér.

Við Elmar bjuggum til þrjá rétti – þetta salat, matarbollur eftir uppskrift frá Suðurríkjum Bandaríkjanna (birtist síðar) og hálfmisheppnaðan rósakálsrétt. Cressida vinkona okkar kom með brjálæðislega góða kartöflustöppu og borðið fylltist fljótlega af blómkálsquiche, tyrkneskum kjötbökum, sætri kartöflumús með pecanhnetum og sykurpúðum og svo mætti lengi telja. Það þarf því kannski ekki að taka fram að við ultum heim á leið svo södd að ég hélt ég þyrfti ekki að borða næsta mánuðinn. Ég elska að það skuli vera nokkrir dagar á ári þar sem maður er í góðum félagsskap og getur borðað fullt af góðum mat, drukkið gott vín með, hlaðið í sig eftirréttum og legið svo á meltunni í matarvímu eftir á. Og ég fæ ekkert samviskubit yfir hversu mikið ég nýt þess.

Þetta salat er brakandi ferskt og vínagrettan er sterk en passar mjög vel við kálið. Það veitti sérstaklega gott mótvægi við magnið af þungum og saðsömum réttum á borðinu. Það er mikið bit í kálinu og það passaði mjög vel við ristuðu möndlurnar og seltuna í parmesanostinum. Salatið sló reyndar alveg í gegn og var einn uppáhaldsréttur margra í veislunni. Það er gott eitt og sér en ég hugsa að það sé einstaklega sniðugt sem meðlæti með kjöt- og fuglaréttum.

SJÁ UPPSKRIFT

Jólagjafahugmynd #3: Ristaðar chílehnetur með rósmaríni

Ég er svolítið sein með þessa færslu því ég er búin að liggja í flensu í óralangan tíma. Ég reif mig framúr rúminu síðasta fimmtudag og skellti í mig einu staupi af bourbon til að hafa orku til að elda þakkargjörðarmat með Elmari og mæta með réttina okkar þrjá í mjög skemmtilegt matarboð (meira um það seinna). En, eins og ég hefði átt að gera mér fyllilega ljóst, sló mér niður aftur og ég flakkaði á milli sófans og rúmsins í allan gærdag. Og mikið afskaplega er það óendanlega leiðinlegt.

Þessi uppskrift er virkilega einföld og fljótlega gerð. Hún ætti því að vera sniðug fyrir þá sem eiga eftir einhverjar jólagjafir á Þorláksmessu og hreinlega geta ekki hugsað sér að ramba á milli búða til að finna eitthvað. Hneturnar eru líka ljómandi ljúffengar, góðar með jólabjór og sérstaklega hentugt partísnakk. Íbúðin okkar ilmar eins og rósmarín og ristaðar hnetur núna og mig er farið að klæja í fingurna að fá að hengja upp það litla jólaskraut sem við eigum.

SJÁ UPPSKRIFT

Quesadillur með graskeri og glóðaðri papriku

Ég er mjög hrifin af quesadillum. Þær eru góð leið til að nýta afganga, frábær afsökun til að borða bráðinn ost á brauðmeti og taka enga stund að matreiða. Í þetta sinn átti ég afgang af graskeri frá því að ég bjó til þennan pastarétt og leitaði uppi sniðuga leið til að nýta restina. Að lokum fann ég þessa uppskrift hjá Smitten Kitchen (Deb klikkar aldrei) og rótaði í frystinum okkar í leit að mexíkóskum hveitikökum.

Quesadillur eru sáraeinfaldar. Fyllingin er dreifð yfir hálfa hveitikökuna, osti stráð yfir, helmingnum lokað, penslað með smá ólívuolíu eða smjöri og steikt á heitri pönnu. Olían gerir það að verkum að hveitikakan myndar stökka og gyllta skorpu utan um heita fyllinguna. Osturinn bráðnar og límir hveitikökuna saman og gefur fyllingunni aðeins syndsamlegra bragð.

Okkur finnst best að borða quesadillurnar okkar með sterku salsa, fersku guacamole og (stundum) sýrðum rjóma. Það er líka gott að eiga þær í nesti því þær eru góðar kaldar og eru auðveldur fingramatur.


SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: